FLUGUFÓTUR urriði

Published on July 19th, 2016 | by Sigurgeir Sigurpálsson

0

Veiðivötn í byrjun júlí

Það var með talsverðri tilhlökkun og bjartsýni sem ég og vinnufélagar mínir lögðum af stað upp í Veiðivötn 5. júlí síðastliðinn.  Við vorum búnir að kíkja á veiðitölur fyrstu tveggja viknanna og allt var þar á uppleið.  Glöggir menn sem kíkja á veiðitölurnar sjá hvernig þriðja vikan reyndist svo.  En við komum þarna í góðu veðri og græjuðum okkur upp og byrjuðum í Litla Skálavatni.  Við skiptum okkur á tvo staði og hófum veiðar.  Í Gjánni urðum við strax varir ég og félagi minn en hann setti fljótlega í vænan fisk sem slapp eftir talsverða baráttu.  Ég ákvað að rölta inn gjánna og reyna að sjá hvort það væru fiskar innst inni í henni en það var logn og vatnið spegilslétt og sólin björt.  Það sást vel niður í botn og þá sá ég eitthvað sem sökudólgarnir ættu að skammast sín hressilega fyrir.  En á víð og dreif í Gjánni voru flakaðir fiskar sem hafði verið fleygt útí eftir flökun.  Þetta er sóðaskapur og vanvirðing við bráðina sem ég hreinlega skil ekki.  En á rölti mínu að skoða þetta hrundi ég allt í einu í gegnum mosann í gjótu og upp að mitti.  Nýju vöðlurnar sem ég hafði notað einu sinni áður voru komnar með gat við annað hnéið sem ég hruflaði líka illa.  Ekki góð byrjun á veiðitúrnum.

Flakaður fiskur

Fall er fararheill
En ég hóf veiðar aftur og setti í 3 punda urriða á Black Ghost sem barðist hressilega en gafst að lokum upp og ég var fyrstur á blað í hópnum.  Stuttu seinna frétti ég af því að í Litlu Skálavatnspyttlunni hafi komið 4 punda urriði á makríl þannig að útlitið var bara ágætt hjá okkur.  En svo gerðist bara ekkert.  Sáum ekkert líf og urðum ekkert varir.  Því var ákveðið að færa sig til.  Við prófuðum Hraunvötnin og Litlasjó en enduðum í Snjóölduvatni á Bátseyrinni.  Þar lentum við í bullandi bleikjuveiði en bleikjurnar voru í kringum pundið.  Ég setti í 6 stykki og missti þær allar og skildi ekkert í því hvað væri að hjá mér.  Ég fór að efast um getu mína sem veiðimanns.  Það endaði á því að ég ákvað að skipta um flugu og setja tvíkrækju undir en þegar ég var að því sá ég að krókurinn á Black Zulu flugunni minni var brotinn og því ekkert agnald og í raun bara hálfur öngull.  Mér hafði samt tekist að landa einni 300 gramma bleikju með þetta svona þannig að ég hætti að efast um getu mína sem veiðimanns en fór að efast um sjón mína og skil ekki hvers vegna ég tók ekki eftir þessu.  Kennir manni að skoða fluguna alltaf eftir að maður missir fisk.  En ég skipti um flugu og setti aðra Black Zulu einkrækju á með agnaldi og heilum öngli.  En þá datt veiðin niður.  Ég fékk ekki eitt einasta nart.  Allir voru komnir á blað á þessum tímapunkti og fóru sáttir í skálann til að grilla og svo í háttinn eftir mat.

Flæktur í greinum á versta tíma
Við vorum nú ekki dugleg að rífa okkur á fætur daginn eftir en vorum komin út upp úr níu um morguninn og fórum aftur í Litla Skálavatn og ég fór aftur í Gjánna.  Þar setti ég í 4.5 punda urriða á Black Ghost sem var alveg trylltur.  Hann tók rokuna út og ég sá þá mér til mikillar skelfingar að línan mín var flækt í trjágróður á bakkanum og ég gat ekki gefið honum slakann sem hann ætlaði sér að fá.  Ég fékk veiðifélaga minn til að losa þetta fyrir mig og það tókst alveg á síðustu stundu en ég gat temprað straujið hjá honum nægilega mikið til að tími gafst til að losa flækjuna og þá rúllaði línan út og bremsan tók við.  Mér var létt en var hræddur um að flugan væri laus í honum því hún hefði auðveldlega getað rifnað úr honum við átökin í byrjun.   Ég þreytti hann því eins varlega og ég gat og reyndi eftir besta megni að fá hann til að stökkva ekki en hann gerði sig líklegan tvívegis en hætti við þegar ég létti aðeins á bremsunni og auðveldaði honum að toga línuna út.  Ég herti svo jafnóðum á henni til að þreyta hann.  Hann stökk bara einu sinni og það var alveg í upphafi og hann var nærri mér því hann tók nærri bakkanum þannig að ég sá tökuna sjálfa.  Það var mjög tignarlegt og flott og gerðist gríðarlega hratt.  Ég sá vel að þetta var vænn fiskur.  Ég náði að landa honum og svo fór að þetta var stærsti flugufiskurinn í ferðinni hjá mínum hópi.

