Hundar Loki aðal

Published on July 9th, 2016 | by Ritstjórn

0

Þegar Loki borðaði eina eintak ljóðabókar eftir Björk

Hundurinn Loki var alveg einstaklega baldinn unglingur. Og hann hefur ýmislegt á samviskunni. Sennilega er hans stærsti glæpur sá þegar hann borðaði ómetanlegt eintak ljóðabókar eftir Björk. Sú bók var aðeins til í einu eintaki.

Þá er merkilegt að hann skuli vera á lífi, eftir að hann henti sér hálfs árs gamall út um glugga risíbúðar og húrraði niður eina átta metra á gangstétt. Loki er með aðskilnaðarkvíðaröskun. Og í fyrsta skipti sem hann var skilinn eftir einn í örskamma stund gerði hann sér lítið fyrir, komst upp í gluggakistu sem er 10 sinnum hærri en hann sjálfur. Enginn skilur enn þann dag í dag hvernig hann komst þangað upp. Loki er í raun kraftaverk – vonlaust var að sjá það fyrir að hann myndi lifa þá flugferð af. Sú sem var að passa hann fékk taugaáfall en dýralæknarnir í Víðidal unnu kraftaverk; settu tein í vinstri legginn. Hann hafði fótbrotnað og dýralæknirinn áréttaði við eigandann að hann myndi ekkert læra af þessu atviki. Loki kennir sér einskis meins í dag en er svolítið eins og Charlie Chaplin þegar hann situr: útskeifur.

Hlær að veikburða boycott-bauki
Hundurinn Loki er líkast til frægasti hundur landsins ef frá er talinn Lúkas – sá eini sem hefur raunverulega reynt að skrúfa niður í Útvarpi Sögu. En, um þetta atvik var fjallað sérstaklega í fjölmiðlum. Eigandi hans Jakob fór í viðtal, til að karpa við sjálfan Sögu-Pétur, og tók Loka með sér. Aldrei þessu vant lét Loki lítið fyrir sér fara og Jakob og Pétur gleymdu sér við að ræða lífsins gagn og nauðsynjar.

Loki hvolpur

Ómótstæðilegur en erfiður. Mánuði eftir að þessi mynd var tekin lét hann sig ekki muna um að rífa þessa fínu og rándýru sessu, eða bæli, í sig þannig að svampurinn var út um allt.

Nema, skyndilega tóku að heyrast skruðningar í útsendingunni og hún datt um stundarsakir út. Þá kom á daginn að Loki hafði fundið sér það til dundurs að naga í sundur útsendingarkapal sem lá þar undir borði í stúdíóinu. Nú, þegar þetta er skrifað, er hópur sem er að reyna að skrúfa fyrir súrefni til Útvarps Sögu með boycott-aðgerðum: áskorun til fyrirtækja að hætta að auglýsa á stöðinni. Þessar aðgerðir virðast ætla að virka öndvert á við yfirlýst markmið því þetta hefur gert það eitt að efla Útvarp Sögu. Loki hlær að þessum hópi.

Brokkgengur námsferill
Gripdeild fjallaði um þann kost í stöðunni fyrir þá sem hafa hug á að fá sér hund, að ættleiða hund sem er kominn yfir hvolpatjúllið. Loki er Border Collie að 90 prósentum. Það er eitthvað örlítið íslenskt í honum einnig, spitz-áhrifin lýsa sér í uppreistum eyrum og skotti.

Loki nagar

Nagþörfin var mikil fyrstu mánuðina, og vildi Loki ekki gera neinn greinarmun á því sem átti að naga og því sem mátti alls ekki naga.

Nú er þekkt að Border Collie-hundar eru gáfaðasta hundategundin. Engu að síður er algengara að fólk losi sig við Border Collie-hvolp en hvolpa flestra annarra tegunda. Þar kemur ýmislegt til. Þeir eru afskaplega erfiðir ungir, kraftmiklir og uppátektarsamir. Og athyglisbresturinn getur sannarlega verið til staðar. Loki fór með eigendum sínum í hvolpaskólann á sínum tíma, til hennar Ástu uppí Mosfellsdal og meðan það lið náði tíu í skriflega þætti prófsins, þá rétt svo skreið Loki með 5,5 í einkunn í þeim hinum verklega. Ásta, sem kallar ekki allt ömmu sína, ráðlagði eigandanum að láta gelda Loka. Það væri í raun hið eina gáfulega í stöðunni. Og það var gert, þegar Loki var hálfs árs. Þetta voru þung skref en það var ekki hægt að búa við að það kæmi strok í Loka, ofan á allt annað sem hann vildi taka sér fyrir loppur.

Þegar Loki borðaði ljóðabókina ómetanlegu
Og, þegar Collie-hvolparnir eru að taka tennur er nagþörfin öllu öðru yfirsterkari. Og það sýndi sig þegar barnsmóðir eiganda Loka kom eitt sinn með eintak af ljóðabók eftir Björk. Sem hún hafði keypti þegar Björk var við upphaf síns ferils og tilheyrði Medúsa-ljóðahópnum um miðjan níunda áratug síðustu aldar.

Gallerí Voff

Þó Loki sé greindur hundur, það fer ekkert á milli mála, kostaði athyglisbresturinn nánast fall í hvolpaskólanum.

Ljóðabókin var handgerð, myndskreytt og handskrifuð af þessari langfrægustu listakonu sem Ísland hefur eignast. Í raun ómetanleg — safngripur. Aðeins til í þessu eina eintaki. Erindið var að biðja eiganda Loka um að komast að því hvað slíkt væri metið til fjár á E-Bay. Alveg sjálfsagt að athuga það, við fyrsta tækifæri, en þá var umræða um uppboð á æskuverkum hennar á Sotheby’s.

En, það kom ekki til þess því næsta dag komst Loki í ljóðabókina góðu, taldi þetta besta „nagbein“ sem hann hafði komist í og þá var ekki að sökum að spyrja. Það tók eiganda Loka marga mánuði að herða sig uppí það að greina eiganda ljóðabókarinnar einstöku frá því hvernig fór fyrir bókinni þeirri.

Smalahundur að upplagi
Það skal bara alveg fúslega viðurkennast að Loki reyndi á þolrifin ungur, en hann vann það upp með sjarmanum. Hann heitir ekki Loki fyrir ekki neitt. Og var eigandanum tjáð það að ef maður næði að halda út í tvö ár, þá væri vandséð að hægt væri að eignast betri hund.

Og sú er nú reyndin, þó Loki eigi auðvitað til sín grallaramóment og prakkaraskap en hann er skemmtilegur og greindur hundur sem á auðvelt með að læra. Og gefandi að vera með honum, svo mjög að því verður vart lýst með orðum. Loki er náttúrlega vinnuhundur að upplagi, smalahundur, en hans örlög eru að vera gæludýr í Reykjavík. Og það má alveg hugsa sér verra hlutskipti — þó Íslendingar séu upp til hópa reglugerðanasistar og vilji helst þrengja að hundum og hundaeigendum eins og mögulegt og ómögulegt er.

Comments

comments


About the Author

Sendu okkur myndir! Ritstjórn Gripdeildar, sem samanstendur af þeim Jakobi og Mikael, óskar eftir því að fá sendar myndir, myndbönd og fréttir á netfangið ritstjorn@gripdeild.is.Back to Top ↑