Hundar Oddur Örvar hundur með rjúpu í munni

Published on April 3rd, 2016 | by Jakob Bjarnar Grétarsson

0

Stórkostlegir veiðihundar frá Húsavík

Innan við hundrað English Setter-hundar eru á Íslandi.

Oddur Örvar á Húsavík hefur glatt áhugamenn um veiði og hunda lengi, bæði á Facebook og YouTube, með sérlega skemmtilegum myndbandstökum af þrautþjálfuðum fuglahundum sínum.

„Ég er búinn að vera með þessa ensku Settera síðan 1997 þegar ég fékk minn fyrsta hund af þessari tegund. Ég hef staðið að innflutning á 4 enskum Setterum frá Noregi og af úrvals blóðlínum,“ segir Oddur Örvar og sá má vera ánægður með sína hunda. Það fer ekkert á milli mála þegar myndbandsbrotin eru skoðuð.

„Þessa hunda nota ég og þjálfa til rjúpna og andveiða. Ég er bara í þessu af áhuga og sem mín útivist; það er að þjálfa á heiðum og fjöllum.“

Eins og sjá má er um alveg einstaklega fallega hunda að ræða – agaða og vel þjálfaða.

Ekki eru margir hundar þessarar tegundar á Íslandi, þeir eru innan við hundrað, kannski svona um 70. En, Oddur Örvar, sem á þrjá hunda sjálfur, ræktar og nú er eitt got í gangi þannig að eitthvað fjölgar í hópnum. Veruleg eftirspurn er eftir þessum hundum, en verðið er 250 þúsund krónur.

„Það er mjög gott verð, og ekki erfitt að rökstyðja það,“ segir Oddur Örvar. „Sem dæmi kostaði síðasti hundur sem ég flutti inn 950 þúsund krónur enda var hann undan Evrópumeistara 2006 í hundafuglum. Með öðrum orðum, þetta eru hágæðahundar og hvergi til sparað.“

En, er mikið mál að þjálfa þá?

„Þá erum við komnir að því sem er skemmtilegast við þessa hunda. Þjálfunin. Í dag er ekki mikið mál að þjálfa því að það eru orðnir svo margir í sportinu sem vit hafa á hlutunum og hvernig á að gera þetta. Þá verður þjálfunin auðveldari og ánægjulegri. Þegar hundur er svo orðinn fullþjálfaður þá verður þjálfun svona útivistasport, mynda- og myndbands-tökur. Svoleiðis hluti geturðu ekki gert með ótraustum hundi. Með öðrum orðum þetta er bara tóm hamingja, útivist og skemmtun.“

En, sjón er sögu ríkari.

 

Comments

comments

Tags: , ,


About the AuthorLeave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Back to Top ↑