Skotveiði Jói og Skúli með sitthvora beljuna

Published on August 29th, 2016 | by Ritstjórn

0

Bræður bana beljum á Jökuldal

Bræðurnir Jóhann Guttormur og Skúli Björn Gunnarssynir felldu sínar hreinkýr í Hvannárheiði á veiðisvæði 1 þann 23. ágúst. Veðrið var einstaklega gott sól og hægviðri. Jóhann er starfsmaður Umhverfisstofnunar og hefur yfirumsjá með hreindýraveiðunum sem nú standa sem hæst austur á landi. Skúli Björn er hins vegar forstöðumaður Skriðuklausturs sem áður var Gunnarsstofnun. Þeir bræður voru hinir ánægðustu og mega vera það. Veiðin gekk að óskum, en Jóhann sá tækifæri og stökk af skrifstofu sinni.

,,Vegna þess að ég er nú að tala við leiðsögumenn og fylgjast með veiðunum alla daga, þar sem ég er starfsmaður Umhverfisstofnunar á Egilsstöðum, þá sá ég að veiðar myndu klárast frekar snemma þennan daginn þar sem menn voru að veiða á svæði 1,“ segir Jóhann í samtali við Gripdeild, en þeir bræður höfðu talsvert minna fyrir sínum dýrum en ýmsir aðrir veiðimenn eins og Gripdeild á eftir að greina ítarlega frá — en, svona eru veiðarnar. Dýrin felldu þeir bræður úr stórri hjörð sem hafði áður týnst á Sandfellssvæðinu fyrr í mánuðinum en kom loks í leitirnar.

Mættur aftur á skrifstofuna með blóð á höndum
Jóhann var svo mættur aftur til vinnu þá um kvöldið, til að klára daginn. ,,Já, með smá blóð á höndunum eftir að hafa fellt kúna. Þá var að fara og afgreiða leyfi til veiðimanns sem var að fara á veiðar á morgun.“

Jói og Jón Hávarður

Jóhann ásamt leiðsögumanni sínum sem er formaður Félags leiðsögumanna: Jón Hávarður. Sá háttur er hafður á, á svæði 1, að dýrin eru sótt á torsóttar slóðir á sexhjólum. Á sumum svæðum er það bannað en samkvæmt leiðsögumönnum sem Gripdeild hefur rætt við fer það ekki betur með landið, nema síður sé.

Jóhann hafði samband við leiðsögumanninn Jón Hávarð Jónsson um kl. 14:00, en hinn knái Jón Hávarður er formaður Félags leiðsögumanna með hreindýraveiðum. Í því félagi eru miklir kappar. „Ég hringdi líka í Skúla bróður þar sem við höfðum ákveðið að fara saman. Þegar við komum upp slóðina sem liggur frá Hvanná yfir Smjörvatnsheiðina þá var nýlega búið að fella kú úr um 300 dýra hjörð nærri slóðinni. Við komumst fljótt í dýrin og felldum kýrnar okkar sem vigtuðu 45 og 41 kg. Jón gat svo vísað einum leiðsögumanni og veiðimanni hans á hjörðina áður en við fórum niður af heiðinni sem náði að fella.“

Eins og sjá má á myndunum var liðið á daginn þegar dýrin voru felld og sól að hníga til viðar.

Jói á skrifstofunni

Jóhann fór beint á skrifstofuna aftur, eftir að hafa brugðið sér upp á heiðina ofan Jökuldals, til að fella sína hreinkú.

Stefnir í mikla örtröð á veiðislóð
Þegar Gripdeild ræddi við Jóhann á sunnudag, eða 28. ágúst, er staðan sú að búið er að fella um 550 hreindýr. Jóhann hefur nokkrar áhyggjur af stöðu mála.

„Það verður að teljast lítið miðað við það að kvótinn er stór en alls á að fella 1300 dýr og þar af 1165 nú á hefðbundnum veiðitíma sem líkur þann þann 20. september. Og reyndar lýkur tarfaveiðum 15 september. Eins og áður hefur verið sagt þá þarf allt að ganga upp ef menn eiga að ná sínum dýrum. Veðrið hefur verið óhagstætt núna seinustu daga eftir langan góðan kafla þar á undan. Menn virðast kjósa það að fara seint til veiða og þess vegna verður oft mikil örtröð á veiðislóð seinustu vikurnar. Oft er þokusælla í september og úrkoma meiri. Dýrin eru væn og búið er að fella töluvert af hornprúðum törfum.“

Comments

comments

Tags: , , , , ,


About the Author

Sendu okkur myndir! Ritstjórn Gripdeildar, sem samanstendur af þeim Jakobi og Mikael, óskar eftir því að fá sendar myndir, myndbönd og fréttir á netfangið ritstjorn@gripdeild.is.Back to Top ↑