Stangveiði test

Published on April 3rd, 2016 | by Jakob Bjarnar Grétarsson

Næsti stórlaxagrósser Íslands

Vilhjálmur Snædal, uppgjafabóndi á Jökuldal, sér fyrir sér uppgang á Jökuldal tengslum við næsta undur Íslands á sviði laxveiði: Jöklu.

Vilhjálmur Snædal, uppgjafabóndi á Skjöldólfsstöðum í Jökuldal, er orðinn sjötugur, síkvikur og hress og veður á honum. Gripdeild tók hús á honum fyrir nokkru og fékk hann til að lýsa breytingunum sem orðið hafa á næsta undri í laxveiðinni, ef allt fer sem horfir: Jöklu.
Skjöldólfsstaðir eru fyrir miðjum Jökuldal. Þar niður kemur þjóðvegur eitt í Dalinn og fyrir ofan liggur Efri-Jökuldalur.

Kárahnjúkavirkjunin var formlega gangsett 30. nóvember árið 2007. Rúm sjö ár síðan þetta var. Þetta eru mestu umhverfisbreytingar sem farið hefur verið í og Jöklu var veitt eftir göngum yfir í Fljótsdal og þar út í Lagarfljót.

Kolmórauð Jökla breytist í tæra bergvatnsá
Villi hefur búið við Jökul í sjötíu ár og hann er rétti maðurinn til að spyrja: Hvernig hefur áin breyst við þetta?

„Hún breytist náttúrlega andskoti mikið. Hún er eðlileg á vorin. Seinni part vetrar var aldrei nein leysing úr jöklinum, þá óðstu hér yfir á vaðinu út og niðri við Gauksstaði og gast gert það á venjulegum stígvélum hálfháum, oft þegar hún var lítil á vorin. Síðan kemur leysingin, eins og er í henni núna. Það verður lengri leysing núna af því að það er svo mikill snjór. Svo verður hún þessi tæri lækur, gullfalleg. Það er mesta breytingin, þegar jökulleysingin kemur ekki. Silfurtær bergvatnsá. Og þá segja menn, sjáðu nú til, ýmsir sem þykjast hafa vit á laxi, að þetta verði með fallegri laxveiðiám.“
Stefnir í að Jökla verði mikil laxveiðiá
Þröstur Elliðason hjá Strengjum, hefur verið að vinna að seiðasleppingum í Jöklu nú um nokkurra ára skeið. Þröstur er sérfróður á því sviði, hann byggði upp Rangárnar sem slíkar og hefur yfirumsjá með Breiðdalsá, jafnframt. Villi sér fyrir sér að Jökla verði mögnuð laxveiðiá.

„Hún hefur svo marga möguleika; mikið af flúðum og hyljum og öllum pakkanum. Gríðarlega góð segja fræðimenn eins og Guðni Guðbergsson, ótrúlega góð. Sem þeir hefðu ekki trúað fyrst. Það eru svo góð skilyrði fyrir lax í henni. Það er þessi leiðni í henni sem er 80 til 100, sem er mjög gott. Eitthvað sem þeir kalla svo. Kaldáin úti í Hlíðinni er 20. Jökla er miklu betri en Kaldáin og Laxá og þær ár sem koma úr Smjörsu,“ segir Vilhjálmur. Leiðni er tengd steinefnum í vatninu, gosefnum.

 

Þröstur Elliðason hefur nú unnið að því árum saman að byggja Jöklu upp sem laxveiðiá.

Afburðalaxveiðiá að myndast
Á vefsvæði Strengja, sem sér um veiðina í Jöklu, segir að Jöklusvæðið hafi gefið 763 laxa sumarið 2015 og Jökla sjálf fór ekki á yfirfall á veiðitíma. Fyrir sumarið 2016 verður þetta svæði lengt aðeins ofar en fyrri mörk eða upp að veiðistaðnum Húsamót sem er glæsileg breiða með auðveldri aðkomu fyrir alla veiðimenn og töluvert af laxi virðist safnast þar einnig fyrir er leið á sumarið. Fleiri glæsilegir hylir og flúðir eru að uppgötvast á hverju sumri og eiga fjölmargir eftir að bætast við á næstu árum.

Sérðu þá fyrir þér að þetta verði afburða laxveiðiá?

„Jámm. Það var nú bara í fyrra sem var opnað. Það hefur veiðst heilmikið af laxi hérna allstaðar uppfrá, frá Hvanná og alla leið hér uppeftir. Í fyrra. Inn fyrir Arnórsstaði. En það var kannski ekki leitað nóg. Hvað hann fer langt? Hvort það þurfi að gera eitthvað á leiðinni uppeftir.“

Með laxastigum?

„Hvort það þurfi að laga eitthvað í einhverjum flúðum.“

Lengi stóð mikil styr um steinboga nokkurn, sem er neðan við bæinn Hauksstaði sem liggur neðarlega í Dalnum, rétt ofan Jöklusárhlíðar. Steinbogi þessi þýðir einfaldlega að upp fyrir hann komst enginn lax. Nú hefur verið gerður stigi, eða skurður, fyrir laxinn. Þessi framkvæmd mætti mikilli andstöðu á sínum tíma.

Deilur um Steinbogann
Hinn umdeildi Steinbogi eða Urðin en miklar deilur risu þegar bændur á Jökuldal vildu gera leiðina færa fyrir lax að fara upp Dal.

„Það var alveg ótrúlegt hvernig þeir létu, framsóknarmenn; Stefán Bogi Sveinsson forseti bæjarstjórnar, meðal annarra, með Hrafnabjargarmönnum frændum sínum. Þetta eru svo miklir aular. Þær sögðu kerlingarnar að það skal aldrei verða svo að helvítis Jökuldælingar fái laxinn okkar. Eins og þær hafi haldið það, greyin, að laxarnir myndu fljúga fram hjá þeim. Það vex gríðarlegur fjöldi af lax í ánni.“

Það er sem sagt þrátt fyrir Framsóknarmennina, en ekki vegna, sem nú stefnir í að Jökla sé að verða mikil laxveiðiá. Laxinn leitar stöðugt lengra upp Jöklu. Sérðu þá fyrir þér að verða feitur laxabóndi hér fyrir miðjum Jökuldal?

„Ég veit nú ekkert um það. En, snýst ekki lífið um það að… er þetta ekki afþreyingariðnaður, veiðin? Má ekki segja það. Eins og hvað annað sem verið er að gera fyrir ferðamenn? Ég held það. Og, við þurfum peninga hér til að lifa. Á þessu svæði. Og er ekki gott að hafa þá tekjur til þess? Ég sé ekki betur.“
(Þessi umfjöllun er unnin uppúr viðtali sem áður birtist á Fbl. og Vísi.)

Comments

comments

Tags: , , , ,


About the AuthorBack to Top ↑