Skotveiði SONY DSC

Published on August 30th, 2016 | by Ritstjórn

0

Örmögnun á hreindýraslóð

— eftir Jakob Bjarnar

 

„23. ágúst 2016

Jakob Karls með tvo að veiða tarfa á sv. 1, fellt efst í Laxárdal …“ má lesa á vef Umhverfisstofnunar – Veiðiupplýsingar. Það er saga á bak við þessi látlausu orð.

Ritstjórar Gripdeildar, Mikael Torfason og Jakob Bjarnar, eru komnir á malbikið eftir fimm daga veiðiferð austur á land. Lurkum lamdir. Sérstaklega annar. Ég.

Svo skemmtilega vildi til að báðir fengum við tarf í hreindýralottóinu síðasta. Á svæði 1 sem er eitt hið eftirsóttasta. Þetta var gegn öllum líkum. 65 tarfar voru til úthlutunar og 3 – 4 um hvern og einn. En, Mikael er ekki kallaður Hábeinn frændi í góðra vina hópi fyrir ekki neitt – hann er heppinn. Ég hristi hausinn þegar nafn Mikaels kom upp númer 17 í hreindýradrættinum sem þúsundir veiðimanna fylgdust spenntir með. Og vissi ekki alveg hvað mér átti að finnast. Jú, við vorum að fara austur, sem var gott. Nema, Mikki fékk dýr fyrir tveimur árum og… en, heldur lifnaði yfir mér þegar ég sjálfur datt inn með seinni skipunum, númer 56.

Nú eru þessir tarfar komnir í kjötvinnslu austur á Héraði í Skógahlíð, annar merktur Jakobi og hinn Mikael. Þeir féllu fyrir riffilkúlum Gripdeildarmanna en létu hafa fyrir sér. Jadúddemía.

Umkvartanir sem vind um eyru þjóta
Sá sem þetta skrifar hefur aldrei lent í öðrum eins eltingarleik við hreindýr og nú. Við vorum í traustum höndum fjallagarpsins Jakobs Karlssonar frænda míns, sem jafnan er kallaður Kobbi á Grund, og hann hreinlega pískaði veiðimönnunum að sunnan út. Við fengum að ganga fleiri kílómetra, fleiri en tölu verður á komið og skríða yfir mela og móa – egghvasst grjótið. Og það þó frændi hans væri búinn að segja honum að bakið væri í hönk og þar með formið.

SONY DSC

Fjallagarpurinn frændi minn. Kobbi á Grund. Hann lætur sér fátt fyrir brjósti brenna, þóttist hlusta á sjúkrasögu frænda síns um brotið bak en það var steingleymt þegar á hreindýraslóð var komið. Steingleymt. (Mynd: JBG)

Heljarmennið Kobbi þóttist hlusta á þessar umkvartanir, mér fannst reyndar hljóðið í honum þá vera einkennilega skilningsríkt enda kom á daginn að sjúkrasagan var honum gersamlega steingleymd þegar sást til hjarðarinnar. Mikael kunni ólíkt betur að meta þá mannraun sem lögð var á mannskapinn, enda rúmum tíu árum yngri og í ágætu formi.

Eineltishrottinn skotinn
Síðast þegar ég fór á hreindýr, fyrir þremur árum, þá fóru tveir dagar í leit. En á þriðja degi dró til tíðinda. Ég bý vel og á ættir að rekja austur. Var í sveit á Jökuldal og fékk að fara sem strákur með á hreindýr. En, fyrir þremur árum; Kobbi fann tæplega 20 dýra tarfahjörð í Smjörfjöllunum. Við löbbuðum í um hálftíma áður en við komum að dýrunum, komumst í ákjósanlegt færi eða í um hundrað metra fjarlægð. Gátum komið okkur fyrir bak við stein, stillt rifflunum þar uppá og virtum fyrir okkur hjörðina sem pollróleg, drykklanga stund. Ég valdi þann sem var með mestan fyrirganginn, vildi stanga félaga sína og var með dólg. Ég skaut sem sagt eineltispúkann í hópnum – svona er maður að verða mjúkur í þessu Íslandi dagsins í dag. Þetta var átakalaus veiði og ég var því ekkert sérstaklega stressaður fyrir ferðina nú. Þetta yrði örugglega með svipuðu móti. Ég hafði rangt fyrir mér í því, eins og svo mörgu öðru. Mjög rangt.

