Skotveiði SONY DSC

Published on May 4th, 2016 | by Ritstjórn

0

Sagan um riffilinn Jósep

Undirbúningur fyrir hreindýraveiðar sumarsins er hafinn. Nú vill svo að báðir umsjónarmenn þessarar síðu fengu tarf á svæði eitt: Vopnafjarðarheppur og hluti Fljótsdalshéraðs, það er Jökuldalur norðan Jökulsár á Brú og Jökulárhlíð, hluti Norðurþings; gamli Fjallahreppur, Svalbarðshreppur og Langanesbyggð. Ítarlega verður fjallað um þá ferð og allan undirbúning, hér á Gripdeild.

Þeir hafa þegar tryggt sér einn helsta fjallagarp landsins sem leiðsögumann, Jakob Karlsson frá Grund á Jökuldal, sem gerþekkir svæðið hvar hann hefur frá blautu barnsbeini flækst um frómur.

Einn fallegasti riffill landsins
En, þá er að huga að vopnabúrinu. Ekki er leiðinlegt að fara í byssuskápinn og draga þetta dýrindis djásn fram. Voere .243, LBV 20-03 LUX með sérhönnuðum festingum fyrir Swarovski-kíkinn. Við er ól og veltifótur.

Jósep heitir í höfuðið á óberminu Jósep Fritzl.

Þessi riffill, sem líkast til er einn fallegasti riffill landsins, er handsmíðaður af austurískum nákvæmnismönnum. Voere á reyndar rætur að rekja til Svartaskógar í Þýskalandi en 1948 stofnuðu þeir Ing. Eric Voetter og Paul Restle málmsmíðafyrirtæki sem hét KOMA, sem síðar varð Voere, sem eru upphafsstafir nafna stofnendanna.

Jakob Bjarnar keypti þennan riffil af helsta skotvopnaráðgjafa Gripdeildar, Ingó í Vesturröst, á því herrans ári 2008. Þá vildi svo til að báðir voru þeir Jakob og Mikael á ágætum starfslokasamningum, notuðu tækifærið og helltu sér út í veiðimennskuna. Til stóð að fara á hreindýr sem svo síðar varð. Ekki þótti annað vert en fá sér það besta sem í boði var. Þetta var á þeim tíma.

Heljarmennið Jakob Karlsson og Mikki, sem fékk Jósep lánaðan til að fella þennan tarf 19. ágúst 2013. (Mynd-jbg)

Óbermið Jósep Fritzl
Svo smátt kaliber varð fyrir valinu, en það má skipta um hlaup á rifflinum, ef til stendur að fara á fílaveiðar. Þetta er smæsta kaliberið sem leyfilegt er að nota á hreindýraveiðar, en Jósep hefur á samviskunni nokkur líf, svo sem hefur verið skotinn með honum selur og fáein hreindýr. Riffillinn lætur best með 80 grain-a kúlur en hins vegar þarf að vera með 100 grain-a kúlur á hreindýrinu. Þannig að hann verður að skjóta til.

Jósep? Já, Mikael er haldinn þeirri áráttu að vilja skíra skotvopn og af því að riffillinn er af austurískum uppruna, er skaðræðisgripur og einn af fáum austurískum mönnum sem veiðimennirnir kannast við er óbermið Jósep Fritzl, þessi sem hélt dætrum sínum í dýflissu og nauðgaði, þótti Mikael það rakið að klína nafninu Jósep á riffilinn. Og þannig er nú það – ekki verður á allt kosið í þessu lífi.

Jósep verður klár í slaginn í ágúst, en þá stendur til að fella tarfana. Mikael á hins vegar engan riffil. Til stendur að ráða á því bót og fá lesendur Gripdeildar að fylgjast með undirbúningnum. Þá verða vopnin sem Ingó á skoðuð, riffill keyptur auk þess sem Jósep fer til hans í skoðun; yfirhalningu og hreinsun.

Comments

comments

Tags: , , , , , , , ,


About the Author

Sendu okkur myndir! Ritstjórn Gripdeildar, sem samanstendur af þeim Jakobi og Mikael, óskar eftir því að fá sendar myndir, myndbönd og fréttir á netfangið ritstjorn@gripdeild.is.Back to Top ↑