Veiðisjúrnall Atla Bergmann atl í Langá sonur

Published on August 19th, 2016 | by Ritstjórn

0

Veiðifeðgar á ferð

Eftir að hafa startað laxveiðisumrinu í bæjarlæknum var ég orðin mjög spenntur fyrir árlegum laxveiðitúr sem ég fer með syni mínum Heiðar Val. Og nú var planið gott; fyrst að byrja rólega laugardaginn 6. ágúst í Alviðrunni í Soginu. Þá aðeins meira fjör í Bíldsfellinu einnig Sogið 7. til hádegis 8. ágúst. Og þaðan sama dag beint í gullið Langá í 3 daga eða til 11 ágúst.

Skemmst er frá því að segja að þessi fornfrægi veiðistaður sem Alviðran er; við hvorki sáum né urðum varir við sporð að þessu sinni, og ekki heldur hin stöngin sem var á móti okkur. Þar sem þetta var sama dag og haldin var mikil Gay Pride-hátíð í bænum fannst mér algerlega ótækt að taka Broke Back Mountain (sem er að fara í veiðitúr og koma fisklaus heim) á þetta og lagði til við son minn að við myndum stoppa við á Þingvöllum og athuga með kuðungableikjur, sem og við gerðum.

atl kuðungableikjur

Kuðungableikjurnar í Þingvallavatni björguðu deginum.

Á skömmum tíma var ég búin að setja í nokkrar bleikjur, sleppa þeim litlu en hirti tvær vænar, 2 – 3 punda í matinn. Frábær dagur.

Sogsbleikjan sannarlega ekki horfin
Næsta dag byrjuðum við á hádegi í Bíldsfellinu en það verður að segja þá sögu eins og hún er að lítið varð vart við lax og einungis 36 stykki voru komnir í bókina. Það var brjálæðislega gott veður, logn og sól og hiti, enginn lax en ég fékk tvo fallega urriða. Þann fyrri í Melhorni og þann seinni, sem var stór staðbundinn höfðingi, í Sakkarhólma. Ekki urðum við frekar varir og fórum í hús og elduðum kuðungableikjurnar frá kvöldinu áður.

Daginn eftir var sama blíðan og það var sofið út. Síðan ákváðum við að fara í Bíldsfellsbreiðuna og glíma við bleikju á þurrflugur og það var gaman. Bleikjan var mikið að vaka og virtist mikið af henni sem er gott eftir vangaveltur síðast liðins vors þess efnis að Sogsbleikjan væri nánast horfin. En, svo er aldeilis ekki. Það var lítil Black Gnat-þurrfluga sem gaf best og þrátt fyrir grannar tökur náðum við 8 stykkjum á land og misstum margar. Við slepptum öllum. Stórkostlegur morgun og fegurðin óendanleg.

Langá ást við fyrstu sýn
Þá var ekki seinna vænna en að ganga frá og bruna beint í Langá í Borgarfirði og hlakkaði ég mikið til. Ekki spillti fyrir að Heiðar Valur sonur minn hefur verið „gæd“ þar í sumar og var til í að kynna okkur, mig og Langá.

Við áttum fjallið fyrstu vaktina og þvílíkt landslag og fegurð og líf… já það var svo sannarlega mikið líf. Hann var stökkvandi hægri vinstri, upp og niður og út og suður. En… enginn taka. Já ástandið var svo þarna sem víðar í laxveiðiám á Vesturlandi að vegna langvarandi þurrka og hita og vöntun á nýjum smálaxagöngum var takan treg. Það eina sem var að virka voru micró-flugur og micro-hitch.

Á efsta veiðistaðnum sem heitir Ármótarfljót set ég í, nema hvað, væna bleikju sem ásamt náttúrufegurð og gnógt aðalbláberja, gerir þetta að frábærum degi.

Þung taka eða: „bvúmm“
En, næsta dag tók alvaran við. Nú skyldi sett í lax og það hafðist, Heiðar Valur „hitsaði“ upp smálax og við vorum kátir. Ekki minnkaði gleðin á seinni vaktinni þegar ég setti í sprækan hæng, 60 sentímetra sem við hirtum. Þess má geta að við fengum nokkrar tökur og misstum einnig nokkra eftir grannar tökur. Mikið af laxi var í ánni og sýnilegur. Mjög gaman.

atl í Langá

Greinarhöfundur alsæll í Langá.

Næsta dag gerðist það sem mann dreymir um og rætist stundum. Ég var með uppáhalds T&T #6 stöngina mína þegar ég byrjaði efst í veiðistað #24 Bakkastreng. Ég var með micró Francis með keilu, þegar það er þung taka. Svona: Bvúmm. Ég geriði mér strax grein fyrir að hann er stór og sú var raunin. Hann stökk þrisvar og straujaði sem betur fer fyrst upp eftir og eftir um 10 mínútur náði ég fyrst tökum á honum og byrja að þreyta og lempa hann inn. Eftir 20 mínútna viðureign náði ég honum á land og þarna var kominn þessi líka gullfallega 80 sentímetra hrygna. Allt var harla gott og henni sleppt.

Top rod og sem kóngur í húsinu
Daginn eftir, á afmælisdegi Heiðars Vals, er veðrið og vatnsbúskapurinn við það sama. Við ákveðum að prófa fáfarnari veiðistaði og fórum í gljúfrin að leita. Þá sá ég allt í einu lax stökkva skammt frá mér og tek eftir að hann er sæmilega bjartur. Og, viti menn, í öðru kasti negldi hann fluguna með þvílíkum látum og gusugangi og dansaði á sporðinum fram og til baka. Þarna landaði ég fallegum nýgengnum 59 sentímetra laxi og skömmu síðar setti sonur minn í annan sem fór svo af.

atl í langá2

Bjartur Langárlax.

Á seinni vaktinni hélt stökksýningin áfram og grannar tökur eða þar til að við komum í efri Hvítstaðarhyl. Afmælisbarnið byrjar og setur undir micró flugu og bomm; hann er á. Við löndum flottum 60 sentímetra hæng og dagurinn var fullkomnaður.

Þrátt fyrir allt vorum við „top rod“ í húsinu og harla sáttir enda allur viðgerningur; matur og aðstaða hæf kóngum og það var einmitt þannig sem manni leið eftir þessa drottins dýrðar daga í Langá.

Hér fyrir neðan má sjá Heiðar Val takast á við einn lax í Langá.

Comments

comments

Tags: , , ,


About the Author

Sendu okkur myndir! Ritstjórn Gripdeildar, sem samanstendur af þeim Jakobi og Mikael, óskar eftir því að fá sendar myndir, myndbönd og fréttir á netfangið ritstjorn@gripdeild.is.Back to Top ↑