FLUGUFÓTUR Úlfljótsvatn

Published on August 2nd, 2016 | by Sigurgeir Sigurpálsson

0

Ekki kasta í veiðimanninn

Um helgina fór ég með börnin mín, kærustuna mína og börnin hennar í útilegu til skátanna við Úlfljótsvatn. Ég þorði nú ekki að taka veiðistangir með því það yrði ekkert vinsælt ef ég hyrfi á brott og skildi hana eftir með stóðið. En fyrsta spurning þegar við vorum komin á staðinn var frá krökkunum um hvort þau mættu fara að veiða. Þá uppgötvaði ég að þarna gerði ég stór mistök og hefði átt að kippa með stöngum fyrir alla.

Gestir koma mér til bjargar
Systir kærustunna minnar kom svo daginn eftir með sína fjölskyldu og vinafólk og voru tjaldbúðir okkar orðnar stórar. Mágur kærustunna minnar og bróðir hans eru miklir veiðimenn og þeir voru með stangir. Nú var tækifærið komið og við fórum með krakkana að veiða og svo fengu krakkarnir leið á þessu og við urðum eftir. Fiskurinn var að vaka um allt vatn og eitthvað var hann að éta. Líklega hefur hann verið að éta eina stærð af einni tegund af púpu og vildi ekkert annað því það þýddi ekkert að kasta á þá, það gerðist nánast ekkert. Stundum smá högg og stundum einn tittur. Við gáfumst ekkert upp og buðum fiskunum allt sem var í boxinu. Verst að strákarnir komu bara með þyngdar púpur og fiskurinn var bara í yfirborðinu.

Við bara athugum málið nánar
Þetta kvöld sem við vorum við veiðar þarna var hið fyrra af tveimur. Daginn eftir þetta slæma gengi okkur vorum við á því að þetta hefðu bara verið einhverjir tittir að megninu til. En úti var sól og blíða og mikill hiti og þessir félagar mínir, kærastan mín og systir hennar eru öll miklir sjósundsgarpar. Þau ákváðu að þetta væri bara of freistandi fyrir þau og skiptu í sundföt og smelltu sér í vatnið. Ég var að sjálfsögðu dreginn með og ætla ekki að halda því fram að ég hafi borið mig hetjulega, en útí fór ég og synti að bauju nokkurri þarna smá spotta frá landi. Einn smellti sér í blautbúning og fór að “free dive”-a og sagðist vera að tékka á því hvort það væru bara tittir þarna rétt fyrir utan að stríða okkur. Hann sá hóp af 2-3 punda bleikjum og synti með þeim um stund. Silungar virðast ekki óttast þessa tegund kafara og telja menn það sé vegna þess að það koma engar loftbólur frá þeim. Þeir halda bara í sér andanum og synda um í kafi án þess að vera með nein læti. En þá vissum við það að þarna væru alveg sæmilegir fiskar á ferð og um kvöldið ætluðum við okkur að veiða nokkrar vænar bleikjur.

Þolinmæði er dyggð
Við reyndum aftur allt í boxinu um kvöldið en ekkert gekk. Að endingu þá prófaði ég agnarsmáa Ölmu Rún og reyndi bara að láta hana nánast liggja. Dró hana ofurhægt inn með áherslu á OFUR. Þá fór þetta að ganga. Ég tók þrjár bleikjur á stuttum tíma en varð svo að hætta þegar stór hópur af breskum skátum komu niður að vatni og fóru að fleyta kerlingar í gríð og erg. Ein stelpan sýndi vott af tillitsemi þegar hún sagði hinum að passa sig að kasta ekki í veiðimanninn. Við létum þetta nægja en lexían þarna var að fiskurinn var ekki bara að éta í yfirborðinu heldur var það stærðin á flugunni og inndrátturinn sem skipti öllu máli.

Comments

comments

Tags: ,


About the AuthorBack to Top ↑