Matreiðsla SONY DSC

Published on June 7th, 2016 | by Ritstjórn

0

Gúllashsúpa Gripdeildar

Gripdeildarmenn telja sig loks fullnuma í þeirri list, og af mikilli lyst, að laga gúllashsúpu. Þetta er þróunarstarf sem tekið hefur mörg ár. Þetta er einn af sérréttum hússins en súpan hefur einhvern veginn aldrei verið eins góð og nú. Lykillinn reyndist einfaldlega að bæta einum chilli við uppskriftina. Þetta er súpa með tilbrigðum en lykillinn er kúmenkeimur og bragð af steinselju. Annars er þetta bomba fyrir bragðlaukana, sál og líkama.

Fátt er betra en fá góða og heita og sterka súpu þegar menn koma hrollkaldir í veiðikofann. Og það sem mest er um vert er þetta að matreiðslan er tiltölulega einföld, vesenislaus til þess að gera.

gúllashsúpa

Nokkurn veginn svona lítur dýrðin út. Gott er að hafa steinselju til að strá yfir súpuna rétt áður en hún er borin fram.

Hér er hráefnið sem helst þarf að vera til staðar:

Hráefni

Ungnautagúllash vænn bakki
3 meðalstórar bökunarkartöflur
Gulrætur – baby charrots; 15 stk
Sveppir – heill bakki
Laukur – vel vænn eða tvo
Púrrulaukur – eitt stk
Hvítlaukur – 6 geirar
Chillí – 1 rauður og annar grænn
Stór paprikka – rauð
Gott knippi af steinselju
Niðursoðnir tómatar (1 dós)
Tómatpúrre

Kjötkraftur
Grænmetiskraftur
Pipar
Kúmenfræ
Piparkorn
Sjávarsalt
Oreganó
Ítölsk kryddblanda
Ólífuolía

Aðferð
Ákaflega gaman er að elda þennan rétt. Þú finnur til stóran pott, og þá er verið að tala um stóran, setur á hellu og vægan hita undir; 2-3. Þar útí setur þú svo, veiðimaður góður, í niðursoðna tómata, tómapúrre (3-4 tsk), sæmlega lúku af kúmenfræum (3 tsk ca) og svört piparkorn ca 10 stk.

Tekur svo til góða pönnu, hitar hana vel og setur vel af olífuolíu. Hún sé hvergi spöruð í þessari eldamennskunni.

Afhýðir kartöflurnar, skerð þær niður í bita, ristir, saltar aðeins svo útí pottinn; gulrætur sömu leiðina sem og sveppina viljum við rista uppúr smjöri og óreganó; útí pottinn góða með það líka. Þá er pannan vel heit og þá er að setja þar á vænan bakka af ungnautagúllashi. Brúnar það og bætir pipar á og nautakrafti. Útí pottinn og nú er það að taka til dúndrið: Laukur, púrrulaukur, hvílaukur ca 1/2 eða nokkur rif marinn og smátt skorinn, paprikka og góð lúka af steinselju allt á pönnuna, en gott er að draga aðeins úr hitanum. Og tvo chillí, rauðan og grænan. Þú choppar chillíinn mjög smátt, eins og hvítlaukinn; annað skerðu niður ekkert of smátt skorið. Þegar þú hefur mýkt þetta vel á pönnunni, sett út á krydd og kraft, finnst mér ágætt að setja vatn yfir og hella svo af pönnunni yfir í pottinn góða.

Svo er að leyfa þessu að taka sig í pottinum við vægan hita í svona um það bil 40 mín. Svo háma menn þetta í sig fram eftir kvöldi  og veiðisögurnar munu bókstaflega renna uppúr mannskapnum.

Comments

comments


About the Author

Sendu okkur myndir! Ritstjórn Gripdeildar, sem samanstendur af þeim Jakobi og Mikael, óskar eftir því að fá sendar myndir, myndbönd og fréttir á netfangið ritstjorn@gripdeild.is.Back to Top ↑