Bækur steinar-i-kiljunni

Published on December 15th, 2016 | by Ritstjórn

Dínamískar smásögur Steinars Braga

BÆKURNAR Í VEIÐIHÚSIР— RITRÝNI

Allt fer
Steinar Bragi
Mál og menning
Reykjavík 2016

*****

Fyrst þetta: „Allt fer“, nýtt smásagnasafn hans Steinars Braga sætir tíðindum. Viðfangsefnið er sígilt en nálgunin er svo teprulaus og hugmyndarík að úr verður algjört dínamít. Bókin fær fimm stjörnur.

Smásagan er málið
Nú annó 2016 virðist vera blómatími smásagnagerðar. Sem er óvænt og athyglisvert. Smásagan hefur átt rysjóttu gengi að fagna í gegnum tíðina. Blómatími íslensku smásögunnar hefur á stundum verið sagður í miðri raunsæisstefnunni í kringum þar síðustu aldamót! Frekar langt síðan. Með mönnum eins og Einari Kvaran og Gesti Pálssyni… Halldóri Stefánssyni. Hún hefur alltaf skotið upp kollinum reglulega en einhvern veginn marað í hálfu kafi, smásagnasöfnin eru oftar en ekki ein á ferð. Kallast ekki á við önnur á ritunartíma sínum. Og þau hafa verið afgreidd nánast sem einskonar millileikur höfunda, milli stærri verka. Svo væla menn fyrir hönd ljóðsins?

En, hvers vegna hafa höfundar ekki gefið sig að þessu ágæta formi af meiri alvöru en raun ber vitni? Ég held að það sé blanda af margvíslegum misskilningi. Rithöfundar þrá viðurkenningu. Og hana hafa þeir ekki fundið við smásagnagerðina. Dæmi: Blautur draumur þeirra flestra, sem oft er dágóður búhnykkur einnig, er ef verk þeirra eru tekin til kostanna af leikhúsi eða kvikmyndagerðarmönnum.

Á Íslandi styðst dramatíkin, þá bæði kvikmynd og sviðslistir, oftar en við stór epísk verk – en niðurstaðan er oftast: Bókin var betri. Meðan ég hefði haldið að miklu nær væri fyrir dramatíkina að leita fanga í smásögunni?

Skilgreiningameinsemd
Af hverju, af hverju? Vandræði smásögunnar má kannski einnig rekja til frumstæðra skilgreininga á þessu listformi; að hún sé annað hvort svipmynd eða hún einkennast af afhjúpandi endalokum.

En, auðvitað er smásagan sem listform stærra í sniðum en svo. Smáprósar Baudelaires, sem taldir eru marka upphaf nútímaljóðlistar, standa til að mynda að mörgu leyti nær smásögu en ljóði. Svo vitnað sé í skrif Matthíasar Viðars um sagnasafn Kristjáns Karlssonar, Komið til meginlandsins frá nokkrum úteyjum, í Skírni 1986, en þar fjallar Matthías af miklum krafti um eðli og eiginleika smásagnagerðar. Hann talar um hina einhæfu kröfu sem leiði til þess að „þær smásögur sem hátt hefur borið líkjast helst ófullburða skáldsögum.“

konur

Í Konum missti Steinar Bragi tökin…

Nú ber hins vegar svo við að nokkur ný smásagnasöfn rekur á fjörur okkar lesenda samtímis. Þórarinn Eldjárn, sá snjalli smásagnahöfundur er með bók, Andri Snær Magnason einnig og svo Steinar Bragi.

Að eiga erfitt með að hnýta lausa enda
Smásagan virðist henta Steinari Braga einstaklega vel. Ég hef lesið nokkrar bóka hans og mér finnst hann oftar en ekki missa tökin í verkum sínum. Þó hæfileikarnir fari ekkert á milli mála. Þannig rann söguefnið í Konum, framan af þeirri kynngimögnuðu sögu, höfundi úr greipum. Fór út í einhverja tjöru og sjaldan hefur maður séð eins mikið á eftir verki í þann svelg sem er getuleysi höfunda við að loka sögu sinni.