urriði

Einn vænn og annar tók stöngina út í vatn
Ég var orðinn mjög sáttur við þessa ferð enda kominn með tvo fína fiska og veðrið alveg frábært.  Ekkert varð ég var meira þarna og á endanum færðum við okkur í Litla Breiðavatn.  Þar lentum við í skoti.  Ég reyndar fékk bara einn 2 punda fisk í því skoti en sífellt var verið að narta hjá okkur.  Fékk högg á Black Ghost en settist svo niður til að fá mér kaffi og henti út makríl á meðan.  Það var stanslaust verið að narta hjá mér þannig að ég náði varla að fá mér í gogginn.  En ég landaði bara einum fiski eins og áður sagði en félagar mínir mokuðu upp slatta á sama tíma.  Það var eins og það væri torfa að ganga meðfram bakkanum.  Við kölluðum á félaga okkar sem voru á öðrum stað í vatninu og þeir komu og tóku nokkra fiska.  Einn félagi minn var með stöngina í letingja og sá hana skella niður og var hún nærri farin útí þegar hann greip hana og landaði fínum 8 punda urriða.  Stærsti fiskur ferðarinnar og sá stærsti sem veiðst hefur í Litla Breiðavatni í sumar.  Öll vorum við að veiða á makríl á þessum tímapunkti enda var það að virka svakalega vel.  Hann kastaði aftur út og rölti til okkar og sagði að hann hafi nú aldrei heyrt um að stangir fari útí út af fiskum og hvað þá að þær týnist.  Ég sagði honum að það væri alltaf að gerast og sérstaklega í Veiðivötnum.  Hann snýr sér þá við og sér stöngina skjótast út í vatnið.  Hann hleypur af stað og út í vatnið og svipast um eftir stönginni en hún er horfin.  Við hlógum mikið að þessu enda sérstaklega fyndið að hann var ákkúrat að storka örlögunum þegar þetta gerðist.  Við leituðum með honum en sáum ekkert til stangarinnar og hugsuðum með okkur hvers lags skrýmsli þetta væri fyrst 8 punda fiskurinn náði ekki að kippa stönginni svona út.  En félagi minn var með aðra stöng og skellir á hana stórum spúni og fer að kasta þvert á þar sem stöngin fór útí og reynir að trolla allt svæðið í von um að krækja í stöngina.  Eftir hálftíma eða svo þá finnur hann að það er fiskur á.  Honum finnst þetta samt eitthvað skrýtið og ég kem til hans.  Svo sjáum við spúninn koma upp á einum stað en bakugga á allt öðrum.  Hann hafði krækt í línuna sína og fiskurinn var ennþá á.  Fiskurinn hafði verið að reyna að losa sig í hálftíma og var orðinn dauðþreyttur.  Mér tókst að vaða út í og háfa hann frekar auðveldlega en hann var bara rétt rúmlega 2 pund og ekki þetta skrýmsli sem við héldum.  Við klipptum svo á línuma til að koma fisknum í land og toguðum svo í endann í allar áttir en allt sat fast.  Allt í einu losnaði eitthvað og við toguðum línuna inn þar til stöngin kom upp úr dýpinu.  Félagi minn fékk stöngina, hjólið og fiskinn til baka.  Þetta var frábær endir á fínum degi.  Takan datt niður og við héldum heim á leið í skálann.

Menn með veiðileyfi og veiðimenn
Síðustu vaktina byrjuðum við í Litlasjó á Hrauninu og fengum nokkra fiska þar á markíl.  Ég fékk tvo urriða, einn titt og einn sem var 1.5 pund.  Við lentum á spjalli við Hermann veiðivörð sem sagði að það væri ekkert að gerast.  Við höfðum svo sem séð það á aðgerðarborðinu á kvöldin að mjög margir bílar keyrðu bara framhjá og ályktuðum að margir væru að núlla.  Nokkrir komu með dágóðan slatta og við vorum alveg sátt þó við værum ekki með einhvern heljarinnar helling.  En Hermann sagði okkur að það væri fólk með veiðileyfi og það væru veiðimenn.  Fólkið með veiðileyfin veiðir bara þar sem vegir liggja að vötnunum og nennir ekkert að labba.  Það veiðir bara fisk ef það er fiskur á þeim stöðum en annars núllar það.  Veiðimenn hins vegar leita fiskinn uppi og fá alltaf fisk.  Þeir labba um svæðið og prófa fullt af stöðum þar til þeir finna fisk og þeir vita um staði fjarri bílastæðum þar sem fisk er að finna.  Við ákváðum að við værum veiðimenn því við höfðum einmitt gert þetta að labba um og leita að fiski.  Við ákváðum svo að enda vaktina í Snjöölduvatni á Bátseyri og athuga hvort bleikjurnar væru komnar aftur.  Þar tók ég eina bleikju á Ölmu Rún en við fengum ekki margar bleikjur.   Félagi minn tók tvær á sömu flugu og hans eins og mín voru eitt pund en annar félagi minn fékk eina bleikju á makríl og sú var yfir 3 pund.  Gott ef hún náði ekki 4 pundum en hún var virkilega flott og staðfesti það sem við höfum heyrt að þarna komi stórar bleikjur reglulega.  Þetta var fínn endir á veiðiferðinni okkar og við fórum mjög sátt heim.  Ekki var aflinn neitt gríðarlega mikill en þar sem veðrið lék við okkur og við vissum að illa hefði gengið þessa vikuna þá vorum við bara alveg sátt með að hafa þó fengið þessa fiska sem við fengum.  Það veiddust nærri helmingi færri fiskar í þriðju vikunni í Veiðivötnum miðað við aðra vikuna og því varð maður að hafa meira fyrir þessu en annars.  Ég mæli því eindregið með því að ef ekkert er að gerast að labba aðeins um og kasta á fleiri staði og finna hvar fiskurinn heldur sig.

Comments

comments


About the AuthorBack to Top ↑