Matreiðsla ulfar-liggur-fyrir-ond

Published on October 16th, 2016 | by Ritstjórn

0

Léttsteiktar stokkandabringur að hætti Úlfars

Úlfar Finnbjörnsson er veiðimaður og matreiðslumeistari af guðs náð. Auðvitað einn af þekktustu matreiðslumeisturum landsins og þarfnast svo sem engrar kynningar. Fyrir nokkrum árum sendi hann frá sér Stóru bókina um villibráð, sem hefur verið ófáanleg um árabil en er nú komin út aftur stóraukin og endurbætt. Það er Salka sem gefur bókina út.

Þetta er mikið fagnaðarefni fyrir veiðimenn, áhugafólk um matreiðslu og fagurkera. Bókin er vitaskuld nokkuð sem hver veiðimaður ætti að eiga og hafa við höndina. Mottó Gripdeildar er að menn eti það sem þeir veiða og það rímar sannarlega vel við það hvernig Úlfar umgengst sína bráð; þar sem allt er lagt uppúr því að nýta bráðina sem best. Reyndar er syndasamlegt hversu mikið fer í súginn hjá mörgum veiðimanninum, á fuglaveiðum eru bringurnar oft rifnar út og hinu hent en þar fer góð veisla forgörðum.

Ljúflingurinn Úlfar er sérlegur vinur Gripdeildar en annar ritstjóranna, Jakob, gerðist til að mynda svo frægur að fara með honum á selveiðar vestur á Snæfellsnes. Eftir að hafa gert að selnum í fjöruborðinu eldaði Úlfar sannkallaða veislumáltíð þar sem selkjötið var í öndvegi. Þetta var gert fyrir sjónvarpsþætti Úlfars og Dúa Landmark Villt og grænt sem sýndir voru í Ríkissjónvarpinu á sínum tíma.

Gripdeild hefur fengið góðfúslegt leyfi frá höfundi og útgefanda til að birta fáeinar uppskriftir úr bókinni og munu þær detta inná vefinn í rólegheitum. En, myndir í bókina tók Karl Petersson. Nú er sá tími ársins að menn eru að skjóta gæs og önd og því upplagt að birta eina andauppskrift. Öndin er einstakt lostæti og Úlfar kann að matreiða hana.

andabringur

Léttsteiktar stokkandabringur með stjörnuanísbættri teriyaki-sósu

fyrir 4

 

8 stokkandabringur

salt og nýmalaður pipar

2 msk. olía

 

Kryddið stokkandabringur með salti og pipar og steikið upp úr olíu á vel heitri pönnu í u.þ.b. 1 ½ mín. á hvorri hlið. Færið bringurnar inn í 180°C heitan ofn í 3 mín. Takið bringurnar úr ofninum og látið standa í 3 mín. Setjið bringurnar aftur inn í ofninn í 3 mín. Vilji menn hafa bringurnar meira steiktar má setja þær aftur inn í ofninn í 3 mín.

Skerið bringurnar í fallegar sneiðar og berið fram með sósunni og t.d. kartöflumús og grænmeti.

 

Stjörnuanísbætt teriyaki-sósa:

4-6 anísstjörnur

½ dl sérrí

½ dl sojasósa

1/3 dl balsamedik

2 dl teriyakisósa

1 dl vatn

 

Setjið allt saman í pott og sjóðið í 4-6 mín. eða þar til sósan er farin að þykkna.

Comments

comments

Tags: , , , , ,


About the Author

Sendu okkur myndir! Ritstjórn Gripdeildar, sem samanstendur af þeim Jakobi og Mikael, óskar eftir því að fá sendar myndir, myndbönd og fréttir á netfangið ritstjorn@gripdeild.is.Back to Top ↑