Stangveiði Myndi: Trausti Hafliðason

Published on July 2nd, 2016 | by Ritstjórn

0

Systur gáfu sig í Fljótaá

  • eftir Svavar Hávarðsson

Andskotinn hafi það, ekkert er betra en að hlaða veiðibílinn af búnaði og vistum og halda í fyrsta laxveiðitúr sumarsins. Það skiptir eiginlega ekki máli hversu langt vegurinn framundan teygir sig – sé það stutt ferð er fluga fljótt í vatni. Sé það löng ferð, gefst tími til að njóta þess þegar fiðrildið í maganum hamast á meðan spjallað er um króka og kima þess ókomna með makkernum. Þetta árið var ferðin „löng“. Heimsókn í Fljótaá til að hengja bleikju, með lokahnykk í sjálfri Laxá í Aðaldal.

Gæfa
Óþarfi er að fjölyrða um þá staðreynd að á leiðinni frá Reykjavík norður á Tröllaskaga er farið yfir margar af bestu laxveiðiám þessa heims. Áður en tankurinn er fylltur á Ártúnshöfða er sú fyrsta þegar að baki – rækjusamlokan er hálfétin þegar önnur gjöful kveður og maltglerið er tæmt um það bil sem Leirvogsá heilsar. Svona er þetta alla leiðina – hver perlan er kveikja að sögu eða pælingu – annað hvort minningu eða einhverju sem maður hefur lesið eða heyrt. Hvítá sem fóstrar perlur Borgarfjarðar – Norðurárdalurinn þar sem maður undrast alltaf þegar keyrt er framhjá síðustu merktu veiðistöðunum sem hljóta að vera langt upp á Holtavörðuheiði. Svo kemur Hrúta – þetta stórkostlega veiðivatn. Auðvitað er migið við Bálk og kíkt í hylinn. Viti menn – styggð kemur að 15 stórlöxum sem láta sig súnka niður í djúpið og ég veit að ég verð þar eftir 10 daga. Fiðrildið ærist og svo koma þær í löngum röðum. Þvílík gæfa að hafa fæðst á þessari eyju.

Mættur eftir allt saman!
Þegar áfangastað var náð, kom það ekki á óvart að Fljótaá biði ekki hlýjan faðminn. Þessi á, sem er stríð á besta tíma í ágúst, sýndi þess öll merki að nokkrir lítrar af vatni áttu enn eftir að koma sér niður í Skagafjörð. Þrátt fyrir grámyglu, syndaflóð af rigningu með stuttum hléum, og að allt var að drukkna í mývargi þá spillti það ekki gleðinni við að fara í vöðlurnar – setja saman stöng eða tvær – og velja líklegustu flugurnar. Þetta stórkostlega veiðivatn gaf okkur líka nokkrar bleikjur áður en haldið var í hús í veislumat – nokkra G&T – og fréttir af laxi sem gaf sig daginn áður! Svo hann var mættur eftir allt saman!

Svavar2

Báðir laxarnir sem komu úr Bakkahyl stuttu ítrekað mínúturnar eftir að þeir tóku. Mynd/Trausti Hafliðason

Já, bandarískur veiðimaður, sem deildi með okkur þessari perlu, hafði náð gullfallegum 80 sentímetra snillingi í Berghyl – þar sem mér hafði lánast að smygla flugu upp í fallegan lax sumarið 2012.

Mý krefst sashimi
Vítt var farið á næstu vakt – auðvitað fyrst niður í Berghyl þar sem von var á laxi – bleikjuveiðin var svolítið komin í aftursætið eftir fréttir gærdagsins. En það sem einkenndi vaktina var að enginn friður var fyrir fiski – bleikju eins og hún verður fallegust á bilinu pund, upp í tvö. Besti matur á þessari jörð, enda var hún snædd hrá með smá wasabi og soya á bakkanum. Fullkomin máltíð ef mývargurinn hefði ekki krafist sætis við borðið.

En svo komu fréttirnar. Kaninn hafði sett í stóran lax í Bakkahyl á svæði eitt, og ekki látið þar við sitja. Holurnar, veiðistaður þar rétt fyrir ofan, fór allur á hreyfingu þegar einhverju rauðu var kastað upstream, sem endaði með því að stórkostlegur 100 sentímetra höfðingi renndi sér á fluguna og gaf sig ekki fyrr en eftir klukkutíma bardaga sem endaði með sigri þess fyrstnefnda. Sælutilfinning fylgdi því þegar við lögðum Steingrími [jeppi sem hefur skráningarnúmerið VG 001] við þessar veiðilendur sem lofuðu svo góðu.

Í loftköstum hlaupandi
Ég átti Bakkahylinn. Makkerinn Holurnar. Ég valdi þyngda Black&Blue túpu – sömu flugu og gaf mér tvo laxa 2012 – og byrjaði að kasta efst í hvítfrissinu þó ég vissi að vonin var miklu neðar. Neðarlega í strengnum rennur lítill lækur út í Bakkahyl og þar kom höggið. Gargið úr mínum eintóna barka hefði gert Gumma Ben stoltan þegar ég gerði makkernum grein fyrir því að nærveru hans væri óskað. Það var strax ljóst að hér var ekki bleikja á ferðinni – og það var góð tilfinning að sjá félagann henda frá sér rándýrri stönginni og koma í loftköstum hlaupandi.

