Flugfótur

Hlíðavatnsdagurinn 2017

Fyrsta veiðiferð mín í ár var í Hlíðarvatn í Selvogi. Ég hef verið eitthvað latur að koma mér í gang í sumar og oft verið upptekinn og ekki komist. Þannig að þegar ég heyrði Hlíðarvatnsdaginn nefndann tók ég hann frá í dagatalinu mínu. Ég hreinlega yrði að komast. Ég er enginn fastagestur þar. Þvert á móti þá hafði ég bara einu sinni veitt þarna áður og það var Hlíðarvatnsdagurinn í fyrra. Þá núllaði ég meðan mér fannst allir í kringum mig vera að fá fisk. Það var mjög svekkjandi en dagurinn var fallegur og vatnið er alveg ótrúlega fallegt þannig að ég varð að komast aftur. Í þetta skiptið skildi vatnið sigrað og ég ætlaði að koma heim með bleikju á grillið.

Aldrei fara plön eins og gert er ráð fyrir

Ég ætlaði að vakna snemma og ná morgunveiðinni því leikur Íslands og Króatíu í fótbolta var um kvöldið og mig langaði að sjá hann. Því var kvöldveiði út úr myndinni. En auðvitað svaf ég miklu lengur en ég ætlaði mér. Ég kom á staðinn rétt eftir hádegi og hitti þar félaga minn og nokkra veiðimenn sem sögðu að lítið væri að gerast. Fáir fiskar komið á land en eitthvað líf virtist vera við brúnna. Ég fékk mér pylsu og pönnsu í boði Ármenninga og svo dreif ég mig af stað að brúnni og græjaði mig. Stuttu eftir að ég var kominn á álitlegan stað í vatnið varð ég var við líf þegar bleikja bylti sér nærri mér. Ég kastaði á hana nokkrum sinnum en ekkert gekk.

Náði í skottið á henni

Ég mundi eftir því að margir voru að tala um að bleikjan væri að taka svo grannt að maður tæki varla eftir því. Ég ákvað því að skipta um flugu. Tók af venjulega peacockinn og setti á annan með appelsínugulum kúluhausi og appelsínugulu skotti. Mín reynsla hefur verið sú að skottið gerir oft gæfumuninn. Það er eins og fiskurinn taki fluguna lengra upp í sig þegar flugan er með skott og hann ætlar að "bragða" á henni. Eftir aðeins 3 köst þá fékk ég mjög ákveðið högg og hún var á. Bleikjan var enginn risi eins og algengt er þarna í Hlíðarvatni en alveg fín á grillið. Ég barðist við hana dágóða stund og náði að landa henni. Hún vóg 0.8 kíló og vel í holdum. Þetta var flott hrygna sem ég var feginn að fá því nú var vatnið sigrað og ég kominn með eitthvað á grillið. Ég varð svo ekkert meira var og þar sem ég mætti svo seint í vatnið þurfti ég fljótlega að pakka saman og fara heim að horfa á leikinn og þar sem Ísland sigraði þá var þetta alveg fullkominn dagur fyrir mig. Ég mun klárlega fara aftur í Hlíðarvatn í Selvogi.


Laxaháf í jólagjöf takk!

Ég fór með nokkrum vinnufélögum mínum í Ytri Rangá um daginn. Ferðin byrjaði mjög vel og ég kominn með fisk í öðru kasti. Eitthvað furðulegt var við tökuna og hvernig fiskurinn hegðaði sér en mér tókst að landa honum og sá að hann var húkkaður í sporðinn. Það útskýrði margt. Við byrjuðum við Stallmýrarfljót og þar var fullt af fiski. Mikið líf og fiskur að stökkva. Við byrjuðum veiðarnar klukkan átta um morguninn og þó það væri dálítið kalt þá var fiskurinn greinilega í tökustuði. Félagi minn landaði öðrum stuttu seinna og við misstum nokkra í viðbót. Þetta leit bara gríðarlega vel út. En um 10 leytið þá hætti fiskurinn að stökkva og við urðum ekki mikið meira vör. Fiskarnir sem komu á land voru ekki stórir. Minn var 1.3 kíló og 53 cm en það voru stærri fiskar að stökkva þarna.

