Pistlar Torfi að raka jbg

Published on May 23rd, 2017 | by Ritstjórn

0

Minning – Torfi Geirmundsson

Einn helsti bakhjarl Gripdeildar, Torfi Geirmundsson rakari, er fallinn frá.

Torfi var ekki veiðimaður en pabbi annars ritstjóra Gripdeildar og mikill áhugamaður um vefinn okkar. Það er einmitt auglýsing frá honum hérna á vefnum. Hann rak Hárhornið við Hlemm og mun dóttir hans, Lilja Torfadóttir, reka stofuna áfram.

Við minnumst Torfa með söknuði. Stofa hans við Hlemm var svo miklu meira en „bara“ rakarinn á horninu. Stofnun.

Vissulega var Hárhornið kjaftaklöpp og blaðamenn sóttust eftir því að komast í stólinn hjá frásagnaglöðum Torfa. En Torfi var örlátur og hafði ríka réttlætiskennd. Til hans leituðu ekki síð- ur þeir sem eiga undir högg að sækja. Torfi gat reynst þeim vel; rukkaði fyrir klippinguna eftir efnum; boðinn og búinn að veita lið.

Ekki er ætlunin að teikna af honum helgimynd. Torfi hefði húmor fyrir því en kysi sannleikann. Hann var breyskur maður; ljóðelskur slarkari og kvennamað ur. Ég dáðist ætíð að óttaleysi hans við það hvað öðrum, einhverjum sem enginn veit hver er, kann að finnast um hitt og þetta. Torfi átti oft erfitt með að sætta sig við rétttrúnaðarríkið Ísland.

Furðu sætir hversu margir ólíkir þættir einkenndu Torfa. Torfi gat verið afskaplega fastur fyrir og erfiður þannig. Mikael sonur hans segir af því í Týnd í Paradís, hversu harður hann var á því að ekki mætti gefa fárveikum barnungum syni sínum blóð. Torfi var þá í Vottunum, hetja vegna einarðrar afstöðu sinnar en lenti fljótlega upp á kant við trúfélagið, lét seinna til sín taka í Ásatrúarfélaginu og gerðist síðar sérfróður um kínverska stjörnuspeki. Torfi var leitandi og vildi brjóta mál til mergjar. Þrjóskur en opinn fyrir nýjum möguleikum.

Margþættur. Ungur fór hann til sjós á varðskipum og var stoltur af þeim ferli. En, óvænt venti hann kvæði sínu í kross og gerist hárgreiðslumeistari. Saltstorkinn gekk hann inn í glys og glaum há- tískunnar eins og ekkert væri eðlilegra. Þar varð hann vel metinn; kennari og gegndi trúnaðarstörfum. Og pældi í faginu niður í kjöl því hann var grúskari.

Ég vil votta fjölskyldu Torfa samúð, Torfa verður saknað en minningin um margbrotinn, ævintýralegan og skemmtilegan mann lifir.

Jakob Bjarnar Grétarsson
(Þetta greinarkorn er lítillega breytt frá því það birtist sem minningargrein í Morgunblaðinu í síðustu viku).
MYND 2

Torfi Geirmundsson var virkur í íslensku samfélagi síðustu áratugi. Hér er hann að sjá um hárið í Þjóðleikhúsinu.

Útför Torfa fór fram í Árbæjarkirkju fimmtudaginn 18. maí 2017. Í athöfninni flutti Mikael, sonur hans, æviágrip sem hann skrifaði:

 

Æviágrip pabba

Torfi Geirmundsson var samkvæmt bræðrum sínum sléttir 179,5 sentímetrar berfættur. Hann var lengi vel tæp 77 kíló og fagur ásýndum, ilmaði unaðslega, jarpur á hár, eygður vel, bjartur og skarpleitur, með fagurt nef, slétt tannbit og mjúkt skarð í höku.

Torfi fæddist 19. desember árið 1950. Sonur hjónanna Geirmundar Guðmundssonar verkamanns og Lilju Torfadóttur verkakonu. Afi Geiri var kommúnisti en amma Alþýðuflokkskona. Pabbi lærði ungur að þegja þegar Einar Olgeirsson talaði í útvarpinu enda ólst pabbi upp við sárafátækt og foreldrar hans og hann voru ávallt tilbúinn til að rétta lítilmagnanum hjálparhönd og berjast fyrir réttlátara samfélagi.

