Skotveiði Jbg á hreindýraveiðum

Published on April 9th, 2016 | by Ritstjórn

0

Með blóðbragð í munni á hreindýraslóð

Meðan þess er beðið að komast aftur austur, á hreindýraslóð, er rifjað upp þegar annar umsjónarmanna þessarar síðu fór fyrsta sinni á hreindýr.

Jakob Bjarnar Grétarsson sótti í fyrsta skipti um hreindýraleyfi árið 2009 og fékk dýr  á svæði eitt og tvö. Hann lenti í æsispennandi eltingarleik við hjörð og náði að fella tarf undir öruggri stjórn leiðsögumannsins Helga Jenssonar. Jakob segir hér undan og ofan af ferð sinni á Austurland nú í haust.

Myndir: Atli Geir Grétarsson.

„Ertu með skot í magasíninu?“ hvíslaði Helgi Jensson hreindýraveiðileiðsögumaður skipandi við blaðamanninn sem lá örmagna við hlið hans. Með blóðbragð í munni.

„Já,“ stundi ég.

„Settu það þá í byssuna. Þarna er flottur tarfur. Sérðu hann?“

Eins gott að Svarowski kíkirinn á Voere-rifflinum mínum .243 virkaði. Og riffillinn. Það var að skella á myrkur – síðasti séns. Við höfðum elt hjörð í um níu kílómetra, skríðandi eftir lækjardrögum, í stórum bogum að teknu tilliti til vindáttar. Engin miskunn hjá Helga sem rak mig áfram. Hreindýr eru lyktnæm og þau ber að nálgast áveðurs.

Nú blöstu nokkur dýr við í rúmlega hundrað metra fjarlægð. Ég lá á mel með riffilinn tilbúinn. Ekki mjög virðulegur því við það að skríða upp á melinn á maganum höfðu buxurnar dregist niður á læri. En það var varla að maður veitti því eftirtekt. Ég miðaði og skaut.

Hávaðinn í skotinu rauf kyrrðina. Það var líkt og tíminn stæði kyrr. Svo tók hjörðin á rás, mögnuð sjón og tarfurinn með! Hafði ég ekki hitt? Jú, það bar ekki á öðru. Hann dróst fljótlega aftur úr helsærður en var við að hverfa bak við ás á eftir hjörðinni. „Ég tek eitt skot til öryggis,“ sagði Helgi og örlaði fyrir spurn í setningunni. „Já, í guðanna bænum,“ sagði ég.

Skaðvaldurinn Jósep „Fritzl“
Ferðin á hreindýraslóð átti sér nokkurn aðdraganda. Fyrir um þremur árum vorum við veiðifélagi minn Mikael Torfason rithöfundur báðir á starfslokasamningi. Tilurð þess er saga sem ekki verður sögð hér. En við notuðum tækifærið og drifum okkur í að taka byssuleyfið, námskeið í meðhöndlun skotvopna og námskeið á veiðikortið.

Mikki á 1. hreindýri

Mikki tekur sig vel út í veiðigírnum, með byssuna á öxl og í baksýn er Snæfell.

Veiðimennskan hefur undið hratt og örugglega upp á sig. Og við vorum farnir að hanga í tíma og ótíma í himnaríki hins græjuóða karlmanns – í Vesturröst hjá honum Ingó. Öflugir kúnnar, gíruðum okkur upp – „góðærisgírinn okkar,“ eins og Mikki kallar allt þetta veiðidót sem safnast hefur upp á tiltölulega skömmum tíma. Meðal þess handsmíðaður austurískur Voere-riffillinn sem Mikki skírði umsvifalaust Jósef í höfuðið á landa hans Joseph Fritzl, þess arma þrjóts, en þá með vísan til þess að þarna væri skaðræðis vopn á ferð. Við vorum sem sagt klárir í slaginn.

Eða þannig. Georg Lárusson hjá Landhelgisgæslunni hafði sagt mér frá því þegar hann fór á hreindýraveiðar með Pálma Gestssyni leikara og dró ekki úr lýsingunum – hreystimennið sjálft var gersamlega örmagna eftir eltingarleik við hreindýr. Líkamlegt form mitt var ekki uppá það besta. Mikki hafði það í flimtingum að hann þyrfti sennilega að taka mig á bakið og hnýta reipi í horn hreindýrsins og draga til byggða. Það gekk náttúrlega ekki að ætla sér að vera sem mæðuveik rolla uppá heiðum þannig að ég setti mig í samband við Gillzenegger, við líkamsræktarfrömuðinn snjalla, og hlýddi honum eftir bestu getu. Það leyfði ekki af því þar sem ég lá örmagna við hlið Helga uppi á grýttum mel milli Snæfells og Vatnajökuls. En tarfurinn lá.

Haukfránn leiðsögumaður
Við Mikki sóttum um hreindýraleyfi og fengum báðir. Hann kýr og ég tarf. Bróðir Mikka, Ingvi Reynir Berndsen, fékk einnig belju þannig að við tókum hann með í leiðangurinn auk bróður míns Atla Geirs og sonar hans Odds. Gabríel sonur Mikka var einnig með í för sem og vinur Ingva Jakob Einarsson – en þeir félagarnir báðir byssumaníakkar – forfallnir áhugamenn um skotvopn.

Komnir í færi og hver taug þanin

Komnir í færi við hjörðina og hver taug þanin.

