Eldað í úthverfinu Danskt hreindýrabuff

Published on July 25th, 2016 | by Oddný Magnadóttir

0

Danskt (hreindýra) buff

Játning: Ég á alltaf alltof mikið af hreindýrahakki í frysti og ég er ekkert sérstaklega dugleg að nota það.

En í kvöld langaði mig í gamaldags hakkabuff með brúnni sósu og nýjum íslenskum kartöflum og í staðinn fyrir að nota hina hefðbundnu hakkblöndu með nauta- og svínahakki notaði ég hreindýrahakk.

Þetta er samt ekkert venjulegt buff því að ég set í hakkið saxaðar niðursoðnar rauðrófur, kapers og lauk; þessi snúningur virkar alveg svakalega vel með kjötinu og meira að segja maðurinn minn sem hatar rauðrófur elskar þetta.

Að nota hreindýrahakkið í þennan gamla rétt opnaði alveg nýja möguleika og þetta buff er komið á matseðil fjölskyldunnar svo lengi sem það er til hreindýrahakk í frysti.

Danskt hreindýrabuff

 

800 gr hreindýrahakk

1 egg

2 msk hveiti

1 rauðlaukur saxaður smátt

nokkrar sneiðar af niðursoðnum rauðrófum saxaðar smátt

1 -2 msk kapers, aðeins marin

gott flögusalt

nýmalaður pipar

olífuolía

smjör

 

Hrærið vel saman hakki, eggi og hveiti. Saltið vel og piprið. Það er alveg óhætt að salta vel og pipra. Hreindýrakjöt þolir það mjög vel.

Hrærið vel saman við deigið kapers, rauðrófum og lauk. Mótið vegleg buff.

Hitið ólífuolíu á pönnu á háum hita og brúnið buffin vel á báðum hliðum, saltið aðeins yfir.

Bætið smjörklípu á pönnuna og leyfið buffunum aðeins að krauma í smjörinu. Skellið síðan pönnunni eða setjið buffin í eldfast form og setjið í 180° heitan ofn og klárið að elda buffin, ca. 10-15 mínútur.

Bakið upp góða sósu að eigin vali (á pönnunni) og nýjar íslenskar kartöflur og góð bláberjasulta er skilyrði.

Comments

comments

Tags:


About the AuthorBack to Top ↑