Veiðisjúrnall Atla Bergmann Lax úr Elliðaám

Published on August 7th, 2016 | by Atli Bergmann

0

Loksins gaf hrygnan sig

Laxinn í bæjarlæknum, já ég er að tala um fyrsta laxveiðitúr sumarsins og það í Elliðaránum.

Þessi á er mér mjög kær og hefur ætíð gefið mér vel hvort heldur sem er urriði á vorin eða lax á sumrin. Núna átti ég fyrripart á frídegi verslunarmanna 1. ágúst, sem er gott, en verra var að nú bar svo við að það var heitt, logn, vatnslítið og gula ógeðið skein skært. (En það er eins og menn vita eru þær verstu aðstæður sem hugsast getur fyrir laxveiði.)

Góðu fréttirnar voru þær að það er nóg af laxi og vel dreifður og þá er bara að njóta veðurblíðunnar og takast á við krefjandi aðstæður.

Atli Bergmann þingvallavatn

Litlar flugur virka best og allt niður í micro-stærð og það var einmitt Micro Sunrey-túba sem hann tók í Símastreng. Þetta var sprækur Elliðaársmálax um 60 sentímetrar. Já, um segi ég því þegar ég var að landa honum, að mínu mati fullkomlega á milli steina svo ég myndi ekki styggja hylinn frekar, þá tókst honum á undraverðan hátt að sprikla, snúa sér og smeygja sér út í hylinn aftur!

Jæja, ég hugsaði bara; veiða/sleppa er gott karma og var bara ánægður. Eftir þetta var víða farið og mikið reynt án árangurs þar til að ég kom að þrem löxum í holu neðarlega í veiðistaðnum Fljótið. Svo hagaði því þannig að þeir voru undir runna ég sjá þá vel en þeir styggðust ekki. Ég gat þrákastað á þá og var einn þerra sem elti fluguna stundum, nema hvað að klukkutíma síðar og hafandi farið í gegnum allt boxið þá réðist hann loks á fluguna. Þessi fór á land, reyndist 59 sentímetra hrygna sem síðar varð að veislumat. Takk fyrir mig.

Ps. Þess má geta að þetta er í fyrsta sinn sem ég er að veiða með Himbrima í Elliðaránum.

Comments

comments

Tags: , ,


About the AuthorBack to Top ↑