Stangveiði Jón Óskar og Hilmar Hansson

Published on April 12th, 2016 | by Ritstjórn

Fixeraður á að taka þann stóra á Jock Scott

Myndlistarmaðurinn Jón Óskar er einn þeirra fjölmörgu listamanna sem sér fegurðina í fluguveiði. Hann hefur þó ekki gengið svo langt að hefja fluguhnýtingar, sem þó ætti að liggja vel fyrir listamanninum.

„Nei, veistu… það hefur bara aldrei hvarflað að mér. Ekki setur Schumacher sjálfur bensín á bílinn sinn.“

Jón Óskar, sem þykir taka sig sérstaklega vel út á bakkanum og lítur helst ekki við tvíhendu, því henni fylgir of mikill „göslaragangur“ hefur á móti náð góðum tökum á einhendu; „hún er miklu flottari“, velur flugu vikunnar að þessu sinni. Og það vefst ekki fyrir honum.

Uppáhalds fluga Jóns Óskars er Scott Jock og hann lætur sig dreyma um það á bökkum Laxár í Aðaldal, að sá stóri stökkvi á Scott.

„Jock Scott! Einstaklega fallegt reist bak á þeirri flugu og það hvín í loftinu þegar maður skýtur henni þessa 40 metra, eða svo, út í ána.“ Ástæðan fyrir þessu vali Jóns, fyrir utan hinn fagurfræðilega, er sú saga sem honum var sögð þegar hann var sem oftar við veiðar í Aðaldalnum; af stærsta flugulaxi sem veiðst hefur á Íslandi en þar var að verki Jakob Hafstein í Höfðahyl 10. júlí árið 1942 og vó hann 36,5 pund.

„Á Jock Scott. Ég er fixeraður á að taka „þennan sama“ fisk og þá á Jock Scott. Ég hef aldrei fengið neitt á þessa flugu en mér finnst notalegt að hugsa til þess, þegar ég dorma á bakkanum, nákvæmlega þar sem hann tók þann lax.“

(Á myndinni hér ofar má sjá Jón Óskar í veiðigalla sínum, einmitt við Laxá í Aðaldal ásamt lærimeistara sínum í flugufræðum, sjálfum Hilmari Hanssyni, sem hlýtur að teljast einn helsti laxveiðimaður landsins.

 

Comments

comments

Tags: , , , , , ,


About the Author

Sendu okkur myndir! Ritstjórn Gripdeildar, sem samanstendur af þeim Jakobi og Mikael, óskar eftir því að fá sendar myndir, myndbönd og fréttir á netfangið ritstjorn@gripdeild.is.Back to Top ↑