Skotveiði SONY DSC

Published on April 9th, 2016 | by Ritstjórn

0

Skothvellir stórhættulegir heyrn veiðimanna

Undirskriftasöfnun þar sem skorað er á ráðherra að aflétta banni á hljóðdempurum á byssur gengur hægt en bítandi.

Undirskrifasöfnun hefur verið hrundið af stað þar sem skorað er á Ólöfu Nordal innanríkisráðherra að aflétta banni á hljóðdempara á riffla og reyndar skammbyssur einnig. Áskorunin er einnig stíluð á ríkislögreglustjóra. Þegar þetta er skrifað eru komnar 1.432 undirskriftir á listann.

„Við skorum á þig, ágæti innanríkisráðherra, að fella alveg niður núgildandi vinnureglu stofnana innanríkisráðuneytisins um bann við hljóðdempurum eða takmarka hana við skot undir hljóðhraða og skammbyssur. Sjá nánar umsögn Umhverfisstofnunar (UST) um ný vopnalög frá 2012 um notkun hljóðdempara. Við þurfum að stíga skrefið inn í heim siðmenntaðra veiðiþjóða, heyrnar okkar vegna. Við getum ekki beðið eftir nýjum vopnalögum. Til þess er málið of brýnt og of mikið að veði.“

Svo segir í áskoruninni sem Guðfinnur Kristjánsson, sem búsettur er í Ungverjalandi, hratt af stað. Guðfinnur brýnir menn til dáða og hvetur til að ljá þessu mikilvæga máli fulltingi sitt með undirskrift. Hér ofar getur að líta stutt myndband frá danska Skotveiðisambandinu, sem er ákaflega upplýsandi: Þar eru gerðar hljóðmælingar og samanburður á skothvellum með og án hljóðdempara. Og, nú kemur gamla barnaskóladanskan sér vel.

Á spjallsvæði skotveiðifélagsins Skyttur hefur verið kynnt til sögunnar bréf og boðað að menn geti afritað það og sent á Ólöfu ráðherra, sem áskorun. Þar kemur fram að til að leyfa notkun hljóðdempara þurfi enga lagabreytingu, því ekki er sérstaklega kveðið á um þetta í lögum. Einungis þurfi afnám vinnureglu sem segir að hljóðdemparar séu ekki leyfðir nema í undantekningartilvikum, og á sú undantekning einkum og sérílagi við um þá sem fást við meindýr.

En, áherslan er á að vernda heyrn þeirra sem fást við byssur, veiðimenn og þá sem eru í skotfimi. „Þegar miðkveiktu (centerfire) skoti er hleypt af úr riffli myndast hávaði sem er á bilinu 165 – 170 db, stundum meira. Þó hlífar séu notaðar getur hávaðinn því samt verið yfir 130 db, sem veldur strax heyrnarskaða og beinlínis sársauka við 140 db. Heyrnarhlífar duga því ekki til sem heyrnarvörn. Hins vegar dugar notkun hljóðdempara og heyrnarhlífa saman til að ná skynjuðum hávaða niður í u.þ.b 100 db – sem er þó umtalsverður hávaði.“

Comments

comments

Tags: , , ,


About the Author

Sendu okkur myndir! Ritstjórn Gripdeildar, sem samanstendur af þeim Jakobi og Mikael, óskar eftir því að fá sendar myndir, myndbönd og fréttir á netfangið ritstjorn@gripdeild.is.Back to Top ↑