Veiðisjúrnall Atla Bergmann atli-med-20-p

Published on September 7th, 2016 | by Atli Bergmann

0

20 pundari og Maríulax bassaleikara

Þetta er þriðja árið í röð sem ég hef verið með í holli í Mýrarkvísl 29. til 31. ágúst og alltaf er gaman og mikið líf. En, nú toppaði veiðigyðjan sig, lukkan og allar heillastjörnur.

Með mér á stöng kom gamall og góður vinur hann Bjarni Bragi Kjartansson hvurs frægðarsól reis hæðst þegar hann var bassaleikari Sniglabandsins. Hann hafði aldrei veitt í rennandi vatni og aldrei reynt við, hvað þá sett í lax þó að hann væri sæmilega vanur í vatnaveiði. Og það sem skiftir miklu máli að mínu mati: „Fly only“ gaur.

Maríulax bassaleikarans
Fyrir þá sem ekki vita hefur Matthías Þór Hákonarson gert kraftaverk í uppbyggingu árinnar með innleiðingu veiða/sleppa fyrirkomulagi á laxinum. Það hefur þegar borið mikinn árangur í þessari perlu Norðurlands sem liðast um heiðina í mjúkum bugðum og síðan um ægifögur gljúfur og þá aftur mjúklega í gegnum engi þar til hún sameinast Laxá í Aðaldal.

Mér hugnast best fjölbreytileikinn sem fellst í því að þarna er öflugur stórlaxastofn, þá er mikið af stórum urriða í ánni og efst er bleikja, ef menn vilja. Það kom kannski kom sjálfum mér mest á óvart í þessari ferð var hversu rólegur ég sjálfur var og þolinmóður gagnvart félaga mínum og hversu ánægjulegt það er að gæda mann í sinnum fyrsta laxveiðitúr, sem gekk svo fullkomlega upp. Fyrst setti hann í lax en sem vanur silungs veiðimaður brá hann fljótt við og kippir úr honum áður en laxinn náði að snúa sér. Næst setti hann í góðan lax og er búinn að vera með hann á í góðan tíma þegar hann óvart gefur slaka á línuna og laxinn lekur af. Og svo, í þriðja sinn, gerir Bjarni Bragi allt rétt og nær þessum fína 70 sentímetra hængi. Maríulaxinn. Gleðin var mikil hjá okkur öllum þrem, ég með félagann og hann með laxinn og laxinn sjálfur með frelsið þegar honum var rennt aftur í hylinn.

bjarni-bragi-med-mariulax

Í þriðju tilraun gerði Bjarni Bragi allt rétt og hér má sjá hann ánægðan með glæsilegan maríulax sinn.

Dansað við 20 pundara með sexu
Sjálfur var ég sáttur með 5 laxa og einn 4 p urriða, en það besta var stóra 97 sentímetra hrygnan sem ég tók á netta T&T stöngina mína fyrir línu #6. Hún tók míni Þýska Snældu-túbu og þvílík átök. Og, Guð minn góður hvað ég var stressaður þegar hún stökk skömmu eftir að ég setti í hana neðst í strengnum á veiðstað #49 Straumbrotinu. Það varð mér til gæfu að hún stökk strax því þá gerði ég mér þegar grein fyrir við var að eiga. Hófst þá baráttan, eða eigum við heldur að segja dansinn, því að ef þú ert með 20 pundara öðrum megin og á hinum endanum er stöng fyrir línu 6. Þá þarf allt að ganga upp bæði leikni og tækni og slatta af heppni. Ég gat haldið henni uppí straumnum í góðan tíma og endaði svo að ná henni í dautt vatn með miklum gróðri þar sem Bjarni Bragi kom og náði háfnum undir hana.

Himnarnir opnuðust og allt varð svo fallegt eitthvað þar sem við sátum saman og köstuðum mæðinni, ég og þessi líka svakalega feita fallega hrognfyllta hrygna. Sjálfur var ég með harðsperrur í upphandlegg í nokkra daga á eftir og það má segja að það hafi verið nánast masókískur ánægjusársauki við það, enda minningin sterk.

Ég er búin að handsala það að verða á sama tíma í Mýrarkvíslinni að ári og hlakka mikið til.

Comments

comments

Tags: , , ,


About the AuthorBack to Top ↑