Sölvi Björn Ölfusa_1

Published on August 4th, 2016 | by Sölvi Björn

0

Aftur upp í vötn

Ég hafði líklega kastað stöng í yfir tuttugu ár þegar ég byrjaði að veiða á flugu og náði fyrstu bleikjunni á púpu í Þingvallavatni. Ég ólst upp við stríða jökulá þar sem venjan var að kasta spún eða beita túbu með sökku á kaststöng. Túburnar sem við notuðum hétu Grýla, Rauða hættan, Halti haninn, Kolskeggur og Collie Dog. 

Þrettán ára fór ég á hnýtinganámskeið og hannaði flugu sem heitir Æskrím étur hann. Þetta var túban sem pabbi notaði langmest þegar leið á veiðiæfina enda veiddi hann óhemju vel á hana og notaði stundum ekkert annað heilu vikurnar, þótt hann færi í laxveiði 30-40 sinnum yfir sumartímann. Sumarið var hans tími og hann notaði hann til að veiða í Ölfusá, ánni sem hann fæddist við og ég fæddist síðar við og á fleiri minningar frá en öðrum veiðistöðum. 

Það yljaði pabba að eyða jafnmiklu í 35 veiðileyfi eins og aðrir gerðu í eitt leyfi í dýrum ám. Hann naut einskis betur en að standa úti í á og kasta þrjúhundruð sinnum áður en fyrsti fiskurinn tók. Stundum kom hann í fyrsta kasti og þá vissi hann það oftast fyrir fram. Hann og áin voru eitt og líklega átti hann í hvað sterkustum samskiptum við hana af öllum vinum sem hann eignaðist um ævina. 

Uppi í Hreppum var það víst köllið aðferðin, að veiða á flugu með kaststöng. Það þótti ekki allt of fínt en þetta virkaði. Pabbi veiddi mörg hundruð laxa með þessum hætti og þar af heilu tugina af stórlöxum. Hann drap þá alla, var bara af þeirri kynslóð og skildi ekki hvers vegna maður ætti yfirleitt að eltast við fisk ef maður ætlaði ekki að borða hann. 

Engu að síður veitti það honum mun meiri ánægju að veiða fiskinn heldur en að setjast að snæðingi. Hann var lítill matmaður en lét reykja laxinn og notaði hann til jólagjafa til skyldmenna og vina og skar sér kannski smá ofan á brauð. 

Síðasta árið sem hann lifði fékk hann það af sér að sleppa tveggja punda urriða uppi í Veiðivötnum, ósærðum fiski af mörgum sem við höfðum veitt í þeirri ferð. Svipurinn á honum var óborganlegur þegar fiskurinn synti á burt. Gleði í bland við undrun og algjöra furðu. Þetta hafði hann aldrei gert áður, og fyrir honum lá raunar að gera þetta ekki aftur. 

Veiðimennskan er ástríða sem kannski er erfitt að skilja ef maður elst ekki upp við hana. Að standa þéttklæddur í köldu veðri og rigningu úti í vatni þegar maður gæti allt eins setið heima og horft á sjónvarpið. Minningarnar, andrúmsloftið og nálægðin við náttúruna og fiskinn réttlætir þetta allt og meira til. Maður lítur upp úr flækjunni á hjólinu og sér fjall í nýjum litum og foss sem hefði aldrei birst manni nema af því að maður er með þessa dellu. Flugan dinglar í vatnsborðinu á meðan maður reynir að greiða úr flækjunni og fyrr en maður veit af tekur fiskur agnið. Maður hrasar og verður hundblautur en samt fer brosið ekki af manni. 

Síðustu árin hef ég haft minni tíma til að veiða en þegar ég var yngri. Nú er fyrsta veiðiferð sumarsins fyrir höndum og þetta kemur allt aftur í undirbúningnum: Minningarnar frá bernskunni, ánægjan yfir því að vera á leið út í náttúruna og spenningurinn yfir því að landa fallegum urriða í góðra vina hópi. Það besta við undirbúninginn er að ég finn á mér að ég á eftir að fá fisk. 

Comments

comments


About the AuthorBack to Top ↑