Stangveiði SONY DSC

Published on April 16th, 2017 | by Jakob Bjarnar Grétarsson

Afmælisveiði í Tungunum

Jón Mýrdal veitingamaður á Messanum með meiru er með grimmari veiðimönnum. Og er því á stundum kallaður Minkurinn í sínu veiðifélagi. Jón á afmæli 15. apríl og ákvað að gefa sjálfum sér það í afmælisgjöf að fara í sjóbirting í Tungufljót í Skaftártungum.

Mýrdal kann að gera vel við sig og valdi veiðifélaga af mikilli kostgæfni. Þar var náttúrlega efstur á blaði annar ritstjóra Gripdeildar, blaðamaðurinn Jakob Bjarnar – en hann er jafnframt ritari veiðifélagsins Achmeð (áður Burkni) hvar Jón er formaður.

SONY DSC

Vonglaðir veiðimenn í upphafi ferðar og seinna koma á daginn að þeir höfðu fulla ástæðu til að vera kátir. Veiðiferðin stóð undir væntingum og vel svo. mynd/jbg

Þá var með í för Friðfinnur Oculus Sigurðsson tónlistarmaður; einhver vandaðasti fluguveiðimaður landsins en auk þeirra voru í Tungufljóti formaður SVFR, herra Árni Friðleifsson. Minna mátti það ekki vera. „Þetta er formannaferð,“ sagði Jón ábúðarfullur þegar fréttist að þarna yrði sjálfur formaður SVFR á ferð á sama tíma.

Enginn ókeypis ís í Mýrdal
Hollið var með hálfan/hálfan – 15. apríl – 16. apríl. Í Tungufljót er rúmlega þriggja tíma akstur úr Reykjavík en það var mikill hugur í leiðangursmönnum. Lagt var af stað úr borginni uppúr klukkan tíu þannig að menn voru komnir í góðum tíma í ágætt veiðihúsið sem er þarna við fljótið. Hugmyndin var reyndar að stoppa í Vík í Mýrdal, en þar kemur Jón gjarnan við þegar hann á leið um og krefst þess að fá ókeypis ís. Sem er eiginlega lágmark þegar menn heita Mýrdal. Þetta hefur aldrei virkað en var reynandi því nú var sjálfur afmælisdagurinn. En, leiðangursmenn hrökkluðust þaðan því sjoppan var bókstaflega stappfull af ferðamönnum.

SONY DSC

Árni gerþekkir Tungufljótið, hefur komið þangað frá því hann var strákur með föður sínum. Og splæsir hér nokkrum góðum ráðleggingum á mannskapinn. – mynd/jbg

Jæja, þýddi svo sem ekkert að gráta það og áður en langt um leið var hópurinn kominn á áfangastað. Menn höfðu því tímann fyrir sér, sem blaðamaður taldi prívat mjög jákvætt því þá er hann fer með Jóni til veiða er það yfirleitt þannig að hann er varla búinn að setja stöngina saman þá er Minkurinn kominn út í hyl. Menn sem sagt græjuðu sig af kostgæfni og voru byrjaðir að sveifla stöngum sínum á slaginu 15:00.

Hljóp á snæri afmælisdrengs
Ekki var af sökum að spyrja. Afmælisdrengurinn var fljótur að setja í vænan birting. Tók eina þrjá í beit. Aðstæður voru ágætar. Kalt í veðri en stillt og þannig hélst veður allan tímann. Friðfinnur var fljótur að ná afmælisdrengnum í aflatölum, þeir náðu rúmum tug fiska sem voru sprækir í kringum 4 til 6 pund.

SONY DSC

Árni var ekki lengi að setja í birting; sökklína, tvíhenda og SunRay Skull var það sem dugði. – mynd/jbg

Árni formaður mætti fljótlega eftir að menn voru komnir útí og tók sinn skammt, tók alls fjóra fiska en blaðamaðurinn var ekki að hitta á það. Og þegar liðið var á fyrri daginn gaf bakið sig og hann var ferjaður upp í hús þar sem hann gleypti í sig verkjatöflur og tók til við að grilla læri og hafa til afmælisveislu fyrir formann Achmeðs.

Íshröngl og jakar settu strik í reikninginn
Þetta var þó ekki algert núll hjá blaðamanni Gripdeildar sem var sérstaklega mættur til að prófa nýja Sage 8 Response og Einarsson-hjól. Hann náði einni bleikju en alls veiddust þrjár slíkar, tvær við brúna og ein við Syðri-Hólma sem reyndist vera fjörugasti veiðistaðurinn, flestir birtingarnir voru dregnir á land þar. Þá voru tveir fiskar teknir við Flögubakka – en það munaði miklu að hafa Friðfinn með, en hann hafði verið helginni fyrr með Stefáni Sigurðssyni veiðifrömuði við Tungufljót og þekkti vænlega staði ómerkta.

SONY DSC

Friðfinnur er veiðimaður af lífi og sál. Hann hnýtir sínar flugur sjálfur og það kom á daginn að birtingurinn fúlsaði við öllu nema Black Shadow sem Friðfinnur hafði hnýtt sjálfur. – mynd/jbg

Það sem gerði veiðina nokkuð strembna var íshröngl og jakar sem komu siglandi niður fljótið. Menn voru með sökklínur og/eða sökkenda á hjólum sínum og veitti ekki af; bæði var allþungur straumur og ef jakarnir komu siglandi á flotlínu mátti gleyma því kastinu. Það sem fiskurinn tók var nettur Black Ghost sem Friðfinnur hafði hnýtt sjálfur. Sú fluga var fljót að sanna sig; aðrar flugur virkuðu ekki en voru reyndar ekki mikið prófaðar. Nema, jú, Árni tók sína fiska á SunRay Skull.

Alveg óhætt að segja að þessi ferð hafi verið alveg einstaklega vel heppnuð í alla staði, nema ef vera kynni að það megi kvarta undan gæftaleysi blaðamannsins. Við tökum því eins og hverju öðru hundsbiti. Vorveiðin, eins köld og hún getur reynst, er til að taka úr mönnum veiðihrollinn. Og þessi ferð fór langt með það.

SONY DSC

Jón Mýrdal gat ekki hugsað sér betri afmælisdag en þann að veiða sjóbirting. Og það vafðist ekki fyrir hinum grimma veiðimanni að setja í nokkra slíka í Tungufljóti. – mynd/jbg

Comments

comments

Tags: , , , ,


About the AuthorBack to Top ↑