Stangveiði Atli Laxá í Mývatnssveit

Published on July 9th, 2016 | by Atli Bergmann

0

Lok júní – Drekinn hvolfdi sér yfir galdralöppina

Loksins kom að því að langþráður draumur rættist þegar ég og sonur minn og besti veiðifélagi hann Heiðar Valur fórum í Laxá í Laxárdal að veiða urriða á þurrflugu í lok júní núna í sumar.

Skemmst er frá því að segja að Laxá stóðst allar væntingar og gott betur. Fuglalíf fjölbreytt og fjöldi tegunda með ólíkindum. Einn gæsa unginn ákvað að fylgja mér dagspart sem var ánægjulegt.

Ég er á því að silungsveiði sé það alskemmtilegasta sem ég geri en að taka þessa drella á þurrflugu var algerlega nýtt fyrir okkur feðgum og þvílíkar neglur. Og eftir að hafa sett í fiskinn þá átti hann það til að skella sér útí strauminn og þá var fjör.

Atli gæsaungi

Þessi gæsaungi var mjög ánægður með félagsskapinn við Laxa í Mývatnssveit.

Við tókum 10 stykki og þar af voru 4 vænir; 4 til 7 punda höfðingjar. En, eins og oft áður þá var það sá sem ég missti sem var eftirminnilegastur. Ég var á síðustu vaktinni með þann gjöfula veiðistað Djúpidráttur og hafði galdralöppina sem tökuvara og púpu með kúluhaus undir. Nema hvað að þegar ég hafði kastað upp fyrir mig og látið reka til mín og einungis um 2 metrar á milli mín og flugunnar, þá hvolfir þessi rosalegi dreki sig yfir galdralöppina og neglir hana með þvílíkum látum. Mér kross brá. En, ég náði að setja í´ann og tók fast á honum. Nema hvað, að eftir snarpa viðureign þá er allt í einu allt fast og svo kom kippur og hann hreinsaði sig hátt upp og var farinn með fluguna í kjaftinum.

Þar sem ég skalf og titraði af geðshræringu og fór að draga inn þá kom skýringin í ljós; helv… kúluhausa-dropperinn hafði fest sig í grjóti og þá var ekki að sökum að spyrja að hann slitnaði af.

Eftir svona lagað hneigir maður sig og þakkar fyrir sig. Eitt er víst að við ætlum aftur norður í Laxá í Laxár- eða Mývatnssveit og nú skil ég þá sem segja þetta flottasta urriða veiðisvæði heims.

Comments

comments

Tags: , , , ,


About the AuthorBack to Top ↑