Eldað í úthverfinu

Danskt (hreindýra) buff

Játning: Ég á alltaf alltof mikið af hreindýrahakki í frysti og ég er ekkert sérstaklega dugleg að nota það.

En í kvöld langaði mig í gamaldags hakkabuff með brúnni sósu og nýjum íslenskum kartöflum og í staðinn fyrir að nota hina hefðbundnu hakkblöndu með nauta- og svínahakki notaði ég hreindýrahakk.

Þetta er samt ekkert venjulegt buff því að ég set í hakkið saxaðar niðursoðnar rauðrófur, kapers og lauk; þessi snúningur virkar alveg svakalega vel með kjötinu og meira að segja maðurinn minn sem hatar rauðrófur elskar þetta.

Að nota hreindýrahakkið í þennan gamla rétt opnaði alveg nýja möguleika og þetta buff er komið á matseðil fjölskyldunnar svo lengi sem það er til hreindýrahakk í frysti.

Danskt hreindýrabuff

 

800 gr hreindýrahakk

1 egg

2 msk hveiti

1 rauðlaukur saxaður smátt

nokkrar sneiðar af niðursoðnum rauðrófum saxaðar smátt

1 -2 msk kapers, aðeins marin

gott flögusalt

nýmalaður pipar

olífuolía

smjör

 

Hrærið vel saman hakki, eggi og hveiti. Saltið vel og piprið. Það er alveg óhætt að salta vel og pipra. Hreindýrakjöt þolir það mjög vel.

Hrærið vel saman við deigið kapers, rauðrófum og lauk. Mótið vegleg buff.

Hitið ólífuolíu á pönnu á háum hita og brúnið buffin vel á báðum hliðum, saltið aðeins yfir.

Bætið smjörklípu á pönnuna og leyfið buffunum aðeins að krauma í smjörinu. Skellið síðan pönnunni eða setjið buffin í eldfast form og setjið í 180° heitan ofn og klárið að elda buffin, ca. 10-15 mínútur.

Bakið upp góða sósu að eigin vali (á pönnunni) og nýjar íslenskar kartöflur og góð bláberjasulta er skilyrði.


Grafinn lax

Að grafa sinn eigin lax er góð skemmtun og alveg súper einfalt. Um daginn fékk ég nokkra væna laxa og einn frekar smáan. Ég skutlaði stóru fiskunum í reyk en litla fiskinn, sem hefur sennilega verið svona um 7 pund, ákvað ég hinsvegar að grafa í mínu eigin eldhúsi.

„Þetta er besti graflax sem ég hef smakkað,“ malaði maðurinn minn þegar ég skar hann niður og færði honum hann með ristuðu brauði og graflaxsósu þremur dögum síðar.

Oddný grafinn lax3

Tvö laxaflök, beinhreinsuð

3   msk þurrkað dill

1   msk dill fræ

1/2 msk fennelfræ

1/2 mtsk sinnepsfræ

1/2 msk kóríanderfræ

1   tsk mulin pipar pipar

2   msk gott flögu salt

1   msk sykur

Oddný grafinn lax2

Mortel er nauðsynlegt í eldhús allra matgæðinga.

Allt sett í mortel og steytt vel saman.

Berið blönduna á flökin og þekið vel. Pakkið þeim síðan vel inn og setjið í kæli í 2-3 daga.

Þegar bera á laxinn fram skafið mesta kryddið af honum og sneiðið niður. Laxinn geymist í nokkra daga í ískáp en ég mæli með því að frysta hann ef þið ætlið ekki að borða hann strax.

Góð graflax sósa, gott hunangssinnep eða piparrótarjómi er nauðsynlegur með laxinum hvort sem þið eruð með grafin eða reyktan lax.