Hin kauðska Kata
Síðasta skáldsaga Steinars Braga Kata var svo fremur kauðsk blanda krimma, lykilrómans og svo yfirlýsingar höfundar þess efnis að hann væri væri femínisti og góður gæi. Yfirlýsing sem hver einasti ríkisstyrktur listamaður virðist telja sig þurfa að koma á framfæri til að hljóta náð fyrir augum úthlutunarnefndarinnar. Því var það svo fyndið og skemmtilegt þegar Steinar Bragi varð óvænt helsta hetja plöggandrúms jólabókavertíðar þegar Salvör Gissurardóttir svo gott sem klíndi því á hann að Steinar Bragi hlyti að vera skúrkurinn í frásögn konu nokkurrar á vegum Stígamóta sem lýst fjálglega kúgandi sambandi sínu við listamann nokkurn sem vildi misbjóða blygðunarkennd hennar. Salvör þóttist þekkja kauða af umfjöllunarefninu: Ofbeldi gegn konum.

Vitað er að hollusta við tiltekinn málstað er áskilin vilji menn njóta viðurkenningar hins ráðandi hóps. Hugleikur Dagsson segist ekki vera douchebag heldur femínisti og því megi hann vera dónalegur. Fólk megi vita að hann meinar rétt og vel. Sama er með Steinar Braga: Hann má án fyrirvara henda skít í mann og annan en ef hann fær það sama til baka er samstundis risinn upp samhentur hópur honum til varnar. *1) Þannig gengur þetta til á Íslandi og eins gott að kunna sporin.

Þroskaferill hins íslenska rithöfundar
Og, líkast til eru þetta nauðsynlegir þættir í þroskaferli íslensks rithöfundar. Því í „Allt fer“ smellur þetta saman. Stílsnilld Steinars Braga nýtur sín svo um munar og hann á ekki í neinum vandræðum með að hnýta lausa enda. Og sérkennilegt er við þennan höfund, sem er alltaf eins og illa gerður hlutur í kynningarviðtölum við rjóðan og teprulegan Egil Helgason, hversu afdráttarlaus hann er við lyklaborðið. Þar eru engin tabú og hugmyndafluginu virðast engin takmörk sett: Í sögunni „Úrræði ríkisstjórnarinnar á fasteignamarkaði“ hverfum við í fylgd sögumanns, en þetta er 1. persónu frásögn, inn í rassgat Sigmundar Davíðs hvar okkar maður tekst á við sambandsslit og mollulegt lífið í iðrum Framsóknarmannsins mikla. Þetta gengur upp. Pældu í því.

kata

Hin kauðska Kata leið fyrir réttpólitískt erindi höfundar — en var nauðsynlegt skref í þroska höfundar.

Sögurnar eru 19 talsins og flestar fjalla þær á einn eða annan hátt um sambandsslit. Niðurstaðan er sú að ástin, þetta fyrirbæri sem margir líta til sem þess sem gerir lífið þess virði að því sé lifað, endist ekki. Tálsýn í táradal. Sársauki og þjáning, sem höfundur sjálfur segist í viðtölum þekkja svo vel.

Hefur frásagnarháttinn vel á valdi sínu
Steinar Bragi nálgast þetta viðfangsefni sitt úr öllum áttum. Í stuttri en afar athyglisverðri sögu, „Innskot: Einsamall úlfur“, er sögumaður haldinn barnagirnd. Eigindir frásagnar eru þær að lesandinn stillir sér ósjálfrátt upp með sögumanninum. Og þarna er ekki þægilegt að vera. Þetta reynir á þanþol lesandans. Stefán Máni reyndi þetta í bók sinni Myrkravél en úrvinnslan var ekki nægjanlega góð. Steinar Bragi er líklegri til afreka og hann hefði mátt vinna þetta lengra. Það býður betri tíma. Og kannski eins gott að hún Salvör Gissurardóttir lesi ekki þá sögu.

