FLUGUFÓTUR Hlíðarvatn í Selvogi

Published on June 14th, 2017 | by Sigurgeir Sigurpálsson

0

Hlíðavatnsdagurinn 2017

Fyrsta veiðiferð mín í ár var í Hlíðarvatn í Selvogi. Ég hef verið eitthvað latur að koma mér í gang í sumar og oft verið upptekinn og ekki komist. Þannig að þegar ég heyrði Hlíðarvatnsdaginn nefndann tók ég hann frá í dagatalinu mínu. Ég hreinlega yrði að komast. Ég er enginn fastagestur þar. Þvert á móti þá hafði ég bara einu sinni veitt þarna áður og það var Hlíðarvatnsdagurinn í fyrra. Þá núllaði ég meðan mér fannst allir í kringum mig vera að fá fisk. Það var mjög svekkjandi en dagurinn var fallegur og vatnið er alveg ótrúlega fallegt þannig að ég varð að komast aftur. Í þetta skiptið skildi vatnið sigrað og ég ætlaði að koma heim með bleikju á grillið.

Aldrei fara plön eins og gert er ráð fyrir

Ég ætlaði að vakna snemma og ná morgunveiðinni því leikur Íslands og Króatíu í fótbolta var um kvöldið og mig langaði að sjá hann. Því var kvöldveiði út úr myndinni. En auðvitað svaf ég miklu lengur en ég ætlaði mér. Ég kom á staðinn rétt eftir hádegi og hitti þar félaga minn og nokkra veiðimenn sem sögðu að lítið væri að gerast. Fáir fiskar komið á land en eitthvað líf virtist vera við brúnna. Ég fékk mér pylsu og pönnsu í boði Ármenninga og svo dreif ég mig af stað að brúnni og græjaði mig. Stuttu eftir að ég var kominn á álitlegan stað í vatnið varð ég var við líf þegar bleikja bylti sér nærri mér. Ég kastaði á hana nokkrum sinnum en ekkert gekk.

Náði í skottið á henni

Ég mundi eftir því að margir voru að tala um að bleikjan væri að taka svo grannt að maður tæki varla eftir því. Ég ákvað því að skipta um flugu. Tók af venjulega peacockinn og setti á annan með appelsínugulum kúluhausi og appelsínugulu skotti. Mín reynsla hefur verið sú að skottið gerir oft gæfumuninn. Það er eins og fiskurinn taki fluguna lengra upp í sig þegar flugan er með skott og hann ætlar að “bragða” á henni. Eftir aðeins 3 köst þá fékk ég mjög ákveðið högg og hún var á. Bleikjan var enginn risi eins og algengt er þarna í Hlíðarvatni en alveg fín á grillið. Ég barðist við hana dágóða stund og náði að landa henni. Hún vóg 0.8 kíló og vel í holdum. Þetta var flott hrygna sem ég var feginn að fá því nú var vatnið sigrað og ég kominn með eitthvað á grillið. Ég varð svo ekkert meira var og þar sem ég mætti svo seint í vatnið þurfti ég fljótlega að pakka saman og fara heim að horfa á leikinn og þar sem Ísland sigraði þá var þetta alveg fullkominn dagur fyrir mig. Ég mun klárlega fara aftur í Hlíðarvatn í Selvogi.

Comments

comments


About the AuthorLeave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Back to Top ↑