Skotveiði Indi samsett

Published on February 1st, 2017 | by Ritstjórn

Baráttan fyrir því að fá að veiða með boga og örvum

Gripdeildarmenn láta sig fátt eitt sem snýr að veiðum og veiðimennsku óviðkomandi og hafa lengi verið forvitnir um bogfimi. Reyndar er það svo að lögum samkvæmt eru veiðar með boga og örvum bannaðar á Íslandi. Sem í því (eins og reyndar ýmsu öðru) sker sig úr frá öðrum löndum hvað varðar blessaðan bannismann – en víðast í þeim löndum sem við helst berum okkur helst saman við er það leyfilegt.

Gripdeild fór og kynnti sér málin nánar og komst meðal annars að því að ef það má líkja þessu við eitthvað þá er bogfimi eins og fluguveiði meðan skotfimin er meira eins og að veiða með spún. Ekki víst að allir verði ánægðir með þá líkingu.

Indi er algjör lykilmaður
Indriði R. Grétarsson hjá Bogveiðifélagi Íslands var svo elskulegur að bjóða Gripdeild að koma í Bogfimisetrið í Dugguvogi, prófa að skjóta af boga og ræða um bogveiði og bogfimi. Ekki var annað hægt en þiggja það góða boð.

20170128_102110

Indi er alger alfræðiorðabók um bogfimi og veiðar með boga og örvum. Hann berst nú í kerfisfólki og er þar við ramman reip að draga.

Indriði, eða Indi eins og hann er kallaður af vinum, er formaður Bogveiðifélagsins, sem berst fyrir því að veiðar með boga og örvum verði leyfðar á Íslandi. Indi ljómar bókstaflega þegar hann talar um þetta áhugamál sitt og það er ákaflega upplífgandi að heyra hann lýsa þessu. Og ljóst að hann er rétti maðurinn til að berjast fyrir framgangi íþróttarinnar og þá veiðum með boga og örvum. Kannski ekki margir sem það vita en hann er jafnframt varaformaður SKOTVÍS og kom að þeim málum að fá í gegn almenna notkun á hljóðdempurum. Indriði er reyndar alger lykilmaður í öllu því sem viðkemur bogfimi; hann er í Bogfiminefnd ÍSÍ og Bogfimideild Tindastóll. Þá er hann kominn með 1. stig þjálfara hjá ÍSÍ (World Archery)og 1. og 2. stig á IFAA (International Field Archery Association).

Kerfiskarlar setja strik í reikninginn
Líkast til hafa Gripdeildarmenn verið eitthvað skelkaðir á svipinn, þó þeim sem hér heldur um penna telji sig svellkaldan karl, því Indi byrjar á því að tilkynna Gripdeildarmönnum að bogfimi sé eitthvert hættulausasta sport sem um getur. Þetta gengur líkast til þvert á það sem almennt er talið. Bogi og örvar eru auðvitað í huga fólks vopn frá fornu fari og þarf kannski ekki annað en nefna Hróa hött í því samhengi. Já, eða bara okkar eigin Gunnar á Hlíðarenda en það varð honum að falli þegar varnir hans brustu við það er strengurinn slitnaði í boga hans og Hallgerður neitaði honum um hár úr höfði sínu.

IMG_20170128_182113_941

Mikki mundar bogann eins og sannur fagmaður. Ráðandi auga Mikka er það vinstra sem setur strik í reikninginn hjá honum í skotfimi sem og bogfimi — hann spennir bogann sem örvhentur sé.

„Bogfimi í þeirri mynd sem við þekkjum hana hefur á Íslandi verið stunduð síðan 1974. Þá mátti kaupa boga úti í búð, til dæmis Útilíf og Intersport, en með gildistölu laga 1998 þá datt það upp fyrir þar sem búðir og félög sáu sér ekki fært að fylgja lögum þar sem það þótti íþyngjandi og datt því öll verslun niður,“ segir Indi sem sjálfur hefur nýopnað vefverslun með bogabúnað – bogasteinn.net. Það gerir hann meðal annars vegna þess að áhugi á bogfimi hefur mjög verið að aukast að undanförnu.