Fyrri laxinn í Ytri Rangá

Næsta vakt líka góð

Klukkan tvö voru vaktaskipti og við fórum á næsta svæði fyrir neðan. Þar sáum við aftur laxa stökkva og reyndum hvað við gátum við þá. Okkur tókst að ná örfáum á land en ég landaði einum í Hellisey sem tók rauða frances. Sá var litlu stærri en hinn eða 1.6 kíló og 55 cm.

Seinni laxinn í Ytri Rangá

Ég færði mig svo að Gaddastaðabreiðu. Þar setti ég í einn fisk sem virkaði stærri en hinir. Ég barðist við hann í nokkrar mínútur en því miður missti ég hann án þess að sjá hann. Ég hef því ekki góða hugmynd um stærðina á honum og auðvitað virkar hann stærri í minningunni. En félagi minn kom til mín og setti fljótlega í annan og landaði honum. Sá tók maðk og gjörsamlega kokgleypti hann. Við þurftum nánast að skera hann upp til að ná önglinum úr honum. Við sáum fiska stökkva og greinilegt að áin er stappfull af fiski. Hann var samt ekki duglegur að taka þennan tíma sem við vorum þarna. Ef þetta hefði verið nýgenginn fiskur er ég hræddur um að við hefðum verið í mokfiskeríi þarna. En ég reyndi aftur fyrir mér þarna og setti í einn vænann. Ég myndi giska á að hann hafi verið 7-8 pund en fæ það því miður aldrei staðfest. Ég barðist við hann í rúmar 10 mínútur. Hann var ekki á því að gefa sig og virtist alltaf eiga nóg eftir. En svo virtist hann vera að gefa sig. Ég stýrði honum að bakkanum þar sem ég bjóst við að félagi minn myndi sporðtaka fiskinn og fara með í land. En það var smá misskilningur hjá mér og honum sem fer í reynslubankann. Alltaf vera viss um hvað hinn ætlar að gera og við hverju hann býst af mér áður en nokkuð er gert. Hann ætlaði hins vegar að setja báðar hendur undir fiskinn og vippa upp á bakkann. Bakkinn var því miður hár og brött brekka niður hann þannig að fiskurinn endaði í miðri brekku og félagi minn reyndi að vippa honum hærra en fiskurinn rann niður í ánna og synti í burtu. Ég varð rosalega svekktur á þessu og sagði að ég ætlaði sko aldeilis að setja laxaháf á óskalistann yfir jólagjafir í ár. Þetta var ekki grátið lengi heldur bara farið beint í að veiða aftur. En því miður gerðist ekkert meira hjá mér þennan daginn.

Lengst upp í tré

Alveg í lokin á vaktinni fékk annar félagi okkar fisk og þurfti aðstoð við að landa honum. Félagi minn kom honum til bjargar og enn með fulla trú á vipptækninni. Í þetta skiptið skildi hún ekki mistakast. Eftir að laxinn var orðinn vel þreyttur þá kom félagi minn sér fyrir og fór með hendurnar undir fiskinn. Svo vippaði hann honum upp á bakkann vel og rækilega. Bakkinn var mun lægri og trjágróður aðeins inn á bakkanum. Laxinn var líka mun minni en sá sem ég missti en félagi minn notaði aflið sem hefði þurft á minn fisk í þeim aðstæðum sem sá fiskur var í. Það þýddi í þessu tilviki að laxinn flaug vel upp á land og upp í tré. Við hlógum að þessu og lærðum þá lexíu að það er aldrei hægt að koma laxi of langt upp á land.

Næsti dagur vonbrigði

Daginn eftir fórum við á næsta svæði og þar sá maður varla fisk. Einn til tveir stukku og einhverjir skuggar sáust hér og þar en þennan dag var svæði tvö nánast alveg dautt. Einum félaga mínum tókst að særa upp fisk á þessu svæði en annars var lítið hægt að gera en að njóta náttúrunnar og halda í vonina. Við vaktaskiptin fórum við á neðsta svæðið þar sem heitir Djúpós og þar höfðu margir fiskar komið upp undanfarna daga. Við vorum því öll bjartsýn á að nú kæmu laxar á land. Ekki gekk það eftir hjá mér. Ég setti í einn fisk sem losaði sig ansi fljótt. En þarna var allt morandi í fiskum. Þeir voru að stökkva í sífellu en ekki gekk okkur vel að særa þá upp. Það komu bara 2 fiskar á land hjá okkur í Djúpósnum og 2 fiskar á öðrum stöðum. Það var samt spenna allan tímann því alltaf sá maður hann stökkva út um allt en stundum þá bara vill hann ekki taka. Dagurinn varð því mikil vonbrigði fyrir mig en ferðin sem slík var frábær og alltaf gaman að koma heim með fiska. Það kom enginn risafiskur á land hjá okkur í þessari ferð og lítið markvert gerðist. Þó setti einn félagi minn í risastóran fisk á tvíhenduna sína sem kengbognaði svo svakalega að það fór ekki á milli mála að þarna væri hann með stórfisk. Þetta gerðist í Djúpsónum en því miður þá missti hann fiskinn eftir freka stutta viðureign.

