Skotveiði SONY DSC

Published on August 15th, 2016 | by Ritstjórn

0

Þarf að fella 30 dýr daglega svo kvótinn klárist

Hreindýraveiðitímabilið stendur nú sem hæst. En, veiðimenn hafa verið fremur rólegir að tygja sig og halda á veiðislóð. Heildarkvótinn eru 1300 dýr og af því á að veiða 1175 dýr á hefðbundnum tíma.

Í orðsendingu frá umhverfisstofnun segir að nú „þegar töluvert er liðið á veiðitímann á enn eftir að fella rúmlega 900 dýr af þeim og samkvæmt því þarf að fella um 30 dýr á dag til að veiðar klárist.“

Ljóst er að vel þarf að ganga svo menn nái að fella þau dýr sem til stendur að ná. Þá kemur jafnframt fram að helgar séu oft þéttskipaðar en ekki er sérlega eftirsóknarvert að vera í kapphlaupi við aðra veiðimenn um hjarðirnar.

jbg með tarf2

Jakob með tarf sem hann felldi fyrir fáeinum árum. Á aðalmyndinni má sjá Mikka og Jakob Karlsson leiðsögumann og fjallagarp með tarf sem féll fyrir tveimur árum.

Gripdeildarmenn eru nú að undirbúa ferð sína austur en báðir ritstjórar vefsins eru með tarf á svæði eitt. Rithöfundurinn og leikskáldið Mikael Torfason er nú sem stendur í Noregi þar sem hann vinnur að uppsetningu leikgerðar sinnar og Þorleifs Arnar Arnarsonar á mikilli Ibsen-sýningu sem nú er verið að setja á svið í norska þjóðleikhúsinu. Þetta verk verður hápunkturinn á miklu Ibsen-festivali í Noregi. Mikael gerir hlé á þeim störfum sínum til að fara austur og er mikil eftirvænting í herbúðum Gripdeildarmanna; til stendur að segja af ferðinni í máli og myndum. Ef tækifæri gefast til verður horft eftir heiðargæs, silungi og jafnvel laxi í Jöklu. Þannig að það stendur mikið til.

Veður skipar stóran sess þegar veiðar eru annars vegar og hafa menn lent í því að þurfa að bíða af sér sudda og þoku, jafnvel í marga daga. Nýta þarf vel þann tíma þegar sæmilega viðrar. Svo enn sé vitnað í umhverfisstofnun:

„Gott skipulag og fyrirhyggja eykur ánægju veiðanna. Liður í því er að fara tímanlega til veiða þar sem annars má búast við að þéttskipað verði á veiðislóð síðustu veiðidagana í september. Veiðimenn sem ekki hafa skipulagt veiðiferðina eru hvattir til að gera það tímanlega í samráði við leiðsögumann.“

Veiða má tarfana til 15. september en kýr til 20. sama mánaðar. 135 veiðimenn hafa úthlutað leyfi til að veiða kýr á svæðum 7, 8 og 9 í nóvember en aðrir þurfa að ljúka veiðinni fyrir þennan tíma.

Comments

comments


About the Author

Sendu okkur myndir! Ritstjórn Gripdeildar, sem samanstendur af þeim Jakobi og Mikael, óskar eftir því að fá sendar myndir, myndbönd og fréttir á netfangið ritstjorn@gripdeild.is.Back to Top ↑