Fyrsti lax sumarsins eldaður að hætti hússins

Oddný og Hilmar

Hilmar og Oddný

Það er alltaf tilhlökkunarefni þegar fyrsti lax sumarsins kemur í hús. Og þegar Norðurá gaf okkur tvo nýgengna og silfraða smálaxa í byrjun júní var slegið upp veislu. Við hérna í úthverfinu erum fólk hefða, það er matarhefða og fyrsti lax sumarsins er alltaf eldaður upp á gamla mátann. Hreinsaður vel og þverskorinn og soðin í vel söltu vatni með piparkornum, lárviðarlaufum og ediki. Með honum eru síðan bornar fram soðnar kartöflur, tómatar, agúrkur og heitar sveskjur og mikið af bráðnu íslensku smjöri. En þar sem við vorum með tvo laxa ákvað ég að marinera hinn og grilla síðan.  Ég var með tvo 5 punda laxa og pössuðu þeir fullkomlega fyrir 7 manns með meðlæti.

 

Grillaður lax með sítrónugrasi, chili og kóriander

2 stilkar sítrónugras

hálf flaska  Teriaky  sósa

eitt búnt af fersku kóriander. Stilkarnir teknir frá og skornir fínt, blöðin geymd.

góður biti af ferskum engifer, fínt rifin

4 hvítlauksrif, pressuð

1 tsk sesamolía

4 matskeiðar fljótandi hunang

2 rauð chili, fæhreinsuð og sneidd fínt

2-4 vorlaukar, sneiddir fínt

2 líme ávextir

2 laxaflök, beinhreinsuð og snyrt

FullSizeRender

 

Fínsaxið sítrónugrasið og blandið saman við teriaky sósuna, hvítlaukinn, engiferið, sesamolíuna og stilkana af koríandernum.

Takið flökin og nuddið marineringunni vel á flökin og setjið í poka eða í fat með filmu yfir, látið standa í 1 klukkutíma eða lengur. Hitið grillið í ofninum á hæsta hita og þegar ofninn er orðin heitur takið þá flökin úr marineringu og penslið með hunanginu. Grillið í 10 mínútur.

Þegar fiskurinn er klár, færið hann yfir á bretti og losið aðeins í sundur. Stráið korianderlaufum, chili og vorlauk yfir flökin og kreistið að lokum lime-safa yfir allt. Það er ekki verra að skella honum á útigrill og þennan er nóg að bera fram með góðu salati .

Það þarf ekki að flækja þetta neitt frekar en uppskriftina sem er súper einföld en alveg brjálæðislega góð.

IMG_3942

Gamaldags soðin lax með smjöri

5-6 svört piparkorn

2-3 lárviðarlauf

2 tsk edik ( má vera hvítvínsedik eða borðedik)

salt

Hreinsið fiskinn vel að innan og skerið í fiðrildi ( þverskorin). Setjið piparkorn, edik, lárviðarlauf og vel af flögusalti í pott og náið upp suðu.

Þegar vatnið bullsýður setjið laxinn í vatnið, látið suðuna koma upp aftur og slökkvið svo undir pottinum. Látið laxinn liggja í vatninu í 10 mínútur og færið hann þá upp.

Berið fram með soðnum kartöflum, tómötum, agúrkusneiðum, sítrónubátum, bráðnu smjöri og heitum sveskjum.

Oddný MagnadóttirComments are closed.

Back to Top ↑
 • Oddný

  Oddný
 • Oddný Magnadóttir er veiðimönnum góðkunn en hún átti og rak veiðibúðina Veiðiflugur um árabil ásamt eiginmanni sínum Hilmari Hanssyni.

  Í eldhúsinu leikur allt í höndum Oddnýjar en hún hefur sérhæft sig í því að elda veiðibráð. Hún býr við það að eiginmaður hennar er forfallinn veiðimaður og hefur verið um áratugaskeið. Hilmar hefur mætt reglulega í hús með veiðibráð sem Oddný hefur tekið til kostanna og matreitt af stakri snilld.

  Oddný hefur glatt, sem og pínt í senn, vini sína á Facebook með því að segja þeim undan og ofan af stórkostlegum veislum sem hún hefur hrist fram úr erminni og sýnt þeim myndir af dýrindis kræsingum, ekki síst veiðibráð sem hún hefur galdrað fram í eldhúsi sínu.

  Og nú fá lesendur Gripdeildar sýnishorn því hér ætlar Oddný að birta af og til ýmsar uppskriftir sínar. Þá má og geta þess að Oddný sjálf er auðvitað þaulvanur veiðimaður.

 • Nýjustu fréttir