Skilgreiningarvandamál

Eftir sit ég samt með skilgreiningarvandamál. Fiskurinn sem ég missti í löndun kom á land. Á ég að flokka hann sem veiddur/sleppt eða missti ég hann bara? Ég held að það verði áhugaverð umræða en staðreyndin er sú að ég ætlaði ekkert að sleppa honum og því missti ég hann en ég kom honum á land þannig að ég landaði honum líka.


Einn dagur í Eystri

Laugardagskvöldið 10. september sat ég í rólegheitunum að horfa á sjónvarpið. Ég sá Facebookskilaboð koma upp á skjánum á símanum mínum. Ég tékkaði á þeim og þar var Jói félagi minn að athuga með mig. Ég hélt að hann væri kannski að spá í hvort ég vildi kíkja á djammið eða í bíó en klukkan var orðin helst til margt a.m.k. fyrir fjölskyldufeður eins og okkur. En hann spurði mig hvort ég kæmist með honum í Eystri Rangá daginn eftir. Ég rauk til og spurði foreldra mína hvort þau gætu séð um börnin mín meðan ég færi í laxveiði og mútaði þeim með loforði um reyktan lax um jólin og svoleiðis. Það gekk upp blessunarlega og ég staðfesti við Jóa að ég kæmist með honum. Ég dreif mig í búð og keypti nesti og þegar ég kom úr búðinni tók ég til veiðidótið. Flýtirinn á mér var svo mikill að ég var eiginlega með hnút í maganum yfir því að ég myndi örugglega gleyma einhverju. En ég fór yfir þetta 20 sinnum og var alveg viss um að allt væri klárt. Planið var að ég myndi sækja Jóa klukkan sjö morguninn eftir. Ég fór því snemma að sofa.

Áin eins tær og hún getur orðið

Það var skýjað en sæmilega hlýtt á sunnudagsmorguninn þegar ég sótti Jóa. Jói var tilbúinn og við brunuðum af stað. Þegar við keyrðum yfir Eystri Rangá sáum við að hún var frekar tær og þá sérstaklega miðað við rigningarnar dagana á undan. Við fórum að Dýjanesstreng og skoðuðum ánna. Áin var tær en samt þannig að erfitt var að sjá hvort það væru fiskar þarna. Rangárnar verða bara aldrei þannig að maður sjái alveg niður í botn. Svo voru laxarnir ekkert að stökkva og ekkert að bylta sér þannig að við vorum svolítið í því að giska hvar fiskurinn væri. Við byrjuðum að veiða frá sleppitjörninni og alveg niður að girðingu. Skiptum um flugur og breyttum inndrættinum en ekkert gekk.

Laxinn er þarna

Loksins fórum við að sjá hann stökkva og enga smá bolta. Það er rosalegt magn af stórfiski í ánni og adrenalínið fór á fullt. Þá rak ég augun í nokkra fiska í hvítfyssinu rétt fyrir neðan sleppikistuna sem er þarna. Ég reyndi að kasta á þá á alla vegu en ekkert gekk. Ég sá þarna einn sem var örugglega 15 pund ef ekki stærri og ég bauð honum allt. Ég bauð honum ýmsar flugur og bar þær að honum á ýmsa vegu. Svo kom að því að ég prófaði mjög lítinn rauðan Frances með gullþríkrækju. Ég renndi flugunni í fyssið og straumurinn tók fluguna eitthvað niður í dýpið þannig að ég sá hana ekki lengur en ég sá að loksins færði laxinn sig og í humátt á eftir flugunni. Allt í einu fann ég kipp og að fiskur var á. Svo sá ég lax sem var bara 3 pund. Hann var á hjá mér. Tilfinningarússíbaninn var á fullu. Ég hugsaði fyrst að ég hefði sett í 15 pundarann og var yfir mig glaður, svo sá ég að þetta var 3 pundarinn og ég varð ofsalega svekktur en svo varð ég aftur hrikalega glaður að vera með lax á. Þessar tilfinngar ruku í gegnum mig á nokkrum sekúndum.

