Stangveiði Baldur1

Published on May 22nd, 2017 | by Ritstjórn

Kenningin sem sannaðist á bökkum Sandár

Eftir Baldur Guðmundsson

Hann þurfti ekki að suða í mér lengi, Matthías í Icelandic Fishing Guide, leigutaki í Brunná/Sandá í Öxarfirði, þegar hann bað mig um að gera sér greiða á þriðjudagskvöldið. Ég hafði verið að gera tilraun til að svala veiðifýsn minni með því að lesa mér til um fluguveiði og þá kenningu að dökkar flugur gefi best í rökkri en ljósar þegar birtan er mikil. Því hafði ég aldrei gefið sérstakan gaum.

Nennirðu að veiða Sandá fyrir mig?
Það var í þeim hugleiðingum sem ég fékk skilaboðin frá Matta á Messenger: „Hvernig er Sandá? Nennir þú að veiða hana fyrir mig?“ Sandá er kvísl úr Jökulsá á Fjöllum og sameinast silungsveiðiperlunni Brunná, neðan Klifshaga, áður en þær renna saman til sjávar, nokkuð neðan fiskeldisstöðvarinnar Silfurstjörnunnar. Matthías vildi vita hvort áin væri hrein og hvort fiskur væri í ánni en þar á milli er samasemmerki.

Eitt leiddi mjög hratt af öðru og um klukkustund síðar stóð ég í austanroki við árbakka Sandár (hvar ég þréttán ára veiddi 19 punda maríulaxinn minn) og reyndi að setja héraðsmet í að hnýta flugu í taum.

Daiwa-stöngin brotnaði í tvennt
Eftirvæntingin var mikil. Ekki minni var hún hjá karli föður mínum, sem hafði ekki kastað flugu í langan tíma. Óðagotið var slíkt að í einni hviðunni skelltist bílhurðin á Daiwa-stöngina hans, og braut í tvennt.

Baldur3

Góð ráð eru oftast dýr svo úr varð að við skiptumst á að nota fimmuna mína. Ég fórnaði mér og bauðst til að taka það á mig að byrja. Í fjórða kasti tók um 55 cm urriði fluguna (fish scull straumflugu) og lét ófriðlega. Eftir snarpa viðureign var hann dreginn að landi og myndaður í bak og fyrir. Pabbi tók þá við og ekki leið á löngu áður en hann setti í fisk, heldur stærri.

Stanslaus veisla í tæpa tvo tíma
Í hálfan annan klukkutíma vorum við í stanslausri veislu. Við lönduðum hverjum 50-60 sentímetra silungnum af öðrum og skiptumst á að veiða og taka myndir. Þannig háttar til að í neðsta hluta Sandár nýtur fiskurinn góðs af því að afrennsli frá Silfurstjörnunni blandast ánni. Því vatni fylgir eitthvað æti svo fiskurinn er á svæðinu afar vel haldinn og skemmtilegur viðureignar.

Birtu fór að bregða og bæði endur og gæsir freistuðu þess að koma inn til lendingar á ánna, til næturdvalar. Þeim þótti við ekki fagrir ásýndum. Skyndilega datt takan niður og við urðum sammála um að huga að heimferð, enda búnir að landa átta frábærum fiskum. Við vorum líka satt að segja frekar kaldir.

Kenningin reynd
Ég sagði við pabba að mér þætti ómögulegt að yfirgefa ána án þess að láta reyna á kenninguna sem ég hafði verið að lesa mér til um fyrr um kvöldið. Sama hlandgula straumflugan hafði verið undir allan tímann, enda forðast ég almennt í silungsveiði að eyða dýrmætum veiðitímanum í að skipta um flugu. Einu sinni fór ég í gegn um fjögurra daga veiðitúr í Laxá með sama eintakið af Rektor. Í þeim túr veiddi ég yfir 60 silunga, en lítið var eftir af flugunni undir það síðasta.

Baldur2

Nóg um það. Ég setti undir svarta straumflugu, þunga og frekar stóra og sagði við pabba að við yrðum að láta reyna á kenninguna áður en við færum. Í öðru eða þriðja kasti fékk ég þunga töku. Redington-fimman mín bognaði í keng og ég fékk verk í öxlina. „Hann er stór!“ kallaði ég til pabba sem slökkti í hálfreyktri sígarettu og kom til að fylgjast með.

Glæsileg skepna
Eftir um fimmtán mínútna viðureign, og allnokkrar öflugar rokur, landaði ég líklega stærsta silung sem ég hef veitt á flugu. Fiskurinn mældist 76 sentímetrar og vó sjálfsagt einhver 14-15 pund.

Að sleppingu lokinni  sagði ég gamla manninum að ég hefði lokið störfum en enginn sómi væri af því að ljúka kvöldinu á tölunni níu. Hann ætti auk þess eftir að fá einn stóran. Hann var varla búinn að fulllengja kastið þegar hann setti í vænan fisk. Á land kominn mældist sá 69 sentímetrar – glæsileg skepna. Tíu fiskar höfðu komið á land á rúmum tveimur tímum og frábær gæðastund okkar feðga að baki. Ég er enginn sérfræðingur í fluguveiði en get fyrir mína parta kvittað undir það og vottað, að dökkar flugur gefa vel í rökkri.

Baldur4

Comments

comments

Tags: ,


About the Author

Sendu okkur myndir! Ritstjórn Gripdeildar, sem samanstendur af þeim Jakobi og Mikael, óskar eftir því að fá sendar myndir, myndbönd og fréttir á netfangið ritstjorn@gripdeild.is.Back to Top ↑