Stangveiði N5

Published on June 7th, 2016 | by Ritstjórn

0

Laxveiðimenn í látum — Stóri straumur fellur á startið

Laxveiðimenn vita ekki hvernig þeir eiga að láta – slík er gleðin. Met eru slegin í helstu laxveiðiám landsins. Opnunarhollið í Blöndu tók 99 laxa, sem er einsdæmi. Besta opnun í Norðurá er fyrirliggjandi: Lokatölur úr opnunarhollinu eru 77 laxar, mestan part stórlaxar á bilinu 80 til 95 sentímetrar. Menn muna ekki annað eins.

Svavar Hávarðsson, blaða- og veiðimaður, fylgdist með opnuninni í Norðurá í vikunni þar sem stórsöngvararnir Kristján Jóhannsson og Kristinn Sigmundsson voru fengnir til að vígja laxveiði sumarsins inn. Svavar, sem er vel lesin í þessum fræðum og hefur fylgst grannt með gangi mála nú um áratuga skeið segist ekki þekkja nein dæmi um annað eins.

 

Svavar og Bender

Lífsgátan leyst. Allir helstu veiðiskríbentar landsins voru mættir við opnun Norðurár, þarna leysa þeir Svavar og sjálfur Gunnar Bender lífsgátuna en sá sem tók myndina er svo annar öflugur veiðiblaðamaður, nefnilega Trausti Hafliðason á Viðskiptablaðinu. (Mynd – Trausti)

 

Svavar fjallaði um þessi undur og stórmerki í Fréttablaðinu og kann að orða það en grein hans er undir fyrirsögninni Norðurá og Blanda bláar af laxi. Þar segir meðal annars:

„Það er kominn lax upp alla á, eins og um hásumar væri,“ segir Einar [Sigfússon sölustjóri Norðurár] alsæll með bestu opnun Norðurár sem menn þekkja til, en Bjarni Júlíusson, fyrrverandi formaður Stangaveiðifélags Reykjavíkur, sem þekkir Norðurá eins og lófann á sér, sagði á Facebook-síðu sinni í gær að bestu opnanir í Norðurá sem hann þekkti til, væru árin 1977 og 1994, alls 58 laxar hvort árið. Þá var veitt í tvo og hálfan dag í opnuninni, eins og nú.

N1

Kristinn Sigmundsson og Einar Sigfússon sölustjóri árinnar kátir, og mega vera það, með þennan væna lax sem Kristinn setti í við opnun Norðurár. (Mynd – Svavar)

 

Það sem er til að æsa mannskapinn enn fremur upp er að nú er stórstreymt. „Stóri straumur fellur á startið,“ segir Svavar í samtali við Gripdeild – en eins og veiðimenn þekkja hvolfir stórstreymi löxum í árnar, ef svo ber undir.

Kjarrá og Þverá opna næstu helgi og samkvæmt heimildum Gripdeildar eru báðar ár orðnar kjaftfullar af laxi. Jón Mýrdal vert og veiðimaður er meðal þeirra sem opna og hann fær því vart lýst hversu spenntur hann er orðinn. Jón Óskar myndlistarmaður er svo meðal þeirra sem verður í opnunarholli Þverár. Þangað mun hann mæta ásamt konu sinni Huldu Hákon myndlistarmanni, sem er að fara í laxveiði fyrsta sinni. Hætt er við að hún fái talsverðar ranghugmyndir um veiðar, fari sem horfi – með mikla stórlaxaveiði.

Gripdeild mun fylgjast grannt með gangi mála á þeim vígstöðvum.

N8

Í fyrra voru það þeir Sigmundur Davíð og Bjarni Ben sem opnuðu Norðurá. Umdeilt enda umdeildir menn en þessir tveir eru óumdeildir: Stórsöngvararnir Kristján og Kristinn, glaðir og kátir á bökkum Norðurár. (Mynd – Svavar)

Comments

comments

Tags: , , , , , , , , , ,


About the Author

Sendu okkur myndir! Ritstjórn Gripdeildar, sem samanstendur af þeim Jakobi og Mikael, óskar eftir því að fá sendar myndir, myndbönd og fréttir á netfangið ritstjorn@gripdeild.is.Back to Top ↑