Beint úr norska þjóðleikhúsinu á hreindýr
Kobbi á Econoline, sem hann hefur smíðað að verulegu leyti sjálfur. Vel hækkaðan og á stórum dekkjum. Sannkallaður fjallatrukkur sem fer yfir hvað sem er ef því er að skipta. Við vorum með kerru og þar á var sexhjól sem var notað óspart í ferðinni. Og, að skælast á því sem farþegi yfir stórgrýti og rofabörð, ár og læki, er ekki fyrir neina ellismelli – get ég sagt ykkur. En, ykkar maður stóð það af sér. Með herkjum.

SONY DSC

Kíkirinn var á lofti samfellt í tvo daga. Einn kosturinn við hreindýraveiðar er að þá kemur maður á staði sem maður annars hefði sennilega aldrei skoðað og hálendi Austurlands er sannarlega stórkostlegt — ósnortið. (Mynd: Mikki)

Undanfarnar vikur hefur Mikael verið að störfum úti í Noregi þar sem hann er að skrifa handrit að uppsetningu Þorleifs Arnar Arnarssonar á mikilli Ibsen-sýningu, sem haldin verður í Þjóðleikhúsi þeirra Norðmanna úti í Osló. Hann flaug heim til Íslands, sérstaklega til að skjóta hreindýr og strax næsta dag var ekið austur.

Lagt á heiðina
Við leigðum Toyota Hilux árgerð 2007 á Hvolsvelli, fyrir milligöngu tengdaföður Mikaels og vorum svo spenntir að eftir að hafa hlaðið bílinn ríkulegum veiðibúnaðinum; byssum, skotfærum, fluguveiðistöngum, felubyrgi, gervigæsum … nefndu það, ókum við af stað án þess að hafa svo mikið sem vatnsbrúsa með, í einum rykk til Egilsstaða á sex tímum – og fengum okkur kærkomna kjúklingabita í Söluskálanum þar. Banhungraðir.

Við fórum í Bónus, byrgðum okkur upp af matvælum og ókum sem leið lá upp í Jökuldalsheiði þar sem ég á lítinn veiðikofa við vatnið Gripdeild ásamt frændum mínum og bræðrum. Við náðum í kvöldflug heiðargæsarinnar við vatnið hvar kofinn stendur, felldum nokkrar og heyrðum svo í Kobba. Ákveðið var að við myndum hittast við afleggjarann að Sænautaseli árla dags, eða klukkan sex.

Refurinn með arnaraugun
Þar urðu fagnaðarfundir í aftureldingu næsta dags. Við færðum okkur yfir í fjallabíl Kobba og hófum leit að hreindýrum. Kobbi hafði haft spurnir af stórri hjörð, á Sandfellssvæði svokölluðu, en svo var bara eins og jörðin hefði gleypt hana. Hundruð dýra. Kobbi var í sambandi við aðra leiðsögumenn, svo sem Sigga á Vaðbrekku, Alla Hákonar, kappann Ívar og Andrés Eskfirðing en allt kom fyrir ekki.

