Skotveiði Dúi og Árni Stefán

Published on June 8th, 2016 | by Atli Bergmann

0

Árni Stefán segir Dúa Landmark ósvífinn dóna

Árni Stefán Árnason lögfræðingur og dýravinur segist hafa mætt fádæma dónaskap á Skotveiðispjallinu á Facebook en þar var hann ekki lengi inni. Einkum segir hann Dúa Landmark, formann Skotvís, hafa farið mikinn í svívirðingum í sinn garð.

Gripdeild greindi frá málinu í vikunni, að þarna væri nú sennilega kominn minkur í hænsnakofann sem ofurdýravinurinn Árni Stefán má heita í hópi skotveiðimanna. En hann hefur ekki vandað þeim kveðjurnar í gegnum tíðina.

En taflið virðist hafa snúið við og frekar er sem hænan hafi drepið á dyr refabúsins, eins og sjá má í þessari frétt Vísis. Árni Stefán var í viðtali í útvarpsþættinum Harmageddon þar sem hann lýsti upplifun sinni af þessari reynslu.

Boðar opið bréf til Dúa í Fréttablaðinu
Árni Stefán harðneitar því að hafa verið þarna sem flugumaður, einskær áhugi hafi fengið hann til að sækja um aðild, til að kynnast þeirri umræðu sem er í gangi á þessu Skotveiðispjalli, eins og hann orðar það: Til að geta fjallað um málefni málefnalega þarftu að vera vel upplýstur.

„Þarna mætti ég ónotum, dónaskap og ósvífni. Einkum og sérílag af hálfu Dúa Landmark formanni Skotvís. Og ég lét mig hverfa af þessu spjalli. Ég á ekki samleið með svona einstaklingum sem kunna ekki að koma fram af kurteisi,“ sagði Árni Stefán.

Þegar hann var inntur eftir því hvernig dónaskap og ónotum boðaði lögfræðingur það að hann muni gera grein fyrir því í opnu bréfi sem hann hyggst birta í Fréttablaðinu fljótlega.

Árni Stefán í Harmageddon

Árni Stefán dró hvergi af sér í Harmageddon.

Og honum hreinlega vefst tunga um tönn þegar hann lýsir kynnum sínum af Dúa:

„Þetta var virkilega … ég var orðlaus yfir því hvað þessi maður leyfir sér að segja. Hann beinlínis ætlaði sér að gera tilraun til að ritstýra mér á þessu spjalli?! Ég hafði engan áhuga á fjalla um það sem þeir voru að gera, skipti mér ekki af því og fer ekki að gagnrýna lokaðan hóp. Það er bara óviðeigandi. En það er ekki óviðeigandi að fara inn í lokaðan hóp og kynna mér umfjöllunarefnið til að vita um hvað ég er að tala um í framtíðinni yfir höfuð,“ segir Árni Stefán.

Skotveiðimenn hafa veikan málstað að verja
Dýravinurinn Árni Stefán segist hafa mátt sæta gagnrýni, þá fyrir að gagnrýna „þessa menn. Ég hef verið gagnrýndur fyrir að gagnrýna þessa menn. Ég ætla ekki að gagnrýna þá á þeirra eigin vettvangi heldur geri það á mínum eigin vettvangi.“

Þá hlýtur að liggja í hlutarins eðli að hann hafi að einhverju leyti verið að viða að sér efni til að taka til umfjöllunar síðar og á öðrum vettvangi, sem skýrist betur í ljósi þess sem Árni Stefán sagði skömmu síðar þegar hann var spurður um hvort hann hafi mætt fordómum á þessum vettvangi?

„Af hverju eru þeir með fordóma, ég hef bara mínar skoðanir á dýraveiðum og ég má hafa þær alveg eins og þeir réttlæta dýraveiðar? Ég samþykki ekki dráp á lifandi dýrum, sérstaklega villtum sem eru varnarlaus gagnvart þessu sem skotvopnið er. Ég mun verja þá skoðun fram í rauðan dauðann meðan þeir eru að verja ansi veikan málsstað.“

Árni Stefán segist ekki hafa lagt neitt til málanna á spjallsvæði skotveiðimanna utan eitt „Úbbs“ þegar einhver einstaklingur sagði að hann hlyti að vera geðveikur.

„En, það verður ekki langt þar til ég mun skrifa opið bréf til Dúa Landmark og gera lesendum grein fyrir hans háttalagi gagnvart mér.“

Comments

comments

Tags: , , ,


About the AuthorBack to Top ↑