Stangveiði Lilló2

Published on August 19th, 2016 | by Ritstjórn

0

Stangveiðimaður rambar fram á tundurdufl

Víða flækist frómur og kunnara er en frá þurfi að segja að veiðimenn lenda í ýmsu á ferðum sínum um landið. Þeim kemur fátt á óvart. En, sennilega er fátítt að stangveiðimenn rambi fram á tundurdufl, eins og kom fyrir Friðrik Þór Guðmundsson fjölmiðlamann en hann hefur lengi stundað stangveiðar. Eða, hann heldur einna helst að þessi torkennilegi hlutur sem varð á vegi hans í lóni nokkru við Eyjafjörð, rétt norðan Hjalteyrar, sé sprengja.

„Í gær var ég í mínu mesta sakleysi að veiða í lóni um miðbik Eyjafjarðar þegar ég rambaði á nokkuð sem ég hugsaði með mér að gæti verið tundurdufl. Þegnskyldan sagði mér að taka mynd og senda LHGæslunni,“ segir Friðrik Þór.

lilló3

Lilló hefur árum saman verið ástríðufullur stangveiðimaður. En, hann hefur aldrei lent í öðru eins og þessu.

Þetta var í gær og hann segist hafa lóðsað tvo yndislega lögreglumenn á staðinn. „Þetta gæti líka verið hlustunardufl, við sjáum til, en altso, út af þessu var ég færður í lögreglubíl áðan,“ segir Friðrik og glottir við tönn.

Friðrik Þór var þarna í sjóbirtingsveiði, veiddi einn mjög vænan auk þess sem hann landaði þremur litlum urriðum. Um er að ræða lón við Eyjafjörð sem er sjór á flóði en vatn á fjöru.

Friðrik Þór segir að á þessari stundu liggi ekki alveg fyrir hvaða hlutur þetta var. „Gögn fara til LHG frá löggumönnunum. Varðskipið Þór er í Akureyrarhöfn, hver veit? Kannski sprengja þeir þetta að minnsta kosti til að æfa sig.“

Blaðamaður Gripdeildar spyr Friðrik Þór hvort hann hafi ekki verið skelkaður, en hefði kannski betur sleppt þeirri spurningu.

„Ég? Skelkaður? Ég spáði í að fara í fótboltaskóna!“

Hér getur betur að líta hinn torkennilega hlut sem varð á vegi Friðriks Þórs. Mjög líklega er þetta tundurdufl eða sprengja, jafnvel að um sé að ræða hlustundardufl. Málið er nú til rannsóknar hjá Gæslunni.

Lilló1

Comments

comments

Tags: ,


About the Author

Sendu okkur myndir! Ritstjórn Gripdeildar, sem samanstendur af þeim Jakobi og Mikael, óskar eftir því að fá sendar myndir, myndbönd og fréttir á netfangið ritstjorn@gripdeild.is.Back to Top ↑