SONY DSC

Þó veiðimenn væru lúnir að kvöldi dags gleymdist menningin ekki. Í frumstæðu veiðihúsinu á Jökuldalsheiði var ekki verið að ræða kaliber og gerð riffilkúla í þaula. Hér les Mikael úr Minnispunktum úr undirdjúpunum fyrir veiðifélaga sinn. Uppáhalds bók sinni eftir uppáhalds höfundinn: Dostojevski. (Mynd: JBG)

Allan þann dag leituðum við, alla leið til Vopnafjarðar. Þokan var að stríða okkur en við fórum upp á alla hæstu punkta, útsýnisstaði, en hvergi sáust hreindýr. Ég hafði keypt mér kíki til fararinnar en Mikki, í hroka sínum, taldi sig ekki þurfa á slíku verkfæri að halda. Mikki er vitaskuld kallaður Refurinn í veiðifélagsskap okkar, en hann heldur því fram að hann sé aukinheldur með arnaraugu. Kynjaskepna: Refurinn með arnaraugun. En, allt kom fyrir ekki. Jafnvel þó Refurinn með arnaraugun væri farinn að laumast í kíkinn.

Tvær gæsir í einu skoti
Okkur bárust misvísandi skilaboð. Dýr höfðu fundist austar en talið var að í þeirri hjörð væru engir tarfar. Innst í Sunnudal. Veiðimenn eltust lengi vel við þá hjörð, svo lengi að við urðum að játa okkur sigraða og Kobbi kom með okkur í veiðihúsið og gisti þar.

Þetta kvöld gengum við allir til gæsa. Við fengum ekki mörg flug, Kobbi fékk lánaða tvíhleypu sem ég var með til vara. Hann skaut aðeins einu skoti þetta kvöld, í ljósaskiptum en í því féllu tvær gæsir. Slíkur garpur er Kobbi.

Enn er leitað og leitað og leitað
Við lögðum af stað strax við dagrenningu næsta dag. Komin var sæmileg hugmynd um hvar hjörðina væri að finna. En, engu að síður gekk illa að finna hana. Það var greinilega mikil yfirferð á dýrunum. Við byrjuðum á svipuðum slóðum og deginum áður. Ókum um, mændum í hvert gil og enn að Vopnafirði. En, dýrin höfðu ekki haldið í þá átt.

SONY DSC

Fáeinar heiðargæsir féllu í ferðinni og hér býr Mikael sig undir að liggja fyrir þeim. (Mynd: JBG)

Minnugur dýrðarveiðinnar í Smjörfjöllum hélt ég því kokhraustur fram að ég hefði það á tilfinningunni að þar væri dýrin að finna. Hjörðin sem menn voru að eltast við í gær, hún væri kannski komin þangað? Kobbi taldi það af og frá en taldi frænda sinn ekki algalinn því það hafði frést af 12 tudda hjörð þar fyrr um sumarið. Hún hafði reyndar gufað upp en hlaut að vera á þessum slóðum.

Við ókum því þangað, í Þrætutungurnar og Smjörfjöllin. Við fórum þar um en hvergi sást þessi tarfahjörð. Við fréttum svo síðar af því að ég var ekki alveg úti á túni með þessar hugmyndir, sem byggðu auðvitað á óskhyggju, en dýrin höfðu farið yfir fjöllin og voru komin hinum megin fjallgarðsins, Jökulsárhlíðarmegin.

Játuðum okkur sigraða
Nú bárust þau tíðindi að Ívar, sem hafði verið austar en við í leitinni, væri kominn í tæri við dýr. Hann var staddur í heiðinni sem liggur ofan Hvannár, sem er bær sem stendur framarlega í Jökuldalnum. Við þangað þó vel væri liðið á daginn.

Við komum á vettvang, sáum hjörðina í órafjarlægð, hnikuðum okkur nær eins og við þorðum. Aðrir veiðimenn voru á undan okkur í röðinni, höfðu komið að henni fyrr og áttu því réttinn. Þeir ætluðu sér að sækja dýr í hjörðina. Um leið og þeir náðu að fella dýr lögðum við af stað.

En, það var hægara sagt en gert að komast að hjörðinni, sem var risastór. Veruleg ferð var á henni og við gengum fyrir ása og reyndum að komast í ákjósanlegt skotfæri, en það hafðist ekki. Eftir þriggja tíma eltingarleik við hjörðina urðum við að játa okkur sigraða. Þá var komin þoka í heiðina og myrkur að auki. Þetta var tapað spil.

Þvælst um í þoku og myrkri
Við skældumst, hoppuðum og skoppuðum í niðadimmri þokunni. Sem betur fer hafði Kobbi tekið GPS-punkta á slóðina sem hann hafði áður farið með okkur. Annars hefðum við líkast til orðið úti. Ég var orðinn algerlega rammvilltur og vissi ekki hvað snéri upp og hvað niður.

SONY DSC

Félagarnir Kobbi og Mikki við myndarlegan tarfinn sem Mikki felldi, eftir mikinn eltingarleik. Hann reyndist vera 102 kg. (Mynd: JBG)

Við vorum við orðnir býsna lerkaðir eftir langa göngu og langa ferð við slíkar aðstæður. Ákveðið var að aka til Egilsstaða, þar sem leið lá niður torfæran slóð til Hvannár. Við vorum orðnir tæpir á vistum. Ruth, kona Kobba tók á móti okkur með rjúkandi kjötsúpu, vá hvað hún var vel þegin og svo lögðum við upp á nýjan leik og búið að uppfæra nestispakkann. Við ákváðum að til að verða nú örugglega fyrstir til að finna hjörðina aftur væri best að sofa uppi á heiði, í fjallabíl Kobba.

Vandinn við svæði 1
Við vorum komnir aftur upp í heiðina um klukkan eitt að nóttu og slokknaði á okkur örþreyttum umsvifalaust eftir að við höfðum búið um okkur. Það hafði verið þoka á leiðinni en þegar upp var komið var skyggnið eftir ljóskeilu bílsins ágætt. Og svo var einnig þegar við vöknuðum þremur tímum seinna. Í dagrenningu. Við hófum umsvifalaust leit og fundum dýrin – þvílík hjörð. Risahjörð. Þrjú hundruð dýr í það minnsta. En, það voru hreint ekki góðar fréttir.

Tæpt er að það náist að veiða uppí kvótann þetta árið sem og í fyrra. Vandinn við veiðar á svæði 1 er sá að fyrri tíma veiðitímabilsins halda dýrin sig miklu utar. Við Bakkafjörð og þar um slóðir en þar er land gríðarlega erfitt yfirferðar. Um miðbik veiðitímabilsins færa þau sig innar, en þá eru þau búin að þjappa sér vel saman í stórar hjarðir. Og það er miklu erfiðara að sækja dýr í stóra hjörð en litla.

Risastór og samstæð hjörð
Þessa hjörð leiddi ein forystubelja, Kobbi hélt því reyndar fram að þær væru tvær forystukýrnar og batt vonir við að hjörðin myndi fara í sitthvora áttina. En dýrin voru þétt saman og héldu hópinn. Þau voru á ferð út eftir heiðinni og hófst nú margra klukkustunda ganga, dýrin voru á melum og ásum og var mjög erfitt að komast að þeim óséðir. Nauðsynlegt er að nálgast dýrin áveðurs og við fundum lyktina af þeim nokkrum sinnum. Sá maður sem getur lýst lykt á prenti er góður, ég ætla ekki að reyna það en þetta er mjög sérstök lykt. Vindinn stóð af hjörðinni. En, við urðum að fara fyrir hvern melinn, hvern ásinn á fætur öðrum, þar til mörgum klukkustundum síðar komumst við í færi. Eftir að hafa skriðið mörg hundruð metra yfir egghvasst grjótið.

