Bækur braedur-sigmar-bok

Published on December 11th, 2016 | by Ritstjórn

Hvað vill þessi spjátrungur upp á dekk?

Sigmar B. Hauksson heitinn var alger frumkvöðull á Íslandi í flestu því sem gerir sportveiði að sportveiði. Langt á undan sinni samtíð. Þetta er lífsstíll sem snýst ekki um að vera í akkorði við að drepa dýr heldur það að njóta veiðanna og ekki síður það að nýta bráðina og gera úr veislu.

Dag einn, drungi snemma í desember, datt inn um lúgu ritstjórnarskrifstofa Gripdeildar pakki. Þetta var enginn gluggapóstur. Þegar að var gáð kom í ljós að þetta var sending frá góðkunningja Gripdeildar, Jóni Víði Haukssyni, veiði- og kvikmyndatökumanni.

Veisla í orðsins fyllstu
Uppúr pakkanum kom svo bókin Úr búri náttúrunnar – uppskriftir og annar fróðleikur. Jón Víðir ritstýrir einskonar minningarbók um bróður sinn Sigmar B. Hauksson sem féll frá 2012. Þegar betur er að gáð kemur á daginn að bókin er sannkölluð veisla í fyllstu merkingu.

Sigmar var lífsnautnamaður; veiðimaður og hafði alist upp við veiðar frá blautu barnsbeini en hann var einnig heimsborgari. Og á ferðum sínum utanlands lagði hann upp úr því að kynna sér matargerð eins og hún gerist best í ýmsum löndum. Hann var matgæðingur og samþætti það sínu helsta áhugamáli sem var alhliða veiðimennska, bæði stang- og skotveiðar. Þetta reyndi hann þá að kynna löndum sínum í fjölmiðlum, bæði á prenti sem og í sjónvarpi. Þar gat verið við ramman reip að draga og líkt og er um margan frumkvöðulinn mátti hann þola glósur. Ein þekktasta persóna Spaugstofunnar er til að mynda matreiðslumaður þáttarins; Humar B. Lauksson. Sigmar hafði húmor fyrir þessu öllu og lét heimóttarskap landa sinna ekki slá sig út af laginu.

Bókin hefur verið lengi í vinnslu
Og vinir hans og veiðifélagar nutu góðs af þekkingu Sigmars og hæfileikum í ótal veiðiferðum – þar sem lagt var uppúr því að gera vel við sig í mat og drykk. Svo það sé nú bara sagt hreint út: Bókin er alveg sérlega vel heppnuð og gæti þess vegna verið manifestó Gripdeildar. Hún er ríkulega myndskreytt, að uppistöðu matreiðslubók, byggð á kompum Sigmars en honum auðnaðist aldrei að skrifa slíka eins og þó stóð ætíð til að gera. Inní eru svo fléttaðar bráðskemmtilegar sögur af Sigmari sem varpa ljósi á hugmyndafræði hans.

braedur-sigmar-bok

Bræðurnir Sigmar B. Hauksson og Jón Víðir kátir á hreindýraveiðum.

Jón Víðir segist hafa byrjað að vinna að þessari bók nánast strax eftir að Sigmar lést.

„Hann hafði aldrei gefið út matreiðslubók þannig að ég ákvað að klára það fyrir hann í hans minningu. Fyrst var ég við að taka ljósmyndir á Ströndum, í kringum og á jörðinni okkar Víðivöllum í mismunandi aðstæðum og árstíðum. Svo fyrir um það bil ári síðan fór þetta að rúlla fyrir alvöru, þá fékk ég vini Sigmars til að mynda sérstaka framkvæmdastjórn yfir verkefninu. Ég eldaði matinn og ljósmyndaði.“

Bræðurnir gengu ávallt til rjúpna saman
Sigmars B. Haukssonar er sárt saknað af vinum og vandamönnum en bókin stendur sem verðugur bautasteinn um líf hans og störf. Þeir bræður fóru stundum saman til veiða.

„Ég og Sigmar veiddum ekki mikið saman í raun, hann var með sína veiðifélaga og ég mína en við veiddum mikið með pabba okkar Hauki B Guðjónssyni sem strákar, þá oftast í sitthvoru lagi því Sigmar var 13 árum eldri og var fluttur að heiman þegar ég fer að veiða eitthvað að viti. En auðvitað fórum við stundum saman þá helst á Strandir á rjúpu. Sem dæmi gengum við ávallt saman fyrsta rjúpnaveiðidaginn á heimalandinu okkar. Við fórum einnig nokkrum sinnum til útlanda að veiða villisvín og krónhirti. Við náðum bara að fara eina hreindýraveiðiferð saman.“

Slyngur fluguveiðimaður
Jón Víðir fæðist þannig inn í fjölskyldu hvar rík veiðihefð er fyrir. „Ég var bara 5 eða 6 ára þegar ég fór að veiða á flugustöng og 9 ára þegar ég byrja að fara með í skotveiði. 13 ára fékk ég mína fyrstu byssu þá sömu og Sigmar byrjaði með. Það var tvilling svo kölluð: tvíhleypa efra hlaupið 22cal riffill og neðra hlaupið 28cal högl.“

jon-vidir-med-vaenan-lax

Jón Víðir, ritstjóri bókarinnar, með vænan lax. Þeir bræður báðir eru og voru alhliða veiðimenn.

Uppáhaldsveiði Sigmars var sjóbleikja, að sögn bróður hans. „Í ánni okkar Staðará veidd á flugu, hann var afar lunkinn við þá veiði.
Svo í skotveiði var það rjúpan sem honum fannst skemmtilegast að sækja. Hann var góður göngumaður og þekkti fjöllin á Ströndum vel. En hann hafði gaman af allri veiði og vildi alltaf eiga gæs, endur sjófugl og hreindýr í frystinum.“

Bringuskera hundrað gæsir og restin ofan í skurð
Eins og áður sagði var Sigmar B. Hauksson frumkvöðull á svo margan hátt er varðar skotveiðar. Og þegar hann varð formaður Skotvís tók hann til við að reyna að sameina þennan sundurleita hóp sem skotveiðimenn eru. Það gekk á ýmsu.

„Hann lagði mikla áherslu á að bæta ímynd skotveiðimanna með því að hvetja veiðimenn að ganga vel um náttúruna og ekki síður bráðina. Þetta var ekki vinsælt hjá öllum, menn sögðu: Hvað vill þessi spjátrungur uppá dekk? Og að segja okkur fyrir verkum, við sem höfum gert sem okkur sýnist áratugum saman. Framlengingar á magasínin á haglabyssunum, bringuskera 100 gæsir og henda rest ofan í skurð…“

Gekkst fyrir sölubanni á rjúpu
Þetta viðgekkst hér áður fyrr. Sigmar horfði í aðrar áttir og var einn að hvatamönnum sölubanns á rjúpu. „Ég er viss um að ef það hefði ekki verið sett á þá værum við ekki að veiða neina rjúpu í dag. Hann vildi alltaf vera fyrri til að taka samtal við stjórnvöld um veiðilöggjöfina til að hafa eitthvað uppí erminni þegar á reyndi,“ segir Jón Víðir.

Fyllsta ástæða er til að óska Jóni Víði sem og okkur sportveiðimönnum öllum til hamingju með þessa glæsilegu bók sem lengi má fletta í. Þar er til að mynda að finna eftirfarandi uppskrift en þennan rétt eldaði Sigmar gjarnan þegar verið var á hreindýraveiðum og gist hjá Hákoni og Síu að Húsum.

hreindyrapasta

Hreindýrapasta með gorgonzolasósu

250 g hreindýrakjöt í frekar smáum teningum eða hakk

100 g saltað svínaflesk eða beikon

1 rauðlaukur

1 msk smjör

3 dl rjómi

50 til 100 g gorgonzola eða annar gráðostur

1 dl fersk basilíka, söxuð

pasta

salt og pipar

Kjöt og laukur steikt í smjöri.

Rjómanum hellt saman við og soðið í fimm mínútur.

Fleskið skorið í teninga og steikt á pönnu, látið renna af því. Fleskið sett í sósuna. Kryddað með salti og pipar.

Þá legg ég til að osturinn sé mulinn í sósuna.

Pastað soðið, sett á disk og sósan með kjötinu sett yfir. Að síðustu er basilíku stráð yfir.

Comments

comments

Tags: , , , , ,


About the Author

Sendu okkur myndir! Ritstjórn Gripdeildar, sem samanstendur af þeim Jakobi og Mikael, óskar eftir því að fá sendar myndir, myndbönd og fréttir á netfangið ritstjorn@gripdeild.is.Back to Top ↑