Stangveiði SONY DSC

Published on August 19th, 2016 | by Ritstjórn

0

Gripdeild Einarsson-ar sig upp

Undirbúningur fyrir veiðiferðina miklu austur stendur nú sem hæst. Öllu er til tjaldað og nýjustu tíðindi í tengslum við veiðidótið eru þau að Gripdeild hefur fengið sér Einarsson-veiðihjól. Eða, Einarsson-að sig upp, svo gripið sé til skelfilegrar íslensku.

Stefnt er að því að taka hina heilögu þrenningu í ferðinni miklu: Hreindýr, heiðargæs og lax. Tilhlökkunin er að nálgast einhvers konar sturlun sem reyndar mjakast örugglega yfir í Nirvana-ástand. Því undirbúningurinn er nefnilega stór hluti hverrar veiðiferðar og það að róta í veiðidótinu sínu er á við marga klukkutíma á bekknum hjá klínískum sálfræðingi. Eins og gefur að skilja er óheyrilegt hafurtask sem fylgir ferð sem þessari. Og nú er gaman.

Hjólið algjört aukaatriði — nema síður sé
Þegar þetta er skrifað hefur verið gert stutt hlé á því að fara yfir stangveiðiútbúnaðinn. Sem nú er gert að einstakri kostgæfni – sem kemur til af góðu einu. Þegar sá sem þetta ritar var að byrja fyrir alvöru í fluguveiðinni fyrir um fimmtán árum var sagt að stöngin væri að sönnu mikilvæg en aðalmálið væri þó línan. Hins vegar væru hjólin algert aukaatriði, í raun væru þau bara geymslustaður fyrir línuna. Gott og vel. Eins langt og það nær.

Einarsson og Sage

Einarsson og Sage — hjónaband í himnaríki.

Vissulega er frumskilyrði að geta baðað fluguna svo vel sé. En, hugsa verður hvert dæmi til enda. Hlaupi lax á færið veit sá sem allt veit að þá er hjólið málið. Eins skelfilegt og það er þegar laxinn er óður á að vera með hjól sem erfitt er að draga inn á er sælan ein að vera með hjól á stönginni sem ræður vel við allar aðstæður. Það gerir daginn.

Made in Iceland
Við Íslendingar búum svo vel að vestur á Ísafirði eru dverghagir menn að framleiða fluguveiðihjól sem eru í fremstu röð á heimsvísu. Einarsson-hjólin. Framleiðsla í þessum gæðaflokki gerir sitt til að staðsetja Ísland meðal þeirra fremstu í stangveiðinni. „Made in Iceland“. Nákvæmlega.

Gripdeild fékk sent sérstaklega hjól frá Einarsson vestan frá Ísafirði og þvílík dvergasmíð. Hjólið er lauflétt miðað við umfang og smellpassar á Sage-stöngina. Eins og flís við rass. Langþráður draumur að rætast. Allir stangveiðimenn sem Gripdeild þekkir, og þeir eru fjölmargir, tala af mikilli lotningu um gæði þessara hjóla. „Besta sem ég hef prófað,“ sagði Tómas Skúlason í Veiðiportinu, sem sett línu á hjólið nú í morgun.

Vonandi reynir á Einarsson í Jöklu
Til stendur að reyna að taka einn dag í Jöklu; hið næsta stóra laxveiðiævintýri á Íslandi. Þetta reyndar er háð því að hreindýraveiðarnar gangi að óskum, en Gripdeild gerir ekki ráð fyrir öðru þó mikið standi til; báðir ritstjórar vefsins eru með tarf. Mikael Torfason er með heppnari mönnum (er af sínum nánustu stundum kallaður Hábeinn frændi) og svo njótum við leiðsagnar Jakobs Karlssonar fjallagarps en fáir menn þekkja svæðið eins vel og hann. Nú þegar rótað er í stangveiðidótinu eru fingur krosslagðir og vonað að á Einarsson-hjólið reyni í Jöklu. Þröstur Elliðason hlýtur að sjá til þess.

Comments

comments

Tags: , , , ,


About the Author

Sendu okkur myndir! Ritstjórn Gripdeildar, sem samanstendur af þeim Jakobi og Mikael, óskar eftir því að fá sendar myndir, myndbönd og fréttir á netfangið ritstjorn@gripdeild.is.Back to Top ↑