400 metrum neðar
Það er eitthvað einstakt við það þegar maður setur í fyrsta lax sumarsins. Gleðin víkur ótrúlega hratt fyrir þeirri óttatilfinningu að ekki undir neinum kringumstæðum megi þessi fiskur tapast. Maður er ótrúlega fljótt farinn að tauta fyrir munni sér að það sé vonlaust að þessi fiskur náist á land. Hann sé illa tekinn, og maður þykist geta greint það af hreyfingum og hegðun andstæðingsins að þessi orrusta sé töpuð – áður en hún raunverulega byrjar.

Svavar3

Þessi fallega hrygna mældist 80 sentímetrar – en hún gaf sig ekki í háfinn fyrr en eftir 40 mínútur og 400 metra lokasprett niður ána. Mynd/Trausti Hafliðason

Þessi slagur stóð í 40 mínútur. Fyrstu 30 mínúturnar í Bakkahyl þar sem laxinn stökk og djöflaðist, en svo þegar hann tók að þreytast þá hlýtur hann að hafa hugsað með sér að fullreynt væri að þumbast þar. Því ákvað hann að kveðja og færa sig niður í næsta hyl – og svo þann næsta – og þá þangað þar sem við náðum honum í háfinn. Við mældum þessa 80 sentímetra hrygnu 400 metrum fyrir neðan staðinn þar sem hún tók. Makkerinn svaðblautur, blóðugur og titrandi eftir tólf ólíkar útfærslur af því að reyna að landa stelpunni – mér leið eins og ég hefði skorað á móti Hrafnkeli Freysgoða.

88
Eftir að ég smellti kossi á slímuga snoppuna á þessari fegurðardís, og horfði á eftir henni á hröðum spretti í djúpið, settumst við niður og tókum feitan reyk. Gott ef ég átti ekki tvær smáflöskur af Jägermeister. Svo var rölt til baka – og þessum fiski fagnað á leiðinni eins og nýfæddri heilbrigðri dóttur.

Þegar við komum til baka að Bakkahyl, voru teknar feitar sneiðar af flatbrauði með hangikjöti, og aðrar með kindakæfu. Þessu kóngafæði var skolað niður með öli – en í miðri seinni sneið brast makkernum þolinmæðin og hann byrjaði að kasta. Hann valdi sína uppáhaldsflugu – Vonina hans Sigga Haugs – og áður en ég gat spurt hvort til væri meiri Jägermeister, þá var allt í keng.

Svavar4

„Stóra systir“ mældist 88 sentímetra og lita 46 sentímetra um belginn. Viðureignin teygði sig langt á aðra klukkustund. Mynd/Svavar

Eftir 20 metra roku upp hylinn þar sem þessi stökk sex sinnum á sirka 20 sekúndum vorum við báðir í nettu taugaáfalli. Svo tók við reiptog þar sem brakaði og small í línu, stöng og veiðimanni. Í klukkutíma. Svo endurtók sagan sig – þegar þreytan sótti á, ákvað laxinn að flýja vettvanginn og hlaupin hjá okkur endurtóku sig. Slagurinn endaði á svipuðum slóðum – upp úr háfnum kom eldri systirinn – silfurbjört og átta sentímetrum lengri. Stórkostlega fögur. Svo lengi hafði hún slegist við makkerinn að henni var hraðað aftur í vatnið – eftir eina mynd eða tvær.

2-1
Ég viðurkenni það fúslega að fyrirfram gerði ég mér vonir um fyrsta lax sumarsins í Aðaldalnum – ekki Fljótaá sem er síðsumarsá í laxi, held ég örugglega. Við veiddum Laxá í tvær vaktir og við reistum lax aftur og aftur, aftur og aftur, en hann tók ekki í þetta skiptið. En það er ekki sagan sem skiptir máli.

Heldur sú að í fyrsta skipti í sögu Laxár var veiðitíma hnikað til og leyfð veiði til miðnættis, enda stórviðburður að hefjast. Menn hröðuðu sér niður í hús grunsamlega snemma og rifu sig úr vöðlunum. Og svo settumst við niður, veiðimenn af öllum gerðum og þjóðernum, til að horfa fótboltaleik. Ísland – England.

Þegar mesta siguræðið rann af mér og makkernum, þá fórum við niður að Æðarfossum sem glóðu í kvöldsólinni og létum eins og okkur langaði að veiða. En niðurstaðan varð sú að við sátum saman í sigurvímu við nokkra bestu veiðistaði heims og töluðum um strákana okkar. Ég held að enginn lax, hversu mikilfenglegur, hefði trompað 2-1. Okkur gat ekki liðið betur.

(Einkennismynd þessarar greinar tók Trausti Hafliðason.)

Comments

comments

Tags: , , , , , , , ,


About the Author

Sendu okkur myndir! Ritstjórn Gripdeildar, sem samanstendur af þeim Jakobi og Mikael, óskar eftir því að fá sendar myndir, myndbönd og fréttir á netfangið ritstjorn@gripdeild.is.Back to Top ↑