Minni laxinn

Laxinum landað og útlitið bjart

Ég elti laxinn sem fór upp ánna og í djúpan hyl rétt fyrir ofan sleppikistuna. Þar tókst mér að þreyta hann við þægilegar aðstæður. Hann barðist hressilega um en að lokum gaf hann sig og ég strandaði honum í þægilegri sandströnd þarna við bakkann. Við höfðum verið í 4 tíma við veiðar og loksins landað fiski. Jói hafði fengið þungt högg hálftíma áður en annars var ekkert búið að gerast. Nú var von að það myndi rætast úr þessu. Við vissum núna hvar a.m.k. nokkrir laxar héldu sig. Við köstuðum aðeins lengur á þá en svo var kominn tími á hádegismat. Eftir hádegismatinn ákváðum við að skoða fleiri staði og athuga hvort við sæjum einhverja laxa.

Alveg grænir

Við keyrðum á nokkra veiðistaði sem margir hverjir voru fallegir og veiðilegir en hvergi sáum við fisk. Hvergi var hann að stökkva og við gátum engan veginn séð þá í ánni. Vonir okkar um að geta séð laxa í óvenjutærri ánni voru brostnar. Hún var samt nógu gruggug til að ómögulegt væri að sjá niður á botn þar sem laxarnir héldu sig þennan daginn. Við köstuðum á alla veiðilega staði, reyndum margar flugur og alls kyns inndrætti en ekkert gerðist. Eftir nokkra tíma ákváðum við að fara aftur í Dýjanesstreng og reyna við laxana sem við vissum um. Þegar við komum þangað var áin búin að hreinsa sig nógu mikið til að við sæjum niður á botn á hylnum þar sem ég þreytti fiskinn minn. Þvílík dýrðarsjón var þar. 10-15 stórlaxar og slatti af minni voru þarna á ferli. Við sáum ekki nógu greinilega til að geta talið þá nákvæmlega en nógu vel til að sjá að þeir voru í það minnsta þetta margir. Þarna lá hann í frekar lygnu vatni og hvíldi sig. Hann var ekkert að líta við flugunum okkar og við reyndum gjörsamlega allt. Að lokum setti ég Iðu á og fór aftur í hvítfyssið þar sem ég setti í minn fisk og slakaði flugunni í það. Svo strippaði ég hratt inn. Ég gerði þetta nokkrum sinnum og þá var flugan negld. Stórlax var á og hann barðist af öllum kröftum. Ég sá strax að hann var talsvert leginn en hann var samt mjög kröftugur. Hann gerði það sama og sá fyrri og rauk upp í hylinn þar sem hinir biðu og einhver barningur varð þar og tvístruðust laxarnir í burtu nema sá sem ég barðist við. Hann synti fram og til baka þarna í hylnum og bylti sér og gerði allt til að losa sig nema að stökkva. Ég var heillengi að landa honum en það tókst að lokum og það með dyggri aðstoð Jóa sem háfaði hann upp þegar laxinn gaf færi á sér við sandströndina. Hann átti eitthvað eftir en hann bauð svo rækilega upp á að vera háfaður að Jói greip tækifærið.

Stóri laxinn

Stærsti lax ævi minnar

Þessi lax reyndist vera 89cm og 7.4 kíló. Það er langstærsti lax sem ég hef veitt á ævi minni og ég var alveg í skýjunum. Ég hef ekki gríðarlega reynslu af laxveiðum en þó landað slatta af þeim en nánast alltaf hefur það verið 1 árs lax eða "litlir" 2 ára laxar. Þetta var bara allt annar handleggur enda var ég búinn í handleggjunum. Það stoppaði mig ekkert í því að fara aftur að veiða þegar ég var búinn að taka myndir af mér með laxinum og láta aðra mynda mig með laxinn.

Laxinn nýkominn á land
Ég gerði nákvæmlega það sama og eftir smá stund var annar lax á. Hann var álíka stór en með miklu meiri læti. Hann var gjörsamlega brjálaður. Hann bylti sér og ég sá að hann var ekki eins leginn og sá fyrri og það leið ekki á löngu áður en hægri höndin mín var farin að titra rækilega. Ég var meira að segja farinn að nöldra yfir því hvað þetta væri erfitt sem mér finnst eftir á að hyggja alveg fáránlegt af mér. En bardaginn stóð bara í nokkrar mínútur og þá kom flugan fljúgandi upp úr vatninu. Ég missti hann og hálfpartinn nagaði mig í handarbökin fyrir að vera svona vanþakklátur. Ég storkaði örlögunum og átti ekkert skilið að landa þessum fiski. Ég kíkti á tauminn til að sjá hvort hann væri eitthvað tæpur og hvort flugan væri í lagi og sá þá að risastór þríkrókur var fastur við krókinn minn aftan við túpuna. Kannski húkkaði ég í þríkrók sem var fastur í fisknum? Ég alla vega á bágt með að trúa að þessi þríkrókur hafi verið notaður í annað en að reyna að húkka fiska. Fannst ekki gaman að finna hann og vona að laxinn hafi verið ánægður með að hafa losnað við þetta úr sér. En áfram hélt ég svo að veiða og næsta klukkutímann fékk ég nokkur högg og nokkur svona "hann var næstum því á" eða "hann var á í 2-3 sekúndur". Það var bara nóg að gera en ekki var hann að festa sig almennilega hjá mér. Ég var hins vegar að ná að pirra laxana hressilega. Ekkert gekk hjá Jóa þannig að ég lánaði honum hitt eintakið sem ég átti af Iðunni. Hann kastaði á fiskana og leit svo við og var að ræða við mig og aðra nærstadda þegar allt í einu small í stönginni hans. Risalax hafði tekið agnið og línan hans Jóa sem var með smá slaka flæktist utan um handfangið neðst á stönginni þannig að línan stoppaði alveg í stað þess að bremsan hleypti henni út. Laxinn hafði slitið 20 punda taum á sekúndubroti með ekki meira en 10 cm tilhlaup. Við sáum seinna um kvöldið einn bolta í fyssinu sem var 20-25 pund og okkur finnst líklegt að það hafi verið hann sem sleit.

Ein taka í viðbót

Ég reyndi aftur og eftir 10-20 mínútur setti ég í enn einn boltann. Hann var nautsterkur og sjónarmun stærri en sá sem ég hafði landað. Þessi var ekki eins fjörugur og sá sem ég hafði misst og meira leginn. Hann barðist samt um og togaði hressilega í en bylti sér ekki og sveiflaði sér eins og laxinn sem slapp. Það var hrikalega gaman að eiga við hann. Krafturinn í honum var mikill og ég fann þreytuna koma í handlegginn eftir nokkrar mínútur. En þá skaust flugan upp úr. Ég missti þennan líka. Eftir þetta fékk ég nokkur högg og eina örstutta töku en fiskurinn losaði sig eftir nokkrar sekúndur. Alveg í lokin fékk ég eina töku í viðbót. Sá fiskur var á í 3-4 mínútur og var svipaður þeim sem ég hafði sett í og misst. Ég barðist við hann í c.a. 7-8 mínútur áður en flugan losnaði úr honum. Bardaginn var hvergi nærri búinn og fiskurinn átti nóg eftir en var vel leginn og ekki með mikil læti, heldur þungur og togaði ákveðið. Það var því ekki í spilunum að landa fleiri fiskum í þessari ferð en ég var hrikalega sáttur við góðan dag. Þó maður landi ekki fiski þá er hrikalega gaman að vera í bullandi séns tímunum saman og ekki á hverjum degi sem maður landar stærsta laxi ævi sinnar.


Styrjuveiðar í Kanada

Fjórði september 2016 verður dagur sem ég mun aldrei gleyma. Dagur sem ég mun tala um við hvert tækifæri sem ég fæ.

Ævintýrið á upptök sín fyrir mörgum árum þegar ég fór að grennslast fyrir um hvað hafi orðið um ættmenni mín sem fluttust vestur um haf. Langalangafi minn flutti til Kanada fyrir hartnær 100 árum og skildi eftir hér á landