Skotveiði SONY DSC

Published on May 22nd, 2016 | by Ritstjórn

0

Hreindýra- og sauðnautaveiðar á Grænlandi spennandi kostur

Christine Cuyler hélt bráðskemmtilegt og fróðlegt erindi um veiðar á Grænlandi, með áherslu á hreindýra- og sauðnautaveiðar, í húsakynnum Skotreynar á Álfsnesi sunnudaginn 22. maí. Gripdeild var á staðnum.

Ljóst má vera að Grænland er gósenland fyrir veiðimenn; hreindýr, sauðnaut, snjóhérar eru allt bráð sem veiðimenn geta komist í tæri við á Grænlandi – auk þess sem allar ár eru spriklandi af fiski.

Lifandi og skemmtilegur fyrirlestur
Cuyler, sem á Grænlandi er þekkt sem Chris, hefur verið búsett á Grænlandi nú í tuttugu ár. Hún er með doktorspróf í líffræði frá Oslóarháskóla og sér um rannsóknir á hreindýrum og sauðnautum fyrir Náttúrufræðistofnun Grænlands  í Nuuk. Hún annast ráðgjöf um veiðar og veiðikvóta til grænlenskra yfirvalda. Hún er fjörleg og brosmild kona, grönn og lágvaxinn og var frásögn hennar mjög lifandi. Hún studdist við fjölda mynda sem hún hafði tekið sjálf. Og hún dró ekki úr því að dýrin sem hún var að segja frá væru alveg einstaklega bragðgóð bráð.

Hún segir að vegna loftslagsbreytinga þurfi menn nú að hafa með sér riffil öllum stundum vegna þess að ísbirnir eru farnir að sýna sig á stöðum þar sem þeir voru óþekktir áður; á vesturströnd Grænlands. Þeir geta verið hættulegir og eru þeir skotnir umsvifalaust gerist þeir of nærgöngulir.

SONY DSC

Fyrirlestur Chris var í húsakynnum Skotreynar og svo skemmtilega vildi til að þar voru einmitt hausar af annars vegar hreindýri og hins vegar sauðnauti — en trófí-veiðar á Grænlandi verða vinsælli með hverju árinu.

Veiðar nauðsynlegar fyrir stofnana
Fyrirlesturinn var á vegum Skotreynar – Skotveiðifélag Reykjavíkur og nágrennis í samstarfi við Skotvís, og eiga þessir aðilar hrós skilið fyrir framtakið. Chris fór um víðan völl í erindi sínu en sjálf er hún veiðimaður og veit því um hvað hún er að tala. Var mál manna, í rabbi á sólpallinum eftir erindið, að nokkuð kvæði við annan tón hjá henni en oft má heyra þegar íslensk yfirvöld fjalla um veiðimennsku: En, þá má stundum halda að öll vandamál sem upp koma í tengslum við dýrastofna megi rekja til ofveiði. Chris rakti til að mynda það að hreindýrastofnar finnast ekki á austurströnd Grænlands, og það sé algerlega fráleitt að telja að það sé vegna veiða. Enda höfðu menn engin tæki og tól til að stunda stórfelldar veiðar þegar dýrin þar hurfu. Hún telur ljóst að halda þurfi stofnstærðum niðri svo ekki komi upp reglubundnar sveiflur upp á við sem óhjákvæmilega þýðir að dýr horfalli.

„Ég á myndir af dýrum sem hafa hlotið slíkan dauðdaga, og þær eru ekki fallegar,“ sagði Chris meðal annars.

Erlendir veiðimenn velkomnir
Veiðar eru nánast ótakmarkaðar, þó sumstaðar sé þeim stjórnað að teknu tilliti til talninga sem Chris hefur yfirumsjón með. Þá hafa verið brögð af því að atvinnuveiðimenn stundi stórfelld dráp, og selji kjöt undir borðið til ýmissa stofnana á Grænlandi en reynt hefur verið að sporna við fótum gegn slíku. Og eru slíkir nú illa séðir hrafnar.

Erlendir skotveiðimenn eru hins vegar aufúsugestir á Grænlandi. Eru ýmis svæði á Grænlandi þar sem litið er á slíkar heimsóknir sem góðan kost í efnahagslegu tilliti. Og ljóst er að fyrirlestur Christine Cuyler var ekki til að draga úr áhuga þeirra sem mættu, sem losaði tuginn og spurðu menn hinn góða gest spjörunum úr. Á Grænland koma menn gjarnan til að stunda „trófí-veiðimennsku“; ná sér í glæsileg dýr til að stoppa upp hausa. Eins og reyndar má sjá dæmi um í húsi Skotreynar þar sem eru myndarlegir hausar af sauðnauti og hreindýri – auk ýmissa dýra annarra sem uppstoppuð eru.

SONY DSC

Chris er líflegur fyrirlesari og skreytti mál sitt fjölda mynda sem hún hefur tekið á vettvangi. Sjálf er hún veiðimaður og veit því um hvað hún er að tala.

Comments

comments


About the Author

Sendu okkur myndir! Ritstjórn Gripdeildar, sem samanstendur af þeim Jakobi og Mikael, óskar eftir því að fá sendar myndir, myndbönd og fréttir á netfangið ritstjorn@gripdeild.is.Back to Top ↑