Stangveiði SONY DSC

Published on August 18th, 2016 | by Ritstjórn

0

Ytri-Rangá enn og aftur á toppnum

Ytri-Rangá er komin á topp lista yfir þær ár hvar flestir laxar hafa verið skráðir í veiðibækur. Áin er þar á kunnuglegum slóðum; þar hafa undanfarin ár veiðst flestir laxar en 2016 eru komnir þar á land 5467 laxar.

Landsamband veiðifélaga rekur þá ágætu þjónustu að birta reglulega veiðitölur og þar má sjá að í öðru sæti er Miðfjarðará með 3005 laxa og Eystri-Rangá er með 2627 laxa.

Eystri-Rangá er sérstök að því leytinu til að þar leigja á stundum vellauðugir Rússar ána í vikutíma eða svo, og svo er jafnvel undir hælinn lagt hvenær og hvort þeir koma. Þeir eru ekki mjög kappsamir veiðimenn og veiðibækurnar gjalda þess. Vísir greindi frá því fyrir nokkru að einhver auðugasti maður heims, ólígarkinn Iskander Makhmudov, vinur Pútíns, hefði leigt Eystri-Rangá um vikuskeið.

Iskander

Iskander Makhmudov er einn auðugasti einstaklingur heims og hann var í Eystri-Rangá í sumar. Pútín vinur hans var sagður væntanlegur en lítt fór hins vegar fyrir honum.

Nema, samantekt Landsambandsins er frá veiði í lok síðasta miðvikudags 17. ágúst síðastliðinn. Víst er að laxveiðitímabilið fór af stað með miklum hvelli en eftirfylgnin hefur ekki verið í samræmi við það. Í pistli sem fylgir nýjum veiðitölum eru menn hins vegar brattir og dansa regndans.

„Fyrir viku síðan var loks komin væta í kortin og líkur á að vatnsbúskapur myndi færast í betra horf enda úrkomuleysið farið að hafa víða áhrif á veiði. Það gekk blessunarlega eftir og vatnsmagn hefur aukist víða með tilheyrandi jákvæðum áhrifum á veiði. Sem dæmi má nefna Norðurá í Borgarfirði og Laxá í Dölum þar sem vikuveiðin tæplega þrefaldaðist miðað við veiði vikuna þar á undan. Eftir veiði síðustu viku bættist ein á, Haffjarðará, í hóp þeirra sem hafa farið yfir 1000 laxa markið en síðustu viku veiddust alls 76 laxar og hún komin í alls 1040 laxa. Veiði gengur vel í Miðfjarðará, hún er komin í 3005 laxa og síðustu viku veiddust alls 339 laxar.“

Nýr listi Landsambands veiðifélaga er sem hér segir

  1. Ytri-Ranga 5467 laxar – vikuveiði 803
  2. Miðfjarðará 3005 laxar – vikuveiði 339 laxar.
  3. Eystri-Rangá 2627 laxar – vikuveiði 146 laxar.
  4. Blanda 2217 laxar – vikuveiði 189 laxar
  5. Þverá og Kjarará 1567 laxar – vikuveiðin 98 laxar.
  6. Norðurá í Borgarfirði 1130 laxar – vikuveiði 91 laxar.
  7. Haffjarðará 1040 laxar – vikuveiði 76 laxar.
  8. Langá 963 laxar – vikuveiði 88 laxar.
  9. Laxá í Aðaldal 862 laxar – vikuveiði 44 laxar.
  10. Laxá í Dölum 801 laxar – vikuveiði 215 laxar.

Á aðalmyndinni má sjá Mikael Torfason í góðum félagsskap á bökkum Ytri-Rangár með lax á tvíhendunni sinni.

Comments

comments

Tags: , , ,


About the Author

Sendu okkur myndir! Ritstjórn Gripdeildar, sem samanstendur af þeim Jakobi og Mikael, óskar eftir því að fá sendar myndir, myndbönd og fréttir á netfangið ritstjorn@gripdeild.is.Back to Top ↑