Sölvi Björn SONY DSC

Published on August 26th, 2016 | by Ritstjórn

0

Veiðimenn nema land

(Gripdeild birtir fyrsta kaflann úr stórvirkinu Íslensk vatnabók sem kom út 2013.)

Veiðimennska hefur fylgt Íslendingum lengur en byggð hefur verið í landinu. Fyrsta sagan er af Hrafna-Flóka, sem gleymdi sér svo við veiðiskap að hann komst ekki til að heyja og missti allan kvikfénað sinn um veturinn. Samferðamaður hans, Faxi suðureyski, var enn að dást að vatnsföllunum þegar síðasta skepnan gaf upp öndina og hafði þá aldrei séð önnur eins straumvötn á ferðum sínum um veröldina. Veiðikappið réð því að landið fór aftur í auðn. Flóki sneri heim til Noregs og sá eyjunni flest til foráttu eins og sá einn gerir sem hefur allt á hornum sér í veiðitúr. Hann gleymdi alveg að rækta með sér jafnaðargeðið og því fór sem fór um sauðina hans og framrás Íslandssögunnar. Kannski hefði enginn treyst sér öðru sinni vestur um haf hefði Þórólfur smjör ekki slegið á létta strengi og deilt með veiðifélögum sínum í Noregi hinni unaðsríku reynslu sinni af reisunni. Það var eflaust ekki svo lítils vert fyrir síðari kynslóðir Íslendinga að þessi léttlyndi samferðamaður Hrafna-Flóka skyldi láta svo vel af landgæðunum. Ef herma ætti eina lexíu öðrum fremur af fyrsta íslenska veiðitúrnum er hún tvímælalaust sú að afstaðan skiptir öllu máli; sá einn kemur glaður heim úr veiðiferð sem ber sig eins og Þórólfur smjör, hvernig svo sem fræknast og fiskast.

Það var líka langt í frá að fólk missti trúna á veiðieyjuna í norðrinu. Ekki leið nema veturinn þar til Ingólfur kom með fylgdarliði og reisti súlur sínar í Kvosinni eftir heilmikið rangl um landið. „Til ills fóru vér um góð héruð, er vér skulum byggja útnes þetta,“ mælti Karli þræll hans og flúði til Þingvalla að sjóða sér silung svo reykinn lagði yfir Ölfusið. Þessi skynsami þræll var eflaust fyrsti veiðimaðurinn þarna í sveitinni.Við svo búið var byggð föst í landinu og fóru allir síðari landnemar að dæmi þeirra fyrstu. Þeir námu jarðir milli fallvatna og reistu sér hús á grösugum bökkum þar sem silungar vöktu á vötnum og laxar syntu í hyljunum.

Mesti laxabóndinn var Skalla-Grímur sem kom sér upp búi að Borg við Langárósa. Þaðan raðaði hann mönnum sínum skipulega í kringum gjöfulustu laxveiðiár héraðsins. Grímur háleyski fékk land milli Andakíls og Grímsár, Áni milli Langár og Háfslækjar, og þeir þursar, Þórir og bræður hans, fengu land ytra með Langá. Án veiðisældarinnar er óvíst hvort þessir menn hefðu nokkurn tíma látið sjá sig á Íslandi. Vatnsdæla segir að Grímur háleyski hafi látið tilleiðast vegna sagna um að þar væri „fiskur í hverju vatni, skógar miklir, en frjálsir af ágangi konunga og illræðismanna“. Eins var um þá Björn austræna og Helga Bjólan, syni Ketils flatnefs, sem líkt og fleirum varð uppsigað við Harald hárfagra í Noregi. Þeir héldu til Íslands vegna þess að þar var hvalreki mikill og laxveiðar og hægt að veiða allan ársins hring. Þessir fornmenn notuðu spjót og skutluðu laxa af árbökkum en dorguðu líka í gegnum vakir þegar vötn lagði á vetrum. Það var eins og mönnum kæmi ekki í hug að nota öngul nema úti á ísbreiðunum, þegar ekki var hægt að komast öðruvísi að fiskunum. Þó voru þetta menn sem víluðu hvorki fyrir sér líf né dauða. Þegar Þorsteinn þorskabítur Þórólfsson Mostrarskeggs, sem var afi Snorra goða, drukknaði ungur að aldri í fiskróðri gekk hann rakleiðis inn í Helgafell og hóf drykkju við mikinn fögnuð frænda sinna, sem voru líka dauðir. Um þetta vitnaði smalamaður hans og staðfesti um leið þau mikilsverðu sannindi að maður ætti aldrei að láta illa heppnaðan veiðitúr of mikið á sig fá.

Flestallar fornsögunnar fara einhverjum orðum um veiðimenn og fiska og eru þær af augljósum ástæðum langbesta heimildin um veiðimannasamfélagið á landnámsöld.

