Bækur 1280px-alca_impennis_by_john_gould

Published on December 12th, 2016 | by Ritstjórn

Síðasti geirfuglinn

BÓKARÝNI Síðustu tvo geirfuglana veiddu þrír íslenskir sjómenn í Eldey 4. júní 1844. Geirfuglaparið var drepið gegn þóknun fyrir danska safnarann Carl Siemsen en veiðimennirnir voru þeir Jón Brandsson, Sigurður Ísleifsson og Ketill Ketilsson. Reyndar segir sagan að Jón og Sigurður hafi drepið sinn fuglinn hvor en Ketill hljóp um án þess að finna svo mikið sem fjöður. Ekki verður við hann sakast; að hafa verið vondur veiðimaður. Engum fleiri fuglum var til að dreifa. Í Eldey, í öllum heiminum. Geirfuglinn útdauður.

Sagan af síðasta geirfuglsparinu í Eldey er rakin í The Sixth Extinction, stórmerkilegri bók Elizabeth Kolbert, sem kom út fyrir tveimur árum og er í miklu uppáhaldi hjá ritstjórum Gripdeildar. Þessi bók er listilega vel skrifuð og skemmtileg aflestrar þrátt fyrir að þau tíðindi sem bókin leggur á borð fyrir okkur séu hrollvekjandi. Samkvæmt henni erum við stödd í sjöttu útrýmingunni miðri. Allar plöntur og allar dýrategundir á jörðinni eru að deyja út. Svo einfalt er það. Um þetta eru vísindamenn sammála.

 

sidasti-geirfuglinn

Síðasta geirfuglsparið var drepið úti í Eldey 1844.

Uppstoppaður geirfugl
Útrýmingin sem slík er ný hugmynd meðal vísindamanna. Fyrir rétt yfir tvö hundruð árum hvarflaði ekki að nokkrum heilvita manni að tegund gæti dáið út, hvort sem var um að ræða plöntu- eða dýrategund. En í dag er það staðreynd að maðurinn getur gengið það langt að heilum stofni eða tegund er útrýmd. Við Íslendingar ættum að þekkja manna best hvernig er að hafa slíkt á samviskunni.

Í The Sixth Extinction rekur Elizabeth Kolbert kostulega frásögn af því þegar hún ferðast til Íslands til að heimsækja síðustu heimkynni geirfuglsins. Hún fer og finnur Guðmund Guðmundsson, forstöðumann Safna- og flokkunarfræðideildar Náttúrufræðistofnunar Íslands, en hann bauðst til að sýna henni frægan uppstoppaðan geirfugl í eigu Íslendinga. Þessi fugl var drepinn sumarið 1921 og keypti daninn Frederick Christian Raben hræið til að láta stoppa fuglinn upp. Uppstoppaður fuglinn var svo í einkaeigu Dana þar til hann rataði á uppboð í London 1971 og Íslendingar söfnuðu peningum til að geta keypt fuglinn og flutt heim. Lengi vel var geirfuglinn sá til sýnis fyrir almenning á Íslandi en í dag liggur hann í geymslu því við höfum ekki efni á að reka dýran sýningarsal, Íslendingar.

 

uppstoppadur

Íslendingar keyptu uppstoppaðan geirfugl á uppboði fyrir rúmlega fjörtíu árum. Hann er í geymslu.

Áhrif mannanna ótvíræð
Auðvitað er til fólk sem þrætir fyrir áhrif okkar mannanna á lífríki jarðar. Meira að segja er slíkt fólk mjög áhrifamikið í Bandaríkjunum og kemst til meiri áhrifa nú í janúar þegar Donald Trump tekur við sem forseti. Þetta fólk hefur einfaldlega rangt fyrir sér. Áhrif okkar á lífríki jarðar eru ótvíræð. Það er ekki bara geirfuglinn sem segir sína sögu hvað þetta varðar heldur vorum við til dæmis að upplifa hlýjasta nóvember allra tíma nú í síðasta mánuði hér á Íslandi.

Hér heima er gott dæmi um svona umræðu fyrirhugað laxeldi við strendur Íslands. Ólíklegt er að náttúran fái að njóta vafans þótt okkur séu að berast skelfilegar fréttir af svona laxeldi í Noregi.

En laxeldi er ekki efni bókar Elizabeth Kolbert þótt hún hefði eflaust áhuga á því að skoða þau mál nánar. Enda hefur þessi frábæra blaðakona lengi skrifað um umhverfismál og vísindi fyrir tímaritið The New Yorker. Þar fjallar hún mikið um þessi málefni og síðast í október skrifaði hún merkilega grein um bráðnun jökla á Grænlandi.

 

510d42qlrl-_sy344_bo1204203200_

Óhætt er að mæla með lestri þessarar verðlaunabókar sem fékk Pulitzer 2014.

Homo Sapiens
Allt frá því að líf kviknaði á jörðinni, sem menn ætla að hafi verið fyrir um 3,8 billjónum ára, hefur það gerst fimm sinnum að nær allar tegundir, plöntur og dýr, hafi drepist. Síðasta útrýming átti sér stað fyrir um 66 milljónum ára en þá drápust hið minnsta þrír fjórðu allra plantna og dýrategunda.

Niðurstaða bókar Kolbert er að við séum stödd í miðju slíku ferli. Nema í þetta sinn eru það ekki utanaðkomandi áhrif sem valda, það ekki loftsteinn sem eyðir lífi á jörðinni, heldur ein dýrategund: Homo Sapiens.

The Sixth Extinction er mikilvæg bók sem ritstjórn Gripdeildar mælir eindregið með. Umfjöllunarefnið er stórt, líf á jörðu hvorki meira né minna, en í umhverfismálum ættu veiðimenn að vera leiðandi – þeir þekkja náttúruna öðrum betur. Og hún verður að njóta vafans.

Comments

comments

Tags: , , , , , , , , , ,


About the Author

Sendu okkur myndir! Ritstjórn Gripdeildar, sem samanstendur af þeim Jakobi og Mikael, óskar eftir því að fá sendar myndir, myndbönd og fréttir á netfangið ritstjorn@gripdeild.is.Back to Top ↑