Allir geta skotið af boga
„Ég myndi segja að það væri  sem hefur orsakað þennan mikla áhuga að undanförnu sé annars vegar móttöku skólahópa hjá Skotfélaginu Ósmann og svo hins vegar opnun á Bogfimisetrinu í Kópavogi 2012, sem síðar færðu sig hingað í Dugguvog. Á höfuðborgarsvæðinu er alveg klárt að Bogfimisetrið hafi hjálpað mikið til. En, í dag eru um 9 félög og um 4-500 skráðir í þau og af þeim eru kannski 100 virkir.“

Það er með Indriða sjálfan að hann fékk áhuga á þessu strákur í sveit, að skjóta af boga með rafmagnsrörum. „svo þegar maður fór erlendis á sólarströnd þá er oftast eitt af afþreyingu að prófa að skjóta af boga.“

Indi útskýrir að bogfimi sem slík sé í raun mjög tæknileg íþrótt, en til að skjóta af boga svona „standard“ sem Jón Jónsson þá er það ekki svo mikið mál. Svo fremi sem einfaldar öryggisreglur eru virtar.

„Það geta allir skotið af boga; 4-6 ára krakki og uppúr. En að ná góðum árangri það tekur um 2-5 ár og þá með mikilli æfingu. Þau sem eru á toppnum í dag byrjuðu mörg hver í kringum 2012 og eins og árangur á mótum og annað er sýna það að framtíðin er björt.“

IMG_0259

Mynd af myndatöku. Sony-vél Gripdeildar klikkaði, hún var batteríislaus og þá fóru símarnir á loft upp. Þegar Gripdeildarmenn heimsóttu hina ágætu aðstöðu Bogfimisetursins var þar yfirstandandi mót og magnað að sjá hversu góðir bogmennirnir eru — þetta var allt meira og minna bulls eye.

Og einmitt þegar Gripdeildarmenn voru á ferð í Bogfimisetrinu var mót og magnað var að sjá hversu vel örvarnar rötuðu í miðju skotmarks.

Bannlandið Ísland
Til eru þrjár megingerðir boga: Langbogi, Sveigbogi og Trissubogi en svo eru aðrar gerðir til eins og hestabogar en við förum ekki lengra út í þá sálma. Sveigbogi tengist einna helst ólympískri bogfimi á meðan trissubogi tengist meira veiði, en það er hægt að veiða með öllum bogum. Og þá komum við einmitt að þessu atriði, með veiðarnar, hvernig stendur það?

IMG_0253

Jakob prófar tiltölulega einfalda gerð trissuboga. Trissubogarnir eru talsvert kraftmeiri en sveigbogarnir og eru því notaðir meira við veiðar, meðan sveigbogar eru þeir sem heldur eru notaðir í ólympískri bogfimi.

„Jahhh, eins og staðan í dag þá er ekki leyfilegt að stunda veiða með boga og ör á Íslandi. Það sem stendur einna helst í vegi fyrir því eru vopnalög, sem snúa að því að hægt sé að flytja inn opinberlaga svokallaða veiðiodda. En við höfum verið að ýta á yfirvöld að breyta lögum síðan 2010 en vegna einhvers sem við skiljum ekki þá hefur ekki gengið að leggja frumvarp til breytinga á vopnalögum fyrir þing og klára það. Þrátt fyrir til dæmis að sum lög og/eða reglugerðir standast ekki.“

Barist við fordóma og vanþekkingu
Ljóst er að þarna erum við komin að hjartans máli Indriða. Hann segir að þeir sem hafa barist við kerfið hafi verið vongóðir á hverju ári, að þetta fari að breytast en lítið skeður.

„Þetta er farið að hamla ákveðinni þróun og uppbygginu. Það er hægt að veiða allar dýrategundir með boga og takmarkast það einna helst um færi veiðimannsins. Og það að ekki sé hægt að stunda bogveiðar eins og á hreindýr útaf kostnaði eða öðru stenst ekki.“

Indi og félagar, þeir sem berjast fyrir því að Ísland fari ekki fremst í flokki landa heims þar sem lagt er bann við öllu sem ekki er sérstaklega er leyft, eiga við ramma fordóma að etja.

„Það eru alltaf ákveðnir formdómar með hluti sem fólk þekkir ekki og fer a bera saman við hluti sem er ekki hægt að vera saman við út af notkun og öðrum þáttum. Eins og til að mynda ef fólk horfi mikið á myndbönd á YouTube frá USA.“

Að veiða með boga
Indriði dregur nú fram úr pússi sínu iPad og sýnir Gripdeildarmönnum myndband sem hann fékk sérstaklega sent frá félögum sínum í alþjóðasamtökum bogveiðimanna, þar sem menn læðast um skóglendi í felubúningum, nánast ósýnilegir. Þeir þurfa að komast nálægt bráð sinni, helst í um 30 til 40 metra fjarlægð, til að ná öruggu skoti. Á myndbandinu má sjá ýmis dýr felld og það er vissulega ekki fyrir viðkvæma. En, það eru veiðar svo sem ekki heldur hvert sem litið er í þeim efnum og Indriði heldur því fram að þetta sé síst verra en skotveiði að teknu tilliti til bráðarinnar.

20170128_105637

Trissuboginn hans Inda er fallegur gripur — en þeir sem leggja fyrir sig bogfimi stilla bogann eftir því sem hentar en að mörgu er að hyggja vilji menn ná árangri í þessari bráðskemmtilegu íþrótt.

„Svo er ekki hægt að bera það saman til dæmis bogveiðar í Danmörku þar sem samkvæmt opinberum tölum er bogveiði með lægra hlutfall særðra dýra en ef væri veitt með skotvopnum. Þetta eru opinberar tölur vel að merkja. Kröfu á bogveiðifólk í Evrópu eru meiri en kröfur á skotveiðifólk. Algengt er að fólk vilji bera saman skotvopn og boga sem er núna bara eins og að bera saman epli og appelsína, þetta er ekki samanburðarhæft. Umhverfisstofnun gaf á sínum tíma út álit að beiðni umhverfisráðuneytisins og var það mjög jákvætt í alla staði. En, ráðuneytið vildi ekki halda áfram með málið þar sem veiðioddar eru ekki leyfðir opinberalega á pappír.“

Vonir bundnar við nýjan dómsmálaráðherra
Ljóst er að lýjandi er að reyna að koma vitinu fyrir fólk sem veit lítið sem ekkert um hvað það er að tala. En, það fólk ræður för í kerfinu.

„Það skrítna í þessu að að veiðimenn á leið sinni frá til dæmis USA til Grænlands hafa þurft að koma með boga og þessa odda inn til landsins og út aftur. En, við fáum ekki leyfi til að æfa okkur hér heima til veiða erlendis. Samanber með þá sem eru að fara á Skotveiðar til Afríku eða sambærilegt, með undanþágu rifflanna.“

Indriði hefur sent inn tillögur til innanríkisráðuneytis og hefur ráðuneytið þakkað það að þeir sem vita eitthvað um hlutina séu að ráðleggja. Og Bogveiðifélagið sé klárlega hagsmunaðili þegar kemur að þessum málum.

„Við bindum mikla vonir við að nýr dómsmálaráðherra komi vopnalögunum loksins fyrir  þing og það verði klárað og þá getum við snúið okkur að öðru ráðuneyti þegar það er komið í gegn,“ segir Indriði sem lætur ekki deigan síga í þessari baráttu sinni.

Jakob Tell
Eftir upplýsandi fyrirlestur frá Indriða fengu Gripdeildarmenn að prófa. Indriði var með tilkomumikinn trissuboga sinn með í för, gríðarlega kraftmikinn boga og segir Indi að það þurfi að stilla slíkan grip nákvæmlega fyrir eigandann. Og þar eru að mörgu að hyggja. Eins og Indi hafði sagt, þá er í sjálfu sér ekki mikið mál að skjóta af boga en það er meira mál að vera nákvæmur og stöðugur. Þá skiptir allt máli eins og staða, andardráttur og afstaða líkamans alls til bogans.

Það kom á daginn að svo virðist sem öðrum ritstjóra Gripdeildar, Jakobi nánar tiltekið, sé bogfimin í blóð borin. Eins og sjá má á meðfylgjandi myndbandi. Hann var býsna ánægður með sig og krafðist þess að vera kallaður Jakob Tell með vísan í þjóðhetju Svisslendinga; Vilhjálmi Tell sem var öðrum mönnum leiknari með boga og örvar. Mikael bauðst samstundis til að stilla sér upp með epli á höfðinu. En, sem betur fer voru engar slíkar æfingar hafðar í frammi því það kom á daginn þegar fleiri örvum var skotið að ekki vildu þær nú allar rata í miðjuna.

 

Comments

comments

Tags: , , , ,


About the Author

Sendu okkur myndir! Ritstjórn Gripdeildar, sem samanstendur af þeim Jakobi og Mikael, óskar eftir því að fá sendar myndir, myndbönd og fréttir á netfangið ritstjorn@gripdeild.is.Back to Top ↑