Skarphéðinn Njálsson var laxveiðimaður og beitti til þess vopnum sínum eins og segir frá í fertugasta og fjórða kafla Njálu. Höfundur Eiríks sögu segir líka frá sérstakri veiðiaðferð þar sem grafinn er skurður í sjávarbakka svo „landið mættist og flóðið gekk efst, og er út féll voru helgir fiskar í gröfunum“. Hefðbundnari veiðiskapur tíðkaðist þó líka til að krækja í bráðina, eins og þegar „út reri einn á báti Ingjaldr í skinnfeldi, týndi átján önglum Ingjaldr í skinnfeldi“. Örlög Ingjalds voru að sökkva í sæ og lét hann þannig líf sitt fyrir veiðigyðjuna, en þess fundust líka dæmi að veiðimennskan bjargaði mönnum úr lífsháska. Í Gísla sögu er sagt frá því hversu illa Birki digra gekk að hafa uppi á Gísla í útlegðinni þar sem sá síðarnefndi var allt of upptekinn við veiðiskap og huldist sökum þessarar ráðsnilldar í óbyggðum. Vestfjarðasögurnar geyma öðrum sögum fremur frásagnir af hugmyndaríkum veiðimönnum. Svanur á Svanshóli bjargaði endasleppri veiðiferð með því að ganga inn í Kaldbakshorn, en hryggði með því frænku sína Hallgerði langbrók. Í Reykjafirði bjó Þorgeir Önundarson tréfótar og „réri jafnan til fiskjar því þá voru firðirnir fullir af fiskum“. Þarna bjó líka Grímur sá er ræddi forlög sín við marbendil, sem er margfróð hafvera af karlkyni. Þuríður sundafyllir, sem fékk nafn sitt af því að geta fyllt öll sund af fiskum, kom í Djúp austur af Hálogalandi og græddi þar á klókindum sínum með því að gefa ísfirskum bændum Kvíamið. Fyrir það fékk hún margar kindur og varð fyrirmynd margra hugdjarfra veiðikvenna sem reistu gæfu sína á auðæfum vatnanna.

En það voru ekki bara skeggjaðir höfðingjar og klókar landnámskonur sem öfluðu sér frægðar fyrir veiðimennsku á fyrstu árum byggðar. Í Finnboga sögu ramma er einn mesti veiðimaðurinn drengur að nafni Urðarköttur sem klæðist skinnstakki og söluvoðarbrókum og fer berfættur til veiða. Fiskiaðferð hans er lýst þannig að hann gerir sjálfan sig að einskonar veiðistöng með því að hnýta á sig bandstubb, hleypur svo þannig „út í lárnar og bregður í fiskinn öðrum enda á snærinu en annan hefir hann um herðar sér, streitist nú mjög og gengur stundum á en stundum ekki“. Af þessu urðu úfar, grín og ýmiss konar harmar og var það síst einsdæmi á meðal veiðimanna á hinu nýbyggða Íslandi. Þannig fer Landnáma hraklegum orðum um öfundarmenn Ásólfs í Skála, sem var svo fiskisæll maður að nærri honum urðu allar ár að veiðiám og gilti einu hversu menn hröktu hann burt frá miðunum, þá eyddist þar jafnharðan allur fiskur en kom að nýju í þá læki þar sem Ásólfur var. Af þessu má draga mikinn lærdóm, sem bætist við það sem fyrr var sagt um lífsgleði Þórólfs smjörs, og hann er sá að öfund er einhver hraklegasta skapgerð sem nokkur maður getur ræktað með sér í veiðiferð. Hvaða ólundarfýlu sem maður kann að vera haldinn er langbest að skilja hana eftir heima og gefa sig heldur að æðruleysi Ásólfs veiðimanns, sem var mesta náðargjöf hans í lífinu. Það var í það minnsta ekki við hann að sakast að til forna urðu stundum fleiri veiðimenn örendir en fiskar.

Raunar segja margar af frægustu veiðisögum fornsagnanna af illdeilum og mannvígum við árnar. Allt of margir forfeðra okkar virðast hafa metið það sem svo að fisklífið væri merkilegra en mannslífið og hikuðu af þeim sökum ekki við að drepa frændur sína og bræður ef virði nokkurra sporða fór á sveig með drápinu. Laxdæla segir frá því að Þórólfur, frændi Vigdísar á Goddstöðum, hafi drepið Hall, bróður Ingjalds Saureyjargoða, þegar þeir deildu um hvernig skipta skyldi upp afla. Björn Hítdœlakappi lenti í fyrirsát frænda sinna í Beruvíkurhrauni, þeirra Óttars og Eyvindar, þegar hann var á heimleið af fiskmarkaði á Snæfellsnesi. Frægasta illdeilan um fiskveiðar til forna snýr að laxveiðum í Vatnsdalsá, þar sem þeir deildu Ingimundur gamli og Hrolleifur, sem taldi sér ekki skylt „að ganga úr ánni fyrir illskuþrælum“ en réð blindum manni bana fyrir laxinn. Og er nú eflaust nóg sagt um deilumál.

Í bestu lýsingunum af veiðimönnum landnámsaldar er ljóst að góðir fiskimenn njóta gæfufylgdar landvætta þegar haldið er í veiðiferð. Þannig eru nú fyrstu Íslendingarnir í engu öðruvísi en fyrri landnemar norðan Kákasusfjallanna, sem höfðu tálgað sér fiskispjót úr beini og skutlað laxa frá því að síðustu ísana leysti af norðurhvelinu. Þeir voru veiðimenn fremur en búmenn, komnir af þeim kynlega kvisti fólks er kaus að fara á sveig við frjósama hálfmánann og reika frekar um jörðina í leit að sportfiskum. Afkomendur þessara laxakerlinga og þorskbíta fara enn í stórum flokkum um landið á hverju sumri, hver og einn í leit að gleðinni sem forðum nam vit og rænu frá fyrsta landnámsmanninum í Vatnsdal.

 

Úr Íslenskri vatnabók © Sölvi Björn Sigurðsson

Bækurnar Íslensk vatnabók og Stangveiðar á Íslandi voru gefnar út af Sögum árið 2013.

Þær voru tilnefndar til Hinna íslensku bókmenntaverðlauna og hlutu Menningarverðlaun DV í flokki fræða.

Comments

comments


About the Author

Sendu okkur myndir! Ritstjórn Gripdeildar, sem samanstendur af þeim Jakobi og Mikael, óskar eftir því að fá sendar myndir, myndbönd og fréttir á netfangið ritstjorn@gripdeild.is.Back to Top ↑