FLUGUFÓTUR Laxinn nýkominn á land

Published on September 14th, 2016 | by Sigurgeir Sigurpálsson

0

Einn dagur í Eystri

Laugardagskvöldið 10. september sat ég í rólegheitunum að horfa á sjónvarpið. Ég sá Facebookskilaboð koma upp á skjánum á símanum mínum. Ég tékkaði á þeim og þar var Jói félagi minn að athuga með mig. Ég hélt að hann væri kannski að spá í hvort ég vildi kíkja á djammið eða í bíó en klukkan var orðin helst til margt a.m.k. fyrir fjölskyldufeður eins og okkur. En hann spurði mig hvort ég kæmist með honum í Eystri Rangá daginn eftir. Ég rauk til og spurði foreldra mína hvort þau gætu séð um börnin mín meðan ég færi í laxveiði og mútaði þeim með loforði um reyktan lax um jólin og svoleiðis. Það gekk upp blessunarlega og ég staðfesti við Jóa að ég kæmist með honum. Ég dreif mig í búð og keypti nesti og þegar ég kom úr búðinni tók ég til veiðidótið. Flýtirinn á mér var svo mikill að ég var eiginlega með hnút í maganum yfir því að ég myndi örugglega gleyma einhverju. En ég fór yfir þetta 20 sinnum og var alveg viss um að allt væri klárt. Planið var að ég myndi sækja Jóa klukkan sjö morguninn eftir. Ég fór því snemma að sofa.

Áin eins tær og hún getur orðið

Það var skýjað en sæmilega hlýtt á sunnudagsmorguninn þegar ég sótti Jóa. Jói var tilbúinn og við brunuðum af stað. Þegar við keyrðum yfir Eystri Rangá sáum við að hún var frekar tær og þá sérstaklega miðað við rigningarnar dagana á undan. Við fórum að Dýjanesstreng og skoðuðum ánna. Áin var tær en samt þannig að erfitt var að sjá hvort það væru fiskar þarna. Rangárnar verða bara aldrei þannig að maður sjái alveg niður í botn. Svo voru laxarnir ekkert að stökkva og ekkert að bylta sér þannig að við vorum svolítið í því að giska hvar fiskurinn væri. Við byrjuðum að veiða frá sleppitjörninni og alveg niður að girðingu. Skiptum um flugur og breyttum inndrættinum en ekkert gekk.

Laxinn er þarna

Loksins fórum við að sjá hann stökkva og enga smá bolta. Það er rosalegt magn af stórfiski í ánni og adrenalínið fór á fullt. Þá rak ég augun í nokkra fiska í hvítfyssinu rétt fyrir neðan sleppikistuna sem er þarna. Ég reyndi að kasta á þá á alla vegu en ekkert gekk. Ég sá þarna einn sem var örugglega 15 pund ef ekki stærri og ég bauð honum allt. Ég bauð honum ýmsar flugur og bar þær að honum á ýmsa vegu. Svo kom að því að ég prófaði mjög lítinn rauðan Frances með gullþríkrækju. Ég renndi flugunni í fyssið og straumurinn tók fluguna eitthvað niður í dýpið þannig að ég sá hana ekki lengur en ég sá að loksins færði laxinn sig og í humátt á eftir flugunni. Allt í einu fann ég kipp og að fiskur var á. Svo sá ég lax sem var bara 3 pund. Hann var á hjá mér. Tilfinningarússíbaninn var á fullu. Ég hugsaði fyrst að ég hefði sett í 15 pundarann og var yfir mig glaður, svo sá ég að þetta var 3 pundarinn og ég varð ofsalega svekktur en svo varð ég aftur hrikalega glaður að vera með lax á. Þessar tilfinngar ruku í gegnum mig á nokkrum sekúndum.

Minni laxinn

Laxinum landað og útlitið bjart

Ég elti laxinn sem fór upp ánna og í djúpan hyl rétt fyrir ofan sleppikistuna. Þar tókst mér að þreyta hann við þægilegar aðstæður. Hann barðist hressilega um en að lokum gaf hann sig og ég strandaði honum í þægilegri sandströnd þarna við bakkann. Við höfðum verið í 4 tíma við veiðar og loksins landað fiski. Jói hafði fengið þungt högg hálftíma áður en annars var ekkert búið að gerast. Nú var von að það myndi rætast úr þessu. Við vissum núna hvar a.m.k. nokkrir laxar héldu sig. Við köstuðum aðeins lengur á þá en svo var kominn tími á hádegismat. Eftir hádegismatinn ákváðum við að skoða fleiri staði og athuga hvort við sæjum einhverja laxa.

Alveg grænir

Við keyrðum á nokkra veiðistaði sem margir hverjir voru fallegir og veiðilegir en hvergi sáum við fisk. Hvergi var hann að stökkva og við gátum engan veginn séð þá í ánni. Vonir okkar um að geta séð laxa í óvenjutærri ánni voru brostnar. Hún var samt nógu gruggug til að ómögulegt væri að sjá niður á botn þar sem laxarnir héldu sig þennan daginn. Við köstuðum á alla veiðilega staði, reyndum margar flugur og alls kyns inndrætti en ekkert gerðist. Eftir nokkra tíma ákváðum við að fara aftur í Dýjanesstreng og reyna við laxana sem við vissum um. Þegar við komum þangað var áin búin að hreinsa sig nógu mikið til að við sæjum niður á botn á hylnum þar sem ég þreytti fiskinn minn. Þvílík dýrðarsjón var þar. 10-15 stórlaxar og slatti af minni voru þarna á ferli. Við sáum ekki nógu greinilega til að geta talið þá nákvæmlega en nógu vel til að sjá að þeir voru í það minnsta þetta margir. Þarna lá hann í frekar lygnu vatni og hvíldi sig. Hann var ekkert að líta við flugunum okkar og við reyndum gjörsamlega allt. Að lokum setti ég Iðu á og fór aftur í hvítfyssið þar sem ég setti í minn fisk og slakaði flugunni í það. Svo strippaði ég hratt inn. Ég gerði þetta nokkrum sinnum og þá var flugan negld. Stórlax var á og hann barðist af öllum kröftum. Ég sá strax að hann var talsvert leginn en hann var samt mjög kröftugur. Hann gerði það sama og sá fyrri og rauk upp í hylinn þar sem hinir biðu og einhver barningur varð þar og tvístruðust laxarnir í burtu nema sá sem ég barðist við. Hann synti fram og til baka þarna í hylnum og bylti sér og gerði allt til að losa sig nema að stökkva. Ég var heillengi að landa honum en það tókst að lokum og það með dyggri aðstoð Jóa sem háfaði hann upp þegar laxinn gaf færi á sér við sandströndina. Hann átti eitthvað eftir en hann bauð svo rækilega upp á að vera háfaður að Jói greip tækifærið.

Stóri laxinn

Stærsti lax ævi minnar

Þessi lax reyndist vera 89cm og 7.4 kíló. Það er langstærsti lax sem ég hef veitt á ævi minni og ég var alveg í skýjunum. Ég hef ekki gríðarlega reynslu af laxveiðum en þó landað slatta af þeim en nánast alltaf hefur það verið 1 árs lax eða “litlir” 2 ára laxar. Þetta var bara allt annar handleggur enda var ég búinn í handleggjunum. Það stoppaði mig ekkert í því að fara aftur að veiða þegar ég var búinn að taka myndir af mér með laxinum og láta aðra mynda mig með laxinn.

Laxinn nýkominn á land
Ég gerði nákvæmlega það sama og eftir smá stund var annar lax á. Hann var álíka stór en með miklu meiri læti. Hann var gjörsamlega brjálaður. Hann bylti sér og ég sá að hann var ekki eins leginn og sá fyrri og það leið ekki á löngu áður en hægri höndin mín var farin að titra rækilega. Ég var meira að segja farinn að nöldra yfir því hvað þetta væri erfitt sem mér finnst eftir á að hyggja alveg fáránlegt af mér. En bardaginn stóð bara í nokkrar mínútur og þá kom flugan fljúgandi upp úr vatninu. Ég missti hann og hálfpartinn nagaði mig í handarbökin fyrir að vera svona vanþakklátur. Ég storkaði örlögunum og átti ekkert skilið að landa þessum fiski. Ég kíkti á tauminn til að sjá hvort hann væri eitthvað tæpur og hvort flugan væri í lagi og sá þá að risastór þríkrókur var fastur við krókinn minn aftan við túpuna. Kannski húkkaði ég í þríkrók sem var fastur í fisknum? Ég alla vega á bágt með að trúa að þessi þríkrókur hafi verið notaður í annað en að reyna að húkka fiska. Fannst ekki gaman að finna hann og vona að laxinn hafi verið ánægður með að hafa losnað við þetta úr sér. En áfram hélt ég svo að veiða og næsta klukkutímann fékk ég nokkur högg og nokkur svona “hann var næstum því á” eða “hann var á í 2-3 sekúndur”. Það var bara nóg að gera en ekki var hann að festa sig almennilega hjá mér. Ég var hins vegar að ná að pirra laxana hressilega. Ekkert gekk hjá Jóa þannig að ég lánaði honum hitt eintakið sem ég átti af Iðunni. Hann kastaði á fiskana og leit svo við og var að ræða við mig og aðra nærstadda þegar allt í einu small í stönginni hans. Risalax hafði tekið agnið og línan hans Jóa sem var með smá slaka flæktist utan um handfangið neðst á stönginni þannig að línan stoppaði alveg í stað þess að bremsan hleypti henni út. Laxinn hafði slitið 20 punda taum á sekúndubroti með ekki meira en 10 cm tilhlaup. Við sáum seinna um kvöldið einn bolta í fyssinu sem var 20-25 pund og okkur finnst líklegt að það hafi verið hann sem sleit.

Ein taka í viðbót

Ég reyndi aftur og eftir 10-20 mínútur setti ég í enn einn boltann. Hann var nautsterkur og sjónarmun stærri en sá sem ég hafði landað. Þessi var ekki eins fjörugur og sá sem ég hafði misst og meira leginn. Hann barðist samt um og togaði hressilega í en bylti sér ekki og sveiflaði sér eins og laxinn sem slapp. Það var hrikalega gaman að eiga við hann. Krafturinn í honum var mikill og ég fann þreytuna koma í handlegginn eftir nokkrar mínútur. En þá skaust flugan upp úr. Ég missti þennan líka. Eftir þetta fékk ég nokkur högg og eina örstutta töku en fiskurinn losaði sig eftir nokkrar sekúndur. Alveg í lokin fékk ég eina töku í viðbót. Sá fiskur var á í 3-4 mínútur og var svipaður þeim sem ég hafði sett í og misst. Ég barðist við hann í c.a. 7-8 mínútur áður en flugan losnaði úr honum. Bardaginn var hvergi nærri búinn og fiskurinn átti nóg eftir en var vel leginn og ekki með mikil læti, heldur þungur og togaði ákveðið. Það var því ekki í spilunum að landa fleiri fiskum í þessari ferð en ég var hrikalega sáttur við góðan dag. Þó maður landi ekki fiski þá er hrikalega gaman að vera í bullandi séns tímunum saman og ekki á hverjum degi sem maður landar stærsta laxi ævi sinnar.

Comments

comments


About the AuthorBack to Top ↑