Matreiðsla img_2852

Published on December 13th, 2016 | by Ritstjórn

Heimagerðar flatkökur

Jólin eru að koma og þá er ekki bara að grafa lax og hreindýr og gera rjúpuna klára. Nei, það þarf líka að baka brauð og ritstjórar Gripdeildar mæla með gamaldags flatkökum. Að sjálfsögðu eru þessar flatkökur bornar fram með eigin hangikjöti sem reykt er að hætti helstu sérfræðinga Gripdeildar fyrir austan fjall.

En varðandi flatkökurnar!
Í fyrsta lagi ekki hægt að baka flatkökur á nútímaeldavél. Þær eru alla span og keramik og guð má vita hvað. Nei, flatkökur eru steiktar (já eða bakaðar eða hvernig sem sérfræðingar vilja orða það) á hellunni. Annar ritstjóri Gripdeildar hefur orðið sér úti um fínasta helluborð og steikir sínar flatkökur úti á svölum. Reyndar má sjá þennan sama ritstjóra steikja flatkökur í þvottahúsi á Hvolsvelli – einu helsta vígi Framsóknarmanna – hjá frænda Ísólfs Gylfa Pálmasonar, sveitastjóra og fyrrverandi þingmann, hér fyrir neðan:

Enda er uppskriftin sjálf úr Landeyjum. Hana má lesa hér að neðan en þetta er mikil kúnst. Auðvitað er erfitt fyrir ritstjórann sem um ræðir að viðurkenna að minnsta mál sé að kasta þessu til á hellunni. En, hér snýst allt um að láta flatkökuna stoppa stutt við. Bara rétt snerta helluna, funheita, og snúa henni svo á alla kanta. Galdurinn er að brenna bragð í brauðið og þótt ritstjórar Gripdeildar sé einir til frásagnar þótti ritstjórinn bera sig virkilega fagmannlega að og hlaut fyrir mikið hrós hjá Framsóknarfólki fyrir austan.

img_2843

Hér er verið að bæta heitu vatni við og hnoða í deig.

Deigið er aðalatriðið
Já, það er svo að deigið er aðalatriðið. Uppskriftin er sáraeinföld en handtökin þeim mun flóknari. Þar liggur galdurinn. Vegna þess að flatkakan á það á hættu að verða seig ef ekki rétt að farið. Hér má eiginlega ekkert út af bregða en í 40 flatkökur þarf eftirfarandi:

10 bolla hveiti
3 bolla haframjöl
2 bolla heilhveiti
Slatta salt
1 1/2 líter heitt vatn

Þetta er ekki flókið. Nema, ómögulegt að segja þér, kæri lesandi, hvað slatti af salti þýðir. Ef lífsreynslan hefur ekki kennt þér það þá ertu hreinlega of mikill unglingur til að taka þátt í flatkökubakstri.

En þessu er blandað saman og út þetta er helt könnu af heitu vatni. Ætli við séum ekki að tala um nálægt einum og hálfum lítra. Best að byrja á einum og gutla svo restinni eftir tilfinningu. Og þar hefurðu það! Tilfinningin. Hún skiptir mestu.

img_2850

Misjafn er siðurinn og hér er notast við plastlok til að móta flatkökuna áður en hún fer beint á helluna.

16-18 cm
Ekki örvænta. Þetta fer allt vel. Uppskriftin er sáraeinföld og flatkökurnar smakkast um þið bil tuttugu þúsund sinnum betur en ef þú kaupir þær hjá Árna Haukssyni í Bónus.

En það er mikilvægt að hnoða þessi ósköp og deila niður á rúllur. Passa að hafa rakt viskustykki yfir öllu saman; alltaf. En rúlla svo kökunum út og skera með pottloki. Á heimili ritstjórans sem um ræðir er notast við pottlok sem er um 16 cm. Ýmsir sem telja sig verseraða flatkökugerðarmenn myndu reyndar vilja þrasa um þetta atriði og vilja hafa kökurnar allt að 18 cm. Gott og vel. Sitt sýnist hverjum í þessum efnum eins og öðrum.

Betra er að hafa kökurna ekki of þykkar og ekki of þunnar. Nú höfum við öll étið flatkökur og vitum svona sirka hversu þunnar þær eiga að vera.

Þá er bara að steikja. Nú eða baka, ef þú vilt heldur nota það orð.

Comments

comments


About the Author

Sendu okkur myndir! Ritstjórn Gripdeildar, sem samanstendur af þeim Jakobi og Mikael, óskar eftir því að fá sendar myndir, myndbönd og fréttir á netfangið ritstjorn@gripdeild.is.Back to Top ↑