Stangveiði SONY DSC

Published on June 30th, 2016 | by Ritstjórn

0

Góðir dagar í Grímsá

Heldur betur hljóp á snærið hjá öðrum ritstjóra Gripdeildar, þegar honum gafst kostur á að skjótast í sjálfa Grímsá nú um síðustu helgi. Grímsá er fullbókuð í allt sumar og því telst það töluverð heppni að komast þar að.

Og félagsskapurinn var ekki af lakara taginu. Með Gripdeild í för var sjálfur Jón Mýrdal, einn snjallasti fluguveiðimaður landsins og voru teknar tvær vaktir; að kvöldi sunnudags og morgni mánudags.

Veðrið varð sæmilega stillt en fyrri daginn rigndi vel, hins vegar voru aðstæður með besta móti á dagvaktinni – lágskýjað og lítill vindur.

SONY DSC

Jón Mýrdal mundar stöng sína í erfiðum hyl, krefjandi veiðistað sem ber hið sérstæða nafn Viðbjóður.

Grímsá er nefnd Drottning laxveiðiánna og þar var opnun fyrir um viku. Grímsá hefur ekki komið eins sterk inn og aðrar ár í Borgarfirðinum, svo sem Norðurá, Kjarrá og Þverá, þar sem komnir eru 462 laxar þegar þetta er skrifað og í Norðurá 450 – bætir við sig 170 löxum síðastliðna viku. En, hver er að telja, nema Landsamband Veiðifélaga?

Glæsilegt veiðihús
Menn sem til þekkja segja að Grímsá sé alla jafna eilítið seinna á ferðinni. Áin á eftir að koma gríðarlega sterk inn í sumar, það fer ekkert á milli mála. Og það var ekki eins og áin væri fisklaus, síður en svo. Og ritstjóra Gripdeildar tókst að landa einum ágætum sex punda laxi úr Efra Garðafljóti. Sá tók Kolskegg eða Collie Dog. Auðvitað tók hann Collie Dog. Sá fór beina leið í pottinn þegar heim var komið og var eldaður uppá gamla mátann, samkvæmt uppskrift Oddnýjar Magnadóttur.

jbg grímsá

Annar ritstjóra Gripdeildar ánægður með þennan fína lax, sem var svo ljómandi fínn í pottinn. Í Grímsá má taka einn lax per vakt.

Stórkostlegt var að koma í hið glæsilega veiðihús við Grímsá, sem á engan sinn líka. Útsýnið úr matsalnum og pottinum á veröndinni er stórkostlegt yfir fossinn. Arkítektinn er veiðimaðurinn Enest Schwiebert, hann veiddi í Grímsá í mörg ár og ljóst má vera að lagt er uppúr því að húsið bæði falli að umhverfinu sem og að það sé kennileiti.

Mergjaðar veiðisögur
Húsið var fullkomin umgjörð um svo magnaðar veiðisögur sem Gripdeild heyrði að hárin risu, flest þannig að ekki er fræðilegur möguleiki á því að það sé fest á blað; kryddaðar með hliðarsögum af nasistabúningum, þyrlum, hestamannamótum og risastóru olíubornu borði hvar fór fram keppni í fleytingum þjónustustúlkna. Nei, meira verður ekki sagt af því, takk fyrir.

Glittir í drekana
Þó Grímsá sé á efri svæðum fremur einsleit, veiðistöðunum svipar hver til annars, er Grímsá engu að síður ótrúlega fjölbreytt á. Sérstaklega á svæði 2 þar sem er að finna fossinn við veiðihúsið og Viðbjóð, svo dæmi um gríðarlega fallega veiðistaði séu nefnd.

Síðasti veiðistaðurinn sem Gripdeild reyndi áður en blússað var í bæinn var strengurinn ofan við veiðihúsið. Þarna er lúmskt mikill straumur en veiðimaðurinn var ekki með sökktaum, sem hefði verið málið. Hann reyndi að renna niður míkrótúpu úr mánasteini sem reif sig nokkuð einarðlega niður þó flotlínan togaði á móti.

Skyndilega braust sólarglenna í gegnum skýin og í fáeinar mínútur sást niður í djúpan hylinn. Og veiðimaðurinn ætlaði vart að trúa sínum eigin augum þegar hann sá þvílíka dreka sem létu fara vel um sig í straumnum, djúpt niðri. En, þeir litu ekki við flugum veiðimannsins. Ekki í það skiptið.

SONY DSC

Jón er frábær að kasta flugu, mentor Gripdeildarmanna á því sviði. Hann varð ekki kátur þegar ritstjórinn braut í ógáti stöng hans við það að skella aftur hurð á jeppanum á röngu andartaki. Þegar hann svo dró lax skömmu síðar og kennarinn Jón kom þar að þrumaði hann: Brýtur stöngina mína og veiðir svo lax!

Comments

comments

Tags: , , , ,


About the Author

Sendu okkur myndir! Ritstjórn Gripdeildar, sem samanstendur af þeim Jakobi og Mikael, óskar eftir því að fá sendar myndir, myndbönd og fréttir á netfangið ritstjorn@gripdeild.is.Back to Top ↑