Torfi gekk fyrst í Árbæjarskóla en það var lítill skóli og eldri nemendur voru sendir í Miðbæjarskóla. Fyrsta mánuðinn rugluðust skólayfirvöld á pabba og öðrum Torfa sem var af fínu fólki kominn. Pabbi var því í B-bekk fyrsta mánuðinn með fólkinu sem í dag á Ísland. Svo kom réttur Torfi frá útlöndum og ríku börnin þurftu ekki lengur að sitja við hlið fátæks alþýðupilts; hann var settur í tossabekk. Þar var hann þar til hann gufaði upp úr skrám skólans og fékk ekki inni í tossabekknum sínum eitt haustið. Þá reddaði amma honum plássi í Laugarnesskóla og þar var fólk betur undir búið og pabbi fór beint í tossabekk.

Í ár verður íþróttafélagið Fylkir fimmtugt. Afmælið er núna síðar í maí, eftir tíu daga. Pabbi var einn af stofnendum félagsins og sagði mér að í raun hefðu þeir strákarnir stofnað forvera Fylkis, KSÁ, Knattspyrnufélag Seláss og Árbæjar, 1961, þegar pabbi var ellefu ára. Þá æfðu Árbæingarnir með Fram og eftir fótboltaæfingar var hefð fyrir því að skorað var á strákana úr Árbæ að keppa við hina Framarana. Þannig varð Fylkir til.

Systkini pabba eru Sesselja Sigurrós en maður hennar er Vilhjálmur Pétursson og eiga þau tvo syni og fleiri barnabörn. Móses Guðmundur er elsti bróðir pabba en kona hans er Dóra Haraldsdóttir og eiga þau fjórar dætur og barnabörn. Ingibjörg Kristjana er önnur systir pabba en maður hennar er Sigurpáll Grímsson og eiga þau tvö börn og barnabörn. Þá er næst í röðinni Sædís Guðrún en maður hennar er Snæþór Rúnar Aðalsteinsson og eiga þau fjögur börn og barnabörn. Númi er næstur pabba í aldri og kona hans er Björg Jóhannesdóttir og eiga þau fjögur börn og barnabörn. Rúnar, útfararstjórinn okkar, er einnig bróðir Torfa og kona hans er Kristín Sigurðardóttir, þau eiga tvo syni og barnabörn. Elínborg er yngsta systirin en maður hennar er Sigfús Halldórsson og eiga þau fjögur börn og barnabörn.

Hálfsystir pabba var Guðrún, hún er látin, sem og eiginmaður hennar Guðmundur Heiðar Guðjónsson. Þau áttu eitt barn.

Sextán ára fór pabbi á sjó á varðskipinu Óðni. 1967 var hann háseti og hætti ekki fyrr en Ingvi bróðir fæddist árið 1970. Þá lærði hann hárskurð á Rakarastofunni við Klapparstíg. Torfi náði því fjörtíu og sjö árum í faginu og var stoltur af þeim árum. Frá 1975-1981 kenndi hann hárskurð í Iðnskólanum og kenndi einnig í Meistaraskólanum frá 1998-2000.

Torfi var alltaf óþekkur. Hann var með bæði meistararéttindi í hárskurði, rakarinn, og í hárgreiðslu. En hann átti ekki að fá meistarabréf í hárgreiðslu þrátt fyrir sveinspróf í faginu. Það þótti fáránlegt hér heima að afhenda slíkt einhverjum rakara. Á endanum snéri pabbi á kerfið á Íslandi og fékk meistararéttindi í Bretlandi en ráðuneytið hér heima viðurkennir þau réttindi. ,,Þær urðu alveg brjálaðar vinkonur mínar í félagi Hárgreiðslu- og hárskerameistara,” sagði pabbi mér kíminn í fyrra. Ánægður með sig.

Pabbi var alla tíð mikið í félagsstörfum. Fyrir nokkrum árum gegndi hann trúnaðarstörfum fyrir SÁÁ en ungur gekk hann í Fylkinguna og hann saknaði alltaf róttækrar vinstrimennsku. Hann fór í Keflavíkurgöngur og stríddi mér oft á því að ég væri helvítis Engeyingur í móðurætt. Pabbi var formaður Nemafélags í hárgreiðslu og hárskurði, hann sat í stjórn skólafélags Iðnskólans, í stjórn Iðnnemasambandsins og var ritstjóri Iðnnemans, hann var formaður Meistarafélags hárskera og Sambands hárgreiðslu og hárskerameistara, var alþjóðlegur dómari í hárgreiðslu frá 1986-1991 og var formaður í Meistarafélagi hárgreiðslu 2000-2002.

Fyrsta kona Torfa var Hulda Fríða Berndsen. Þau eignuðust saman Ingva Reyni en kona hans er Helga Oddný Hjaltadóttir. Saman eiga þau tvær dætur, þær Huldu og Bríeti. Svo kom ég, Mikael, en kona mín heitir Elma Stefanía Ágústsdóttir. Við eigum von á barni en ég á fyrir þau Gabríel, Kristínu og Jóel Torfa. Elma á fyrir hana Ísold. Lilja kemur næst en kona hennar er Guðbjörg Árnadóttir. Þær eiga börnin Elísabet, Alex og Felix.

Önnur kona Torfa var Dóróthea Magnúsdóttir. Fóstursonur pabba og sonur Dórótheu er Knútur Rafn Ármann. Kona hans er hún Helena Hermundardóttir en saman eiga þau börnin Dórótheu, Karítas, Matthías, Tómas og Arnald.

Þriðja kona Torfa var Margrét Kristín Pétursdóttir. Þau eiga saman soninn Tryggva Geir.

Þá á pabbi soninn Bashir sem er búsettur á Englandi og gat ekki verið með okkur hér í dag en skilar bestu kveðju. Kona hans er Gemma Crockford.

Pabbi okkar, tengdapabbi, fósturfaðir, afi, bróðir. Og svo framvegis. Torfi Geirmundsson var ólíkindatól. Fyrir mörgum áratugum komst hann upp á kant við Votta Jehóva, hann var um tíma í Ásatrúarfélaginu, yfirlýstur Taóisti og búddisti, sérfræðingur í kínverskri stjörnuspeki og með sinn eigin þátt um fegurð, heilsu og menningu á Útvarpi Sögu. Og svona mætti lengi telja.

Við nánustu aðstandendur Torfa viljum þakka systkinum hans og frændum okkar og frænkum og mökum þeirra fyrir aðstoðina við útför pabba. Okkar maður lifði lífinu einn dag í einu. Hann lagði bara inn á einhvern sem vantaði pening væri hann of múraður og þegar hann dó á aðfaranótt laugardags átti hann ekki einu sinni nóg fyrir kistunni. Og hann hefði haft gaman af því hann pabbi. Hann trúði ekki á auðsöfnun.

Síðustu ár rak Torfi Hárhornið við Hlemm. Hann var sterkur karakter og um leið og við systkinin vildum hafa þetta fallega athöfn þá vildum við líka að hún yrði í hans anda. Það er því við hæfi að spila bara uppáhaldslögin hans. Pabbi elskaði Megas og Rod Steward og Leonard Coen og íslensk skáld. Þegar hann lá banaleguna þá las ég fyrir hann hans uppáhaldsljóðabók, Illgresi eftir Örn Arnarson. Pabba þótti svo mikið til þessarar bókar koma að hann gaf mér hverja einustu útgáfu sem komið hefur út á íslensku.

Áður en við fáum að heyra í Leonard Cohen langar mig að lesa titiljóð bókarinnar.

Illgresi

Löngum er ég einn á gangi,

einkum þegar sólin skín.

Fáum kunn, á víðavangi

víða liggja sporin mín.

Eins og barn með blóm í fangi,

bróðir, kem ég inn til þín.

 

Undir heiðum himni og víðum

hvílíkt yndi að skemmta sér,

þegar blóm í brekku og hlíðum

brosa, hvar sem litið er.

En illgresið er oft og tíðum

yndislegast, sýnist mér.

MYND 7

Torfi rakari var háseti á varðskipinu Óðni áður en hann fór og lærði rakarann.

Eftir að Mikael flutti æviágripið var spiluð tónlist og Lilja, dóttir Torfa, flutti annað ávarp, en svo kom Mikael aftur og flutti þetta ávarp um pabba sinn:

 

Ávarp mitt við flutt útför pabba í dag

Við höfum ratað í vandræði mikil, pabbi.

Við höfum ratað í vandræði mikil.

Eg hefi ratað í vandræði mikil og drepið marga menn og vil eg vita hversu þú vilt vera láta, sagði Gunnar við Njál þegar honum voru nær allar bjargir bannaðar.

Njáll ráðlagði honum og Gunnar hlýddi ráðum hans ekki. Þegar hann var svo dæmdur til útlegðar verður honum litið upp til hlíðarinnar og bæjarins að Hlíðarenda. Þá mælti hann:

Fögur er hlíðin svo að mér hefir hún aldrei jafn fögur sýnst, bleikir akrar en slegin tún, og mun ég ríða heim aftur og fara hvergi.

Ger þú eigi þann óvinafagnað, sagði Kolskeggur bróðir hans, en Gunnar hlustaði ekki og bað Kolskegg að vera hjá sér.

Eigi skal það, sagði Kolskeggur, hvorki skal eg á þessu níðast og á engu öðru því er mér er til trúað og mun sjá einn hlutur svo vera; að skilja mun með okkur en seg það móður minni og frændum mínum að eg ætla ekki að sjá Ísland því að eg mun spyrja þig látinn frændi.

Við höfum ratað í vandræði mikil, pabbi.

Torfi Geirmundsson á Hárhorninu var eins og Gunnar Hámundarson á Hlíðarenda, forn hetja, sem gat ekki annað en haldið aftur út á vígvöllinn þrátt fyrir góð ráð. Sverð pabba og skjöldur var flaskan og glasið, barinn hans vígvöllur. Þar barðist hann til hinsta blóðdropa.

Fyrir tíu árum keyrði ég pabba á Vog. Hann fór inn alveg bugaður og kom endurnærður út. Við áttum svo góð ár saman pabbi. Og þú varst svo ánægður. Bjóst síðustu árin í kjallaranum á Hárhorninu og trúðir mér fyrir því að þér liði svo vel, eins og þú værir aftur kominn á sjó. Svafst niðri í gluggalausri káetunni og vannst uppi á dekki. Last þetta þrjár og fjórar og fimm og sjö bækur á viku niðri í koju.

Við rötuðum í mikil vandræði í Svíþjóð pabbi. Lögðumst í víking til að útvega nýja lifur en fengum svo höfnun. Þú spurðir mig hvort Rúnari bróður þínum væri ekki sama þótt þú myndir láta brenna þig þarna úti. Ég sagði þér að Ingvi myndi fara með þig heim. Hann kæmi og sæti með þér í sjúkraflugi. Þið gömlu varðskipsfélagarnir saman. Svo lofaði ég þér því að við systkinin myndum fara með þig vestur til mömmu þinnar og pabba. Ég veit að amma Lilja mun hugsa um þig og afi Geiri lítur eftir þér.

Þú varst alltaf með hjartað á réttum stað pabbi. En þú varst líka klikkaður. Fyrir þrem vikum fékk ég frá þér sms með mynd af stómapoka á maganum þínum. Karma? spurðirðu. Það þótti þér fyndið, því að þú varst engum líkur.

Pabbi kenndi mér óttaleysi og fór skrefinu lengra og kunni aldrei að skammast sín. Þess vegna átti hann alltaf erfitt uppdráttar í AA-samtökunum og þessum 12 sporum. Hann sótti fundi hérna í Árbæjarkirkju oft á mánudagskvöldum. Hollywood-fundurinn er hann kallaður sá fundur. Af því að hér hittast eftirlegukindur Hollywood-skemmtistaðarins þar sem pabbi hélt á sínum tíma hárgreiðslusýningar og skemmti sér.

Í AA og sporunum 12 var ætlast til þess að pabbi myndi iðrast. Fara niður á hnén. Hann kunni illa við það. Hann skyldi ekki af hverju hann ætti að iðrast og biðjast afsökunar. Honum fannst það of kristið því fornar hetjur iðrast ekki og biðjast aldrei fyrirgefningar. Þær eru heiðnar og geta ekki annað en staðið við eigin gjörðir. Þannig var pabbi og kannski varð það honum að falli.

En það varð Gunnari á Hlíðarenda líka að falli. Og Skarphéðni. Þetta eru tragískar hetjur, eins og pabbi, sannir garpar, eins og pabbi.

Deyr fé,

deyja frændur,

deyr sjálfur ið sama.

En orðstír

deyr aldregi

hveim er sér góðan getur.

Ef við bara mættum skála fyrir þér pabbi. En við getum það ekki. Læknarnir banna okkur það. Örlögin hafa hagað því þannig að við förum aldrei aftur í ríkið, svo ég vitni í Megas.

Orðstír þinn deyr aldrei, pabbi. Þótt þér hafi verið sama um hvað öðrum fannst.

Ég hef verið að segja fólki sögur af þér pabbi. Hvernig þú eyddir öllum peningunum þínum í aðra. Enda varstu kommúnisti í orði og á borði.

Í Svíþjóð fór þig svo að dreyma allar þessar helvítis eldhúsinnréttingar sem þú lést smíða í öll nýju húsin þín á níunda áratugnum. Þetta voru martraðir. Manstu þegar við keyptum hús Guffa bílasala og frændfólk okkar sagði okkur að fá okkur ekki kött því hann myndi týnast, húsið var svo stórt? Tvöfaldur ísskápur var sjaldséður árið 1987. Enn ein helvítis eldhúsinnréttingin.

Einu sinni kom ég að heimsækja þig í kjallarann undir Hárhorninu og þá varstu búinn að bora upp gamla eldhúsviftu á miðjan vegg. Ég spurði þig hvort svona viftur væru ekki hugsaðar til að setja fyrir ofan eldavél. Ég er að nota ljósið, sagðirðu.

Allt var hégómi og eftirsókn eftir vindi, sagðirðu stundum við mig pabbi þegar ég spurði þig út í meinlætalífið á Hárhorninu. Annars vitnaðirðu aldrei í Biblíuna.

Það er stundum sagt að það sé til fólk sem myndi gefa þér fötin sem þau stæðu í. Þetta er eiginlega alltaf lygi. Nema í tilfelli pabba. Hann var flókinn og erfiður oft. Ég skildi hann ekki alltaf en oft hringdi ég hræddur í hann og spurði hvort ég ætti að birta þessa grein, fara í þetta viðtal eða þora að gefa út þessa bók. Alltaf var hann jafn óhræddur.

Mikki minn, sagði hann, okkur er alveg sama hvað öðrum finnst.

Í hvern á ég að hringja núna þegar ég verð hræddur, pabbi?

Þetta er ekkert líf, sagði hann við mig í Svíþjóð, þegar hann var kominn með nóg af veikindum. Eru ekki sextíu og sex ár bara góður tími?

Jú, pabbi minn, sagði ég. Þú lifðir lífinu uppréttur og varst aldrei hræddur.

Hann hékk svona í handriðinu sem er á stöng á sjúkrarúmum. Með samanbitnar tennur og glotti oftast eða beit á jaxlinn. Ákveðinn í að brotna ekki. Hann var sárþjáður en brosti út í annað, alveg óhræddur.

Við rötuðum í mikil vandræði, pabbi. Aftur komnir á spítala eins og þegar ég var barn. Nema nú varst þú barnið og leist stundum á mig og sagðir eftir rannsóknir og próf: Má litli strákurinn þinn fá ís núna?

I am sorry for all the trouble, sagði pabbi svo við sænsku sjúkraliðana sem hjálpuðu okkur að komast á klósettið. Hann vildi ekki láta hafa of mikið fyrir sér.

Og einhvern tíma reyndi hann að syngja.

What are you saying Torfi? spurði uppáhaldssjúkraliðinn okkar, hann Pontus, ungur hommi.

Þegar þeir pabbi sáust fyrst var það ást við fyrstu sýn. Hommar voru útskúfaðir og útundan svo lengi í íslensku samfélagi og sænsku. En pabbi fann alltaf fyrir fordómaleysi hjá hommunum, vinum sínum. Þeir dæmdu hann aldrei og elskuðu skilyrðislaust. Og við pabbi elskuðum Pontus sem faðmaði okkur og knúsaði og hjálpaði okkur að takast á við allt þetta mótlæti sem við mættum úti.

Og pabbi hélt áfram að reyna að segja eitthvað og hvíslaði: I am singing.

Hvað ertu að segja pabbi? spurði ég.

Syngja, hvíslaði hann aftur.

He is singing, sagði ég Pontusi.

What are you singing? spurði Pontus.

Og svo reyndi pabbi aftur að hvísla; Goodbye my friend it’s hard to die.

Ég ætla að spila þetta lag fyrir ykkur rétt strax. Hlustið á textann.

En nú líkur þinni Íslendingasögu, pabbi. Og ef það er okkar karma, bróðir, þá sjáumst við í Valhöll. Og gerum þetta allt aftur. Og aftur. Og aftur. Og sjáum ekki eftir neinu.

Mikael Torfason

MYND 9

Ungur var Torfi fyrirferðarmikill í íslensku skemmtanalífi. Hér er hann að setja hárkollu á föður sinn, Geirmund Guðmundsson, á sviði á níunda áratugnum.

Comments

comments

Tags: ,


About the Author

Sendu okkur myndir! Ritstjórn Gripdeildar, sem samanstendur af þeim Jakobi og Mikael, óskar eftir því að fá sendar myndir, myndbönd og fréttir á netfangið ritstjorn@gripdeild.is.Back to Top ↑