Stangveiði SONY DSC

Published on April 14th, 2016 | by Ritstjórn

0

Goðsögnin Jensen og Fiskifluga hans

Engilbert Jensen er stórstjarna í dægurlagasögu Íslands sem söngvari Hljóma en hann er einnig goðsögn í lifanda lífi meðal stangveiðimanna, sem fluguhnýtingameistari.

Í kvöld, 14 apríl, var RISE fluguveiði-kvikmyndahátíðin haldin í stóra sal Háskólabíós. Allir helstu stangveiðinördar landsins voru mættir og var glatt á hjalla – góðra vina fundur. Málþing var haldið samhliða, þar sem rædd var skaðsemi laxeldis við Íslandsstrendur og mun Gripdeild fjalla um það við betra tækifæri.

Og, mikil veiðisýning var haldin í anddyri Háskólabíós, þar sem veiðispekúlantar kynntu þær ár sem þeir hafa umsjá með, veiðibúnaður var kynntur og fluguhnýtingameistarar sýndu listir sínar. Þar var Engilbert vitaskuld í öndvegi og var hann mættur í öllu sínu veldi með tæki sín og tól. Meistarinn var kátur og lék við hvurn sinn fingur.

Engilbert Jensen með allan sinn gír, í öndvegi á veiðisýningunni.

Útsendari Gripdeildar fylgdist með honum þegar hann hnýtti sína eina sína þekktustu flugu, Fiskifluguna sjálfa, og sagði hann að Pálmi vinur sinn Gunnarsson, söngvari og stangveiðisnillingur, hafi dregið margan fiskinn sem gein við einmitt þessari flugu.

Voðinn vís við Íslandsstrendur
Pálmi sjálfur lét sig ekki vanta, og staðfesti þetta. Hann var áhugasamur um málþingið og hann segir mikið í húfi. Skaðsemi fyrir íslenska náttúru gæti orðið með miklum ósköpum og óafturkræf ef fer sem horfir með stóraukningu í laxeldi; óhjákvæmilegt er að norskur eldislax sleppi úr kvíum og þá er voðinn vís. Genablöndun getur hæglega orðið. Svo eitthvað sé nefnt í tengslum við þann voða sem virðist yfirvofandi, en um það þarf að fjalla mun ítarlegar.

En, aftur að Fiskiflugu Jensens. Pálmi hefur einmitt gert þessa tilteknu flugu að sérstöku umfjöllunarefni í föstum veiðipistlum sem hann ritar fyrir Viðskiptablaðið, og með leyfi fundarstjóra grípum við niður í einn þeirra, enginn kann að lýsa flugum Jensens betur en einmitt Pálmi:

Fiskilfluga Jensens ber höfundi sínum fagurt vitni.

Ekki fara í laxveiði án Fiskiflugunnar
„Við Íslendingar eigum marga fluguhnýtingasnillinga. Þessir fluguhnýtarar hafa hannað flugur sem eru svo góðar að menn vilja helst ekki fara í veiðiferð án þess að eiga eintök af þeim í boxinu.

Vinur minn, Engilbert Jensen söngvari, er einn þeirra.

Pálmi kann vel að lýsa eigindum Fiskiflugunnar.

Ég hef fylgst með ferli hans sem fluguhnýtara og fluguveiðimanns frá byrjun og eins og við var að búast, tók hann þetta alla leið frá byrjun. Það er alltaf jafn ánægjulegt að kíkja í heimsókn til Jensen og fá að skoða það nýjasta sem verið er að hanna og fá eintök til að prófa í næstu veiðiferð. Þurrflugurnar frá Jensen eru eins góðar og slíkar flugur geta orðið. Púpurnar eru sér kapítuli en Jensen á það til að velta við steinum og ná í fyrirmyndirnar.

Toppflugupúpan er afrakstur slíkra æfinga og er fræg um allan heim. Straumflugurnar sem Jensen hefur hnýtt fyrir lax og silung eru hrein listaverk. Allt einhvern veginn rétt gert. Uppáhaldslaxaflugan mín, Fiskiflugan, kemur úr smiðju söngvarans, fluga sem sem ég læt mér ekki detta í hug að fara í laxveiðiferð án. Hún er hnýtt á léttan einkrók og lítið dressuð. Sérstaklega hentug fyrir yfirborðsveiði og gáruhnút.“

Comments

comments

Tags: , , , , ,


About the Author

Sendu okkur myndir! Ritstjórn Gripdeildar, sem samanstendur af þeim Jakobi og Mikael, óskar eftir því að fá sendar myndir, myndbönd og fréttir á netfangið ritstjorn@gripdeild.is.Back to Top ↑