Skotveiði SONY DSC

Published on September 11th, 2016 | by Ritstjórn

0

Svartfugl er herramannsmatur

Kristján Magnason framkvæmdastjóri, ágætur vinur Gripdeildar, býr svo vel að eiga bátinn Móra sem liggur við festar í Suðurbugt í Reykjavíkurhöfn. Og Kristján var svo elskulegur að bjóða ritstjórum vefsins á svartfugl.

Því var tekið fagnandi, svartfuglsveiðar eru ákaflega skemmtilegar og svartfugl er herramannsmatur. Fordómar gagnvart svartfuglskjöti eru býsna almennir og koma líkast til ekki af góðu. Menn halda því fram að það sé lýsisbragð af fuglinum, en það er þá bara vegna þess að líkast til hefur viðkomandi verið píndur til að leggja sér til munns einhvern netafugl sem legið hefur mislengi í hamnum. Lykilatriði er að gera að fuglinum fljótlega eftir að hann hefur verið veiddur, og sé það gert er vart hægt að hugsa sér betra hráefni til matargerðar.

jakob-med-byssu

Jakob mundar haglabyssuna í hinum stórskemmtilega Móra.

Spáin var góð og við sigldum klukkan níu út frá Reykjavíkurhöfn. Kristján sagði okkur að hann hafi með hægum leik fengið um 15 fugla, allt langvíu, þegar hann fór fyrir viku. Og við stímdum á sömu mið. Reyndar var ekkert alltof gott í sjóinn, mikið öldurót og erfitt að sjá fugl. Og hann var mjög dreifður. Ritstjórarnir sýndu rómaða leikni sína með haglabyssurnar og var um hundrað prósent árangur að ræða; við náðum því sem við sáum. Eða svo gott sem.

Og þó hafrót væri brunuðu hvalaskoðunarbátar, troðfullir af ferðamönnum, stanslaust í og úr höfn. Blússandi gangur virðist í þeirri atvinnustarfsemi. En, engan sáum við hvalinn.

Við náðum tveimur skörfum á heimstíminu en annars var þetta stuttnefja og langvía sem féll — um tugur fugla. Þetta var sannarlega góður dagur á hafi úti.

Comments

comments


About the Author

Sendu okkur myndir! Ritstjórn Gripdeildar, sem samanstendur af þeim Jakobi og Mikael, óskar eftir því að fá sendar myndir, myndbönd og fréttir á netfangið ritstjorn@gripdeild.is.Back to Top ↑