FLUGUFÓTUR Fyrri laxinn í Ytri Rangá

Published on October 3rd, 2016 | by Sigurgeir Sigurpálsson

0

Laxaháf í jólagjöf takk!

Ég fór með nokkrum vinnufélögum mínum í Ytri Rangá um daginn. Ferðin byrjaði mjög vel og ég kominn með fisk í öðru kasti. Eitthvað furðulegt var við tökuna og hvernig fiskurinn hegðaði sér en mér tókst að landa honum og sá að hann var húkkaður í sporðinn. Það útskýrði margt. Við byrjuðum við Stallmýrarfljót og þar var fullt af fiski. Mikið líf og fiskur að stökkva. Við byrjuðum veiðarnar klukkan átta um morguninn og þó það væri dálítið kalt þá var fiskurinn greinilega í tökustuði. Félagi minn landaði öðrum stuttu seinna og við misstum nokkra í viðbót. Þetta leit bara gríðarlega vel út. En um 10 leytið þá hætti fiskurinn að stökkva og við urðum ekki mikið meira vör. Fiskarnir sem komu á land voru ekki stórir. Minn var 1.3 kíló og 53 cm en það voru stærri fiskar að stökkva þarna.

Fyrri laxinn í Ytri Rangá

Næsta vakt líka góð

Klukkan tvö voru vaktaskipti og við fórum á næsta svæði fyrir neðan. Þar sáum við aftur laxa stökkva og reyndum hvað við gátum við þá. Okkur tókst að ná örfáum á land en ég landaði einum í Hellisey sem tók rauða frances. Sá var litlu stærri en hinn eða 1.6 kíló og 55 cm.

Seinni laxinn í Ytri Rangá

Ég færði mig svo að Gaddastaðabreiðu. Þar setti ég í einn fisk sem virkaði stærri en hinir. Ég barðist við hann í nokkrar mínútur en því miður missti ég hann án þess að sjá hann. Ég hef því ekki góða hugmynd um stærðina á honum og auðvitað virkar hann stærri í minningunni. En félagi minn kom til mín og setti fljótlega í annan og landaði honum. Sá tók maðk og gjörsamlega kokgleypti hann. Við þurftum nánast að skera hann upp til að ná önglinum úr honum. Við sáum fiska stökkva og greinilegt að áin er stappfull af fiski. Hann var samt ekki duglegur að taka þennan tíma sem við vorum þarna. Ef þetta hefði verið nýgenginn fiskur er ég hræddur um að við hefðum verið í mokfiskeríi þarna. En ég reyndi aftur fyrir mér þarna og setti í einn vænann. Ég myndi giska á að hann hafi verið 7-8 pund en fæ það því miður aldrei staðfest. Ég barðist við hann í rúmar 10 mínútur. Hann var ekki á því að gefa sig og virtist alltaf eiga nóg eftir. En svo virtist hann vera að gefa sig. Ég stýrði honum að bakkanum þar sem ég bjóst við að félagi minn myndi sporðtaka fiskinn og fara með í land. En það var smá misskilningur hjá mér og honum sem fer í reynslubankann. Alltaf vera viss um hvað hinn ætlar að gera og við hverju hann býst af mér áður en nokkuð er gert. Hann ætlaði hins vegar að setja báðar hendur undir fiskinn og vippa upp á bakkann. Bakkinn var því miður hár og brött brekka niður hann þannig að fiskurinn endaði í miðri brekku og félagi minn reyndi að vippa honum hærra en fiskurinn rann niður í ánna og synti í burtu. Ég varð rosalega svekktur á þessu og sagði að ég ætlaði sko aldeilis að setja laxaháf á óskalistann yfir jólagjafir í ár. Þetta var ekki grátið lengi heldur bara farið beint í að veiða aftur. En því miður gerðist ekkert meira hjá mér þennan daginn.

Lengst upp í tré

Alveg í lokin á vaktinni fékk annar félagi okkar fisk og þurfti aðstoð við að landa honum. Félagi minn kom honum til bjargar og enn með fulla trú á vipptækninni. Í þetta skiptið skildi hún ekki mistakast. Eftir að laxinn var orðinn vel þreyttur þá kom félagi minn sér fyrir og fór með hendurnar undir fiskinn. Svo vippaði hann honum upp á bakkann vel og rækilega. Bakkinn var mun lægri og trjágróður aðeins inn á bakkanum. Laxinn var líka mun minni en sá sem ég missti en félagi minn notaði aflið sem hefði þurft á minn fisk í þeim aðstæðum sem sá fiskur var í. Það þýddi í þessu tilviki að laxinn flaug vel upp á land og upp í tré. Við hlógum að þessu og lærðum þá lexíu að það er aldrei hægt að koma laxi of langt upp á land.

Næsti dagur vonbrigði

Daginn eftir fórum við á næsta svæði og þar sá maður varla fisk. Einn til tveir stukku og einhverjir skuggar sáust hér og þar en þennan dag var svæði tvö nánast alveg dautt. Einum félaga mínum tókst að særa upp fisk á þessu svæði en annars var lítið hægt að gera en að njóta náttúrunnar og halda í vonina. Við vaktaskiptin fórum við á neðsta svæðið þar sem heitir Djúpós og þar höfðu margir fiskar komið upp undanfarna daga. Við vorum því öll bjartsýn á að nú kæmu laxar á land. Ekki gekk það eftir hjá mér. Ég setti í einn fisk sem losaði sig ansi fljótt. En þarna var allt morandi í fiskum. Þeir voru að stökkva í sífellu en ekki gekk okkur vel að særa þá upp. Það komu bara 2 fiskar á land hjá okkur í Djúpósnum og 2 fiskar á öðrum stöðum. Það var samt spenna allan tímann því alltaf sá maður hann stökkva út um allt en stundum þá bara vill hann ekki taka. Dagurinn varð því mikil vonbrigði fyrir mig en ferðin sem slík var frábær og alltaf gaman að koma heim með fiska. Það kom enginn risafiskur á land hjá okkur í þessari ferð og lítið markvert gerðist. Þó setti einn félagi minn í risastóran fisk á tvíhenduna sína sem kengbognaði svo svakalega að það fór ekki á milli mála að þarna væri hann með stórfisk. Þetta gerðist í Djúpsónum en því miður þá missti hann fiskinn eftir freka stutta viðureign.

Skilgreiningarvandamál

Eftir sit ég samt með skilgreiningarvandamál. Fiskurinn sem ég missti í löndun kom á land. Á ég að flokka hann sem veiddur/sleppt eða missti ég hann bara? Ég held að það verði áhugaverð umræða en staðreyndin er sú að ég ætlaði ekkert að sleppa honum og því missti ég hann en ég kom honum á land þannig að ég landaði honum líka.

Comments

comments

Tags: ,


About the AuthorBack to Top ↑