Stangveiði harpa hlín þórðardóttir með urriða

Published on May 31st, 2016 | by Ritstjórn

0

Eins og að krækja í bíl að setja í ísaldarurriða

Harpa Hlín Þórðardóttir lenti í glímu við um 15 punda ísaldarurriða í Þingvallavatni á laugardaginn og það var sko ekkert grín.

„Kræst! Hann tók allavega 100 metra út af backing-línunni. Mér stóð ekki á sama. Það var eins og ég hefði krækt í bíl,“ segir Harpa Hlín veiðimaður í samtali við Gripdeild.

Handleggurinn orðinn þreyttur eftir viðureignina
Urriðarnir í Þingvallavatni eru einhverjir öflugustu fiskar sem menn komast í tæri við. Urriðinn reif línuna út nokkrum sinnum, alveg brjálaður. Harpa Hlín var ekki að telja mínúturnar en telur að viðureignin hafi í það minnsta staðið yfir í korter.

„Já, eða eitthvað svoleiðis. Handleggurinn var orðinn ansi þreyttur ef viðureignina. En svo kemur spennan á móti og svo ég fór strax aftur að kasta eftir að hafa sleppt fisknum. Þeir voru að sýna sig þarna allt í kringum okkur.“

Gangur í urriðaveiðinni í Þingvallavatni
Harpa Hlín hlær að blaðamanni Gripdeildar sem spyr hana hvar við vatnið hún hafi verið. Hún vill ekki einu sinni gefa upp hvort þetta hafi verið á vegum ION, sem eru með veiðirétt við vatnið þar sem Orkuveitan á land að. En, einmitt þar, við Þorsteinsvík, er mikil urriðagengd. Mikill gangur hefur verið þar á bæ, og hafa ION-menn verið duglegir að birta tilkomumiklar myndir af urriðum sem menn hafa verið að taka þar, risa suma hverja. Líkt og flestir áhugamenn um stangveiði þekkja líkast til. Einn yfir 30 pund. Heimildir Gripdeildar herma að þar hafi menn veitt yfir 600 urriða.

Jæja, ók þá. En, við hljótum að fá að spyrja hvaða flugu urriðinn stökk á og það reyndist hafa verið Black Ghost.

Græjurnar í góðu lagi
Harpa Hlín prísar sig sæla að hafa verið með góðan búnað þegar risinn hljóp á færi hennar.

„Bestu græjur sem hægt er að veiða með. Ég er með Salmologic stangir. Þessi er Salmologic Skyborn 10“, 18 gr. WF shooter, flotlína 18 gr. Hún kastar sér eiginlega sjálf. Svo nota ég Einarsson hjól.“

Harpa Hlín með bráð sem hún skaut úti í Skotlandi.

Það var nefnilega það. Harpa Hlín veit hvað hún vill, enda enginn nýgræðingur í veiðinni og telst alhliða veiðimaður. Hún stundar einnig skotveiði og hefur reyndar farið víða í þeim erindagjörðum. Harpa Hlín rekur sérhæfða ferðaþjónustu fyrir veiðimenn, Iceland Outfitters, sem gengur vel. Svo vel að hún segist ekki hafa nægan tíma til að sinna þessu áhugamáli sínu sem er veiðin. „En einhvernvegin er það nú svo að maður finnur oftast tíma til að gera það sem mann langar.“

Stundar skotveiðar um heim allan
Harpa Hlín segist reyndar ekki hafa verið við veiðar alveg frá blautu barnsbeini.

„Nei, pabbi píndi mig í vatnaveiði þegar ég var lítil og mér fannst það ömurlegt, kalt, blautt og alltaf vindur. Reyndar lifði ég lengi á fyrsta fisknum sem ég fékk í Vífilstaðavatni 6 ára.“

Nákvæmlega.

„Svo veiddi ég ekki neitt fyrr en fyrir 16 árum síðan og féll þá fyrir stangveiðinni. Skotveiðina byrjaði ég að stunda fyrir svona 7-8 árum. Ég er enginn sérfræðingur en ég hef gaman af þessu.“

Harpa Hlín hefur farið til Skotlands, oft, til Grænlands, Eistlands og Bandaríkjanna og stundað skotveiðar þar.

„Ég hef farið til Skotlands oft, til Grænlands, Eistlands og Bandaríkjanna. Svo eru tvær spennandi ferðir á döfinni. Eða kannski þrjár. En ég vil ekki segja fyrr en ég er búin að klára það

Það var eiginmaðurinn, Stefán Sigurðsson, sem tók þessa glæsilegu mynd sem sjá má þar sem Harpa Hlín stillir sér upp með tröllið úr Þingvallavatni.

Comments

comments

Tags: , , ,


About the Author

Sendu okkur myndir! Ritstjórn Gripdeildar, sem samanstendur af þeim Jakobi og Mikael, óskar eftir því að fá sendar myndir, myndbönd og fréttir á netfangið ritstjorn@gripdeild.is.Back to Top ↑