Matreiðsla Þessi glaðbeitti gæsaveiðimaður veit ekkert betra en Kjötsúpu Jakobs þá hann er uppi á háheiðinni í veiðikofa.

Published on May 5th, 2016 | by Ritstjórn

0

Kjötsúpa Jakobs

Stór hluti hverrar veiðiferðar er kostur. Þetta vita verseraðir veiðimenn en kannski ekki þeir sem eru að hefja sinn feril í veiðinni. Veiðimennska er lífsnautn og svo það sé bara sagt umbúðalaust: Veiðimenn gera vel við sig í mat og drykk.

Í grófum dráttum eru til þrjár tegundir veiðiferða:

  1. a) Dagsferðir og þá taka menn til almennilegt nesti (þeir sem ekki stelast til að byrgja sig upp á næstu bensínstöð með mix-i og hangikjötssamlokum).
  2. b) 3 til 5 daga veiðiferðir þar sem veiðimenn sjá sjálfir um eldamennskuna í veiðihúsum.
  3. c) Dýrari týpan. Laxveiði þar sem staðarhaldari sér um veitingarnar.

Hér er litið til b). Gripdeild ráðleggur hópum sem eru að fara í veiðitúra að leggja niður matseðil áður en lagt er upp. Til að matvara sé sem ferskust er ágætt ráð að hóparnir hittist til dæmis í matvöruverslun í upphafi ferðar, á Borgarnesi eða Selfossi, séu menn að fara frá höfuðborginni og versla saman inn með hliðsjón af þeim matseðli.

Einn er sá réttur sem bregst ekki þegar menn koma misjafnlega kaldir í hús eftir veiðivolk, sem er gamla góða kjötsúpan. En, af því að hér er lagt uppúr lífsnautnum er súpan sú með tilbrigðum. Ef einhver býður uppá betri kjötsúpu en sú sem hér er nefnd til sögunnar skal sá sem hér heldur um penna hundur heita. Kjötsúpa Jakobs. Þetta er réttur sem er sómir sér vel í hvaða veiðihúsi sem er.

20120722_170949

Hrært í súpunni góðu sem engan svíkur. (Mynd – jbg)

1. skref: Takið til stóran pott, setjið vatn að einum fimmta og vægan hita undir (3). Setjið þar í súpujurtir (hinar dæmigerðu, 1/3 úr poka), 4 lárviðarlauf, 15 piparkorn og tvær lúkur af bankabyggi.

2. skref: Takið þá góða pönnu til handagagns. Best er að rista allt grænmeti létt á þessari pönnu og færi yfir í pottinn jafnóðum. Einhver gæti talið þetta tvíverknað en þetta er nauðsynlegt svo soðið verði með besta móti; ekki biturt eða rammt. Nauðsynlegt að hafa góða ólífuolíu við höndina, en henni er bætt á pönnuna eins og þurfa þykir. 2-3 góðar bökunarkartöflur, afhýddar og skornar í þægilega bita, rista og útí pott með þær. Sama gerum við þá með 4 – 5 gulrætur. Og sellerírót – sem er snilldin ein með lambakjöti; hálfan haus ef hann er vænn. (Virðist vel í lagt en þetta rýrnar lítillega við eldun.)

3. skref: Þá kemur fúttið; 2 vænir laukar, einn púrrulaukur, hálfur hvítlaukur, 1-2 chilli-pipar og allur notaður, sæmilegur biti af engifer og lúka af steinselju. Allt þetta er saxað niður og mýkt á pönnunni við ólífuolíu, sem ekki ber að spara.

4. skref: Þá er að krydda; ef við erum ekki með rósmarín ferskt þá skal steyta vel af því þurrkuðu og útá fer það, auk vel af grænmetiskrafti, pipar og cayenne-pipar. Athugið, svo mikið er af rótargrænmeti sem jafna út kryddin að ekki þarf að óttast að súpan verið of sterk; það er því í lagi að setja sæmilega vel af kryddum, þó rétt sé að hafa strangt taumhald á cayennepipar-austri. Þannig sakar ekki að setja timian og oregano útí jafnframt og leyfa því að vera með í partíinu. Þegar þetta, grænmeti og krydd, hafa tekið sig sæmilega á pönnunni, setjið þá vel yfir af vatni og sullið þessu þá í pottinn.

Þá er grunnurinn kominn. Margir vilja hafa rófur með í súpunni, en mér finnst rófusoð ekki málið, þannig að rófurnar fá að liggja á milli hluta. Þeir sem vilja geta soðið rófurnar sér og haft þær til hliðar. En, þegar þarna er komið sögu er fyrirliggjandi afbragðs grunnur; í raun úrvals grænmetissúpa.

5. skref: Kíló af nýslátruðu, súpukjöt. Setjið það í pott, vatn yfir og fjórar teskeiðar af sjávarsalti. Sjóðið í 40 mín. Sigtið sæmilega vel af soðinu út í hinn pottinn, skolið kjötið og færið yfir. Það má svo malla í korter-hálftíma.

Og á þessu má svo kjamsa í 2-3 daga, en gera má ráð fyrir því að þetta klárist hratt og örugglega. Bon appetit.

Comments

comments

Tags: ,


About the Author

Sendu okkur myndir! Ritstjórn Gripdeildar, sem samanstendur af þeim Jakobi og Mikael, óskar eftir því að fá sendar myndir, myndbönd og fréttir á netfangið ritstjorn@gripdeild.is.Back to Top ↑