Ég er ættaður af Jökuldal og var þar í sveit. Frændi minn og nafni, Jakob Karlsson, er alvanur hreindýraveiðimaður og var okkur innan handar með alla skipulagningu. Við gistum á Grund Jökuldal og lögðum upp að morgni mánudags 17. ágúst. Meiningin var að fara um svæðið með Kobba og reyna að staðsetja hjörð en enginn þekkir þetta land betur en Kobbi frændi – sannkallaður fjallagarpur. Veðurspáin var hins vegar ekki hagstæð næstu daga þannig að Helgi leiðsögumaður ákvað að koma með strax þann dag – sem reyndist þjóðráð. Talsverð súld hafði verið á Austurlandi og margir hafa þurft frá að hverfa án þess svo mikið sem að sjá dýr sökum slæms skyggnis.

Lengi vel leit þetta ekki vel út. Við fórum um alla Brúardali, ofan Jökuldals og undir Brúarjökul. Á svæði eitt. Við kíktum á Kringilsárrana, griðland hreindýranna, en nú brá svo við að þar sáust engin dýr. Helgi og Kobbi frændi höfðu aldrei upplifað það áður. Hvar gátu dýrin verið? En þar sem við vorum staddir norðan Hálslóns „skópaði“ Helgi Vesturöræfin, svæðið ofan Snæfells, og á einhvern magnaðan máta tókst honum að greina risastóra hjörð þar. Í órafjarlægð. Smáa díla. Það þurfti vanan mann til þess. Stefnan var því tekin þangað. Við ókum yfir virkjunina á svæði tvö og upp að Snæfelli þar sem betra útsýni var yfir svæðið. Það bar ekki á öðru. Þarna voru stórar hjarðir. Tvö hundruð dýr. En nú var að finna út hvernig hægt væri að nálgast þau.

Meistaralegt skot Mikka
Við ókum upp með Hálslóni, nánast undir jökul. Við gátum komist í færi við dýrin í um það bil kílómetra fjarlægð frá veginum. Og þangað arkaði hópurinn hálfboginn. Við náðum að koma okkur fyrir á lækjarbakka en dýrin stefndu bítandi nánast á okkur. Þau komu fyrir mel og allt í einu voru nokkur dýr í dauðafæri. Ég var með tarf í sigtinu en Kobbi frændi taldi það af og frá að eyða leyfinu í að skjóta hann – alltof lítill. Enginn stór tarfur var í hópnum, en þá er oft erfiðara að finna og var ákveðið að reyna að fella kýrnar.

jbg með lítinn tarf

Tarfurinn féll rétt undir myrkur. Hann var ekki stór, en mikið bragðaðist hann nú vel, blessaður.

Mikki skaut fyrst og þá Ingvi strax í kjölfarið. Það er eins og dýrin átti sig ekki á því fyrr en nokkrum andartökum eftir að skotin ríða af að ekki sé allt eins og vera ber. Svo tók hjörðin á rás lengst uppí fjall. Skot Mikka reyndist þannig að það fór í gegnum kýrina, sem var frekar smá, og í barka kálfs hennar. Mörgum þykir það kaldrifjað en ef kýr með kálf er skotin ber að skjóta kálfinn einnig. Kálfurinn hleypur með hjörðinni en kemur svo aftur í leit að mömmu. Já, ég veit. En það þurfti ekki að bíða kálfsins. Ingvi Reynir hitti sína kýr einnig og hún steindrapst í fyrsta skoti. Væn belja og tíu kílóum þyngri en Mikka kýr – 47 kíló. Fyrirsátin heppnaðist eins og best verður á kosið. En það lenti sem sagt á mér, gamla manninum, að arka á eftir hinum skreflanga Helga Jenssyni í leit að hjörðinni sem hafði forðað sér af vettvangi langa leið.

Bootcamp-bræðrum blótað
Það sem ég gat bölvað þeim bræðrum í hljóði þar sem ég hljóp við fót, hálfboginn og bakveikur á eftir Helga. Með fóru Atli og Oddur en eftir urðu hinir til að gera að hinum föllnu dýrum. Boot-campbræðrum. Í fanta formi. Af hverju gátu þeir ekki verið á þessum hlaupum? En eftir á að hyggja, þegar ég stóð yfir föllnum tarfinum gat maður ekki verið annað en ánægður. Í skýjunum. Alvöru eltingarleikur við hjörðina og fallegur tarfur lá í valnum. Meira fyrir peninginn.

Myrkrið var að skella á. Við urðum að skilja tarfinn eftir, tókum innan úr honum og opnuðum vel til að nota vindkælinguna. Hann yrði sóttur næsta dag. Við skildum lopapeysu eftir til að fæla refinn frá og kom á daginn að það virkaði vel. Reimar hreindýraverkandi á Egilsstöðum og helstur sérfræðingur landsins um hreindýraskrokka sagði tarfinn fullkominn: 84 kíló. Stærri eru þeir feitari og leiðinlegri við að eiga. Það var því fyrsta verk að kaupa frystiskáp undir bráðina. Óþarft að kvíða vetrinum þegar regluleg villibráðaveisla er í vændum.

Comments

comments

Tags: , , , , , , , , , , , , , , ,


About the Author

Sendu okkur myndir! Ritstjórn Gripdeildar, sem samanstendur af þeim Jakobi og Mikael, óskar eftir því að fá sendar myndir, myndbönd og fréttir á netfangið ritstjorn@gripdeild.is.Back to Top ↑