SONY DSC

Mikki tekur sig vel út við sinn myndarlega tarf — opinbera trófímyndin. (Mynd: JBG)

Við höfðum ákveðið að reyna samskot væri slíkt í boði, en það lá fljótt fyrir að ekkert slíkt var inni í myndinni. Það gengur ekki að skjóta inn í hjörð, því þá er mikil hætta á að annað dýr særist. Þá var ákveðið, sökum þess að ég var orðinn fremur þrekaður að ég tæki fyrsta skotið og svo færu þeir Kobbi og Mikki eftir hjörðinni. Svo þétt stóðu dýrin og lengi lágum við til að reyna að ná færi á einu dýri. Kóflöðursveittur var ég orðinn eftir alla gönguna en það var haust í köldum fjallavindinum og ég var orðinn eins og frostpinni. Loks tók einn tarfur sig út úr, ekki eins stór og vonir stóðu til, þeir stærstu voru búnir að losa sig við húðina sem umlykur hornin frameftir sumri. Þeir eru fyrri til þess og eru þá horn þeirra rauðleit. En, þennan tókst að fella. Jólasteikinni var bjargað. Ég var fullkomlega búinn á því. Örmagna á hreindýraslóð.

„Heiðurs-Jökuldælingur og kappi“
Kobbi og Mikki fóru á eftir hjörðinni sem fældist við skotið. Ég er ekki til frásagnar um það en Mikki náði að fella risastóran tarf með meistaralegu skoti, en dýrin voru þá á ferð. Mikki stóð sig reyndar gríðarlega vel, eða svo sagði Kobbi sem er alla jafna spar á hrósið. Mikki tók því fagnandi til sín og í hans útgáfu heitir það svo að hann sé orðinn „Heiðurs-Jökuldælingur og kappi“. Þetta reyndist veiðiferð lífs hans og meira að segja hælsærið sem hann var kominn með, var gleymt og grafið á þessari stundu. Seinna lýsir Mikki stóru stundinni svona:

„Ég náði að hlaupa almennilega fram fyrir hjörðina eftir að þú lagðist alveg niður, Jakob minn. Það verður bara að segjast eins og er. Enda fékk ég engar harðsperrur daginn eftir (eins og sumir) en ég var með hælsæri. Það er það eina. Það var ótrúleg tilfinning að ná í sigtið tarfi sem var búinn að fella af hornunum. Hann var með rauð horn. Kobbi frændi þinn hafði sagt mér að það væru stærstu tarfarnir. Ég var því alveg ótrúlega feginn þegar ég fékk einn slíkan í færi. Sem var ekki sjálfgefið því dýrin voru á hlaupum.“

Og, þannig var það.

Ég tilkynnti félögum mínum, þegar þeir komu til baka, að ég færi ekki aftur á hreindýr. Ekki í formi sem þessu. Á þeirri stundu var ég reyndar á því að ég myndi aldrei láta á þetta reyna aftur. En, Kobbi sagði réttilega að eftir á væri þetta skemmtilegasta veiðin, þar sem þyrfti að hafa fyrir dýrunum. Og, þó ég sé ekki alveg kominn þangað núna, þá er þessi skýrsla er rituð, sé ég vel fyrir mér að þangað sé hugurinn að hvarfla. Og líkast til fylgist maður spenntur með næsta hreindýraútdrætti og vonast til að nafnið Jakob Bjarnar komi upp innan girðingar.

SONY DSC

Greinarhöfundur svo búinn á því að það var varla að hann næði að stilla sér upp, eins og lögskipað er eftir að dýr hefur verið fellt. Lesendur taka eftir því að veiðimenn eru ekki gleiðbrosandi yfir hinum föllnu dýrum; þeir bera tilhlýðilega virðingu fyrir bráð sinni. Og þessi bráð lét hafa fyrir sér. (Mynd: Mikki)

Comments

comments

Tags: , , , , , , , , , , , ,


About the Author

Sendu okkur myndir! Ritstjórn Gripdeildar, sem samanstendur af þeim Jakobi og Mikael, óskar eftir því að fá sendar myndir, myndbönd og fréttir á netfangið ritstjorn@gripdeild.is.Back to Top ↑