Steinar Bragi skoðar einnig samspil kynlífs og ástar, einkum verður það athyglisvert í sögunni af „Hvíta geldingnum“ sem fjallar um Finn Jónsson, ungan ævintýramann sem er seldur á arabískum þrælamarkaði og endar sem geldingur í kvennabúri í miðju Sanaa, höfuðborgar Jemen.

allt-fer

Í Allt fer smellur allt saman hjá Steinari Braga — frábært verk.

Ávallt er stutt í óhugnaðinn eins og til að mynda í sögunni „Kólfurinn“ en einnig í „Sögu af þriðjudegi“ hvar Steinar Bragi sýnir að hann hefur fullkomið vald á frásagnarhættinum. Í inngangi þeirrar sögu: „En nú er ég kominn fram úr sjálfum mér, farinn að brjóta þær sögumannsreglur sem mér fremri menn hafa fullkomnað með áralöngu striti sínu, gjörtæku og slítandi hugsjónastarfi í þágu mannkyns sem hefur jú alltaf fundið svölun, göfgi jafnvel, í þeirri list sem það er að lesa eða segja góða sögu, sjálfur geri ég ekki nema að apa eftir, vesgú.“

Menn verða að þekkja reglurnar til að geta brotið þær.

Sprengir skilgreiningarnar
Í raun þjónar engum tilgangi að tæpa frekar á efni sagnanna, þær eru krassandi og innihaldsríkar. Og Steinar Bragi vinnur það afrek að sprengja takmarkaðar skilgreiningar á smásögunni, þeim sem hér hefur verið kvartað undan.

Ekki er heldur víst að það þjóni miklum tilgangi að reyna að henda Steinari Braga og þessum sögum hans á einhvern bás. Helst að það megi finna einhver áhrif og líkindi með sögunum í „Allt fer“ og sögum argentínska höfundarins Julio Cortázar og er þar vitaskuld ekki leiðum að líkjast. Þeir eru báðir tveir að sigla á óræðum miðum hins suðurameríska draumaraunsæis eða jafnvel ofurraunsæis og missa ekki úr takt.

Jakob Bjarnar Grétarsson

___

*1) Í Facebookhópnum Menningarátökin lýsir Hermann Stefánsson, rithöfundur og póstmódernisti, sem átti í ati þar um Steinar Braga, þessu fyrirbæri á eftirfarandi hátt:

Svo ég súmmeri upp kjafthátt minn og yfirgengilega galsa-stæla þá er hér atast svona hressilega í Steinari Braga af því tilefni að fyrir skemmstu ataðist hann sjálfur all-illilega í Jóni Kalman fyrir mærð í heilli skáldsögu, án þess að ég þekki þar vel til, og fékk hvergi bágt fyrir en lætur þó sjálfur frá sér setningar sem ekki síður má atast í og hafa að háði og spotti og þarf ekki að vera mjög harðsvíraður til. Þá lét Steinar hafa eftir sér í viðtali að það ætti að hálshöggva íhaldskellinguna Kolbrúnu Bergþórsdóttur og ég man ekki hvað átti að gera við Ástráð Eysteinsson, aflífa hann líklega, án þess að hafa neina efnislega gagnrýni fram að færa, og ég man ekki til þess að Steinar hafi fengið neitt lífsmark á móti þá. Nú er mér ekki illa við nokkurn mann og stjórnast ekki af neinum annarlegum hvötum en mér þykir tímabært að rjúfa það ef orðin er til slík helgislepja í kringum Steinar að ekki þyki tækt að beita hans eigin meðulum á hann sjálfan. Ella verður umræðuhalli í spilinu og það er öllum óhollt. Takk fyrir og góðar stundir.

Comments

comments

Tags: , , , , , , , , , , , , , , , , ,


About the Author

Sendu okkur myndir! Ritstjórn Gripdeildar, sem samanstendur af þeim Jakobi og Mikael, óskar eftir því að fá sendar myndir, myndbönd og fréttir á netfangið ritstjorn@gripdeild.is.Back to Top ↑