Stangveiði Pres3

Published on May 26th, 2017 | by Ritstjórn

Guðsblessun í Presthvammi

eftir Baldur Guðmundsson

„Ég er trúleysingi,“ sagði ég á meðan ég fikraði mig yfir dýpsta vaðið neðan Kollsins í landi Presthvams, í Laxá í Aðaldal á fimmta tímanum á mánudag. Fast á hæla mér tiplaði prestur nokkur frá Ameríku, sem sagði, áður en við stigum út í straumharða ána, að hann hefði ekki gert sér aðrar vonir en þær að finna svæðið. Hann gerði sér engar grillur um að veiða fisk.

Sunnan strekkingur
Það var á mánudag sem við Gylfi Jón Gylfason, frændi minn og stórvinur, hreiðruðum um okkur í kofanum við bakka Presthvamms, sem er efsta veiðisvæðið neðan Laxárvirkjunar, að austanverðu. Við áttum vakt morguninn eftir, sem til stóð að ræki endahnútinn á fjögurra daga veiðitúr á norðausturhorni landsins. Við höfðum átt frábæra helgi í Lónsá á Langanesi, og Sandá/Brunná í Öxarfirði, með Matthíasi Þór Hákonarsyni hjá Icelandic Fishing Guide og vinafólki hans.

Til að auka á léttleika tilverunnar höfuðm við stungið úr nokkrum ísköldum á meðan við virtum fyrir okkur veiðisvæðið, sem hefur lengi verið okkar uppáhalds. Húsendur, straumendur, álftir í tugavís, lómar og gæsir glæddu ána óviðjafnanlegu lífi. Sunnanstrekkingur gerði það að verkum að vont var að sjá hvort fiskur bærði á sér.

Hvað viltu vita?
Skyndilega renndi bifreið í hlað og kaupandi seinnivaktarinnar þennan mánudag mætti á svæðið. Við áttum morguninn eftir. „Vitið þið eitthvað um svæðið?“ spurði maðurinn sem reyndist vera hinn kumpánlegasti Ameríkani. „Við vitum allt um svæðið!“ svaraði Gylfi Jón af sinni eðlislægu hógværð um leið og hann kynnti sig. Áralöng reynsla hefur kennt mér að áfengi er sjaldnast til þess fallið að draga úr sjálfstrausti frænda míns. „Hvað viltu vita?“ spurði hann.

Prest5

Eins og fram hefur komið lá sunnanvinstrengur eftir ánni en við slíkar aðstæður getur verið erfitt að lesa vatnið. Ég vildi síður senda manninn einan út. Eftir smá spjall bauðst ég til að klæða mig í vöðlur og fylgja prestinum um svæðið. Það þáði hann með þökkum.

Íslenskur vorvindur
„Þetta er dýpsti kaflinn,“ sagði ég við manninn, sem var heldur lægri en ég og allmikið léttari á fæti, þegar vatnið var farið að ná mér upp undir bringu. Ég sá á andliti hans að hann vonaði að svo væri.

Við óðum langleiðina upp að steini við Stekkjarvík og ég benti honum á hvar fýsilegast væri að byrja að kasta púpunum. Vindurinn gerði honum erfitt fyrir enda er nett fimma og fislétt flotlína ekki heppilegasti búnaðurinn til að kljúfa íslenskan vorvind.

Við fikruðum okkur upp eftir strengnum og spjölluðum um heima og geima. Ekki leið á löngu þar til fiskur beit á agnið og stöngin bognaði í keng. Baráttan stóð stutt yfir og fiskurinn, Doddi dyravörður, sleit sig lausan.

Presturinn ljómaði
Eftir drykklanga stund og nokkuð strembna baráttu við rokið bauðst ég til að vaða í land og sækja verkfæri sem betur væri fallið til þess að eiga við þessar aðstæður. Ég hafði fyrr um daginn keypt Nielsen-stöng númer átta, hjá Jónasi í Hlað, og hafði þungan sökktopp á flugulínunni. Ég hnýtti 14 punda taum á línuna og þungan Rektor á endann. Skothelt kombó í Laxá.

prest1

Þegar ég kom til baka sá ég að presturinn ljómaði eins og Íslendingur í röð fyrir utan Costco. Eða í tilfelli prests; eins og almættið hefði vitjað hans. Hann hafði í millitíðinni sett í fisk og landað honum. Ekki nóg með það, heldur var um að ræða stærsta fisk sem hann hefði nokkru sinni veitt. Fiskurinn var á að giska 45 sentímetra vel haldinn Laxárurriði.

Rektor á bólakaf
Hann var þó spenntur að prófa stærri stöng og straumflugu. Ég bauð honum að vígja stöngina mína sem hann þáði af auðmýkt. Honum sóttist nokkuð vel að kasta línunni með Nielsen-stönginni og varð strax var við fisk. Næsta kast fór þó ekki eins og til var ætlast. Ekki vildi betur til en svo að Rektorinn hafði kræktist í kinnina á guðsmanninum, sem kallaði óttasleginn á mig.

„Er þetta slæmt?“ spurði hann örvæntingafullur og færði hendurnar frá kinninni. Ég sá að þetta var mjög slæmt. „Nei, ekki svo,“ svaraði ég af uppgerðri yfirvegun. Ég klippti tauminn, sem hafði vafist um höfuðið, frá flugunni. Þegar því var lokið sá ég að okkar maður var orðinn fölur. „Ég held það sé að líða yfir mig,“ sagði hann og greip í mig.

Það er að líða yfir mig
Næstu sekúndur voru lengi að líða. Þar sem við stóðum í mittisdjúpu stórfljótinu sem Laxá er – þar sem snúið getur verið fyrir fullfrískan mann að fóta sig – rann það upp fyrir mér að ég gæti á allra næstu sekúndum staðið uppi með meðvitundarlausan prest í fanginu, til að koma í veg fyrir að hann beinlínis drukknaði. Það yrði mér líklega fullkomlega ofviða að vaða með manninn í land. Ég greip um prestinn, sem ítrekaði vanlíðan sína, og leit í kring um mig.

Steinninn í Presthvammi, sem ég hef hingað til notað til að leggja frá mér veiðistöngina á meðan ég létti á mér, eða til að mynda fallega bráð, varð skyndilega eins og vin í eyðimörkinni. Við fikruðum okkur þangað og presturinn hélt meðvitund. Hann settist á steininn.

„Ég ætla að hringja í Gylfa Jón,“ sagði ég og tók upp símann. „Hann hefur ráð undir rifi hverju.“ Fyrst bað ég frænda að koma út í og hjálpa mér að styðja manninn í land en áður en til þess kom hafði presturinn náð áttum og gat vaðið með mér einum í land.

Klippi Rektorinn í sundur
Á bakkanum tók Gylfi Jón á móti okkur og sagði af hógværðinni (sem er í aðra röndina eðlislæg en hann hafði einnig áunnið sér í veiðikofanum) að við svona vandamál hefði hann oft fengist. Ef við fyndum réttu verkfærin væri þetta hreinn hægðarleikur. Mér varð ekki um sel þegar hann fór að lýsa fyrir prestinum, sem hélt um það litla sem út úr andlitinu stóð af þyngdum Rektor, hvernig hann hygðist fara að. „Ég klippi Rektorinn í sundur með töng og dreg hann út um nýtt gat á kinninni.“

prest4

Ég horfði tortrygginn á frænda minn sem kinkaði kolli. Það er engin tilviljun að hann er sálfræðingur en ekki skurðlæknir. „Ég get líka farið með þig til læknis,“ sagði ég við Ameríkanann.

Vont í fimm sekúndur
Áður en ég vissi af stóð Gylfi Jón úti á grasbletti við kofann, með Letherman-töng í annarri og stól í hinni. „Sestu hér,“ sagði hann og bætti við, eins og til að sprengja öfugmælaskalann. „Þetta verður ekkert mál!“

Presturinn fékk sér sæti og bað um að fá að heyra aftur hvernig farið yrði að, svona til öryggis. Töngin fór á loft og Rektorinn var með nokkru afli klipptur í sundur, eins og til hafði staðið.

„Þetta verður bara vont í fimm sekúndur,“ sagði frændi af fádæma sannfæringu. Sem betur fer trúði þriðjungur viðstaddra þessari staðhæfingu.

Það verður að gefa sálfræðingnum það að hann leysti málið eins og sannur skurðlæknir. Í stað þess að reyna að draga öngulinn með agnhaldinu til baka þræddi hann krókinn sem leið lá út í gegn um kinnina á nýjan leik, án þess að presturinn kveinkaði sér að nokkru marki.

Blessaðir Íslendingarnir
Hann var eins og uppbótarþingmaður daginn eftir kosningar, presturinn sem spígsporaði um grasið eftir að honum var tilkynnt að aðgerðinni væri lokið og hann væri laus við öngulinn úr andlitinu. Glaðari mann hef ég ekki augum litið lengi.

Hann þakkaði okkur hrærður fyrir aðstoðina og hélt stutta messu fyrir okkur báða. Hann þakkaði okkur innilega fyrir góðverkin og tók sérstaklega fram að hann blessaði veiðistangirnar okkar og búnað allan. Svo settist hann upp í bíl og ók á brott. „Hefurðu gert þetta áður?“ spurði ég frænda þegar við horfðum á eftir bílnum. „Aldrei,“ svaraði hann.

Veisla á síðkvöldi
Við frændi nýttum tækifærið og fengum leyfi til að byrja fyrr að veiða en til hafði staðið. Klukkan var rúmlega átta að kvöldi þegar við Gylfi Jón óðum út í Laxá fyrir landi Presthvamms, á sama stað og við höfum gert undanfarin átta ár.

Hann hlýtur að hafa náð sambandi við Húbertus veiðiguð, presturinn frá henni Ameríku, þegar hann ákallaði almættið áður en hann hélt sína leið. Við vorum ekki búnir að veiða nema stutta stund þegar vindinn lægði. Í um fimmtán stiga hita og logni settum við frændi í hvern fiskinn á fætur öðrum. Við höfðum dregið 12 urriða á þurrt og misst að lágmarki tvöfalt það magn, þegar klukkan sló tíu. Í rúmlega einn og hálfan tíma upplifðum við veislu eins og hún gerist best á fallegu sumarkvöldi í Laxá. Og það í maí!

Morguninn eftir eymdi enn af blessun prestsins því ég landaði sjö fiskum til viðbótar, á tæpum tveimur tímum, á meðan frændi undirbjó heimferðina. Sá stærsti var fullir 59 sentímetrar en hápunkturinn var þó þegar ég veiddi mína aðra bleikju í ánni, skammt frá þeim stað sem ég veiddi mína fyrstu bleikju í Presthvammi, árið 2009.

Ég er enn trúleysingi og verð líklega um alla ævi. En prestinum geðþekka frá Ameríku færi ég mínar bestu þakkir fyrir blessunina og ógleymanlegar minningar úr vorferðinni í Presthvamm.

prest2prest2

Comments

comments

Tags: , , , ,


About the Author

Sendu okkur myndir! Ritstjórn Gripdeildar, sem samanstendur af þeim Jakobi og Mikael, óskar eftir því að fá sendar myndir, myndbönd og fréttir á netfangið ritstjorn@gripdeild.is.Back to Top ↑