FLUGUFÓTUR Núll

Published on July 26th, 2016 | by Sigurgeir Sigurpálsson

0

Stundum er allt í lagi að núlla

Þann 12. júní síðastliðinn var veiðidagur í Hlíðarvatni í Selvogi.  Ég hafði aldrei veitt þar en oft spáð í því að skella mér og oft lesið um veiði í þessu vatni.  Ég ákvað að grípa gæsina og rúllaði af stað.  Þegar ég kom á staðinn var vel tekið á móti mér og mér sagt til.  Einnig rakst ég á tvo félaga mína og annar hafði gert góða veiði en hinn var að mæta líka.

 

Veiðguðirnir stríddu
Veðrið var ótrúlega flott, himinn blár og vindur lítill.  Hitinn var góður og lífið allt á fullu.  Fólk var víða um vatnið en ég fann mér fínan stað.  Fljótlega fór ég að sjá fólk í kringum mig með fisk og varð strax bjartsýnn.  Aftur og aftur sá ég fólk taka fiska og ekkert gekk hjá mér.  Ég fékk þrjú högg en ekki vildu þeir festast á.  Ég setti svo í þrjá fiska en missti þá alla í löndun og þetta var farið að verða verulega pirrandi.  En eftir smá stund var ég aftur orðinn sáttur enda ekki annað hægt.

 

Veðurguðirnir léku við mig, veiðiguðirnir stríddu mér en það var bara allt í lagi.  Útsýnið þarna er frábært og hlíðin fyrir aftan mann tignarleg.  Þar flugu um menn í fallhlífum með hreyfli og horfðu á okkur lemja vatnið fyrir neðan sig.  Vatnið skartaði sínu fegursta í veðurblíðunni.  Mér fannst vatnið vera eins og lítið Þingvallavatn.  Hraun út um allt og flottir fiskar í vatninu, hyldýpi hér og þar og alls kyns staðir sem spennandi var að kasta á.

 

Bros yfir núlli
Auðvitað hefði ég viljað landa a.m.k. einum fiski en það hefði bara verið rúsínan í pylsuendanum á pylsu sem var rosalega góð með öll mínu uppáhalds áleggi.
Þegar ég lét gott heita fór ég bara vel sáttur, ég upplifði allt í vatninu nema að landa fiski.  Fiskarnir sem ég setti í voru vænir og skemmtilegir viðureignar.  Ég rúllaði heim með bros á vör og hugsaði með mér: “Það er allt í lagi að núlla…..stundum”.


zero

Comments

comments


About the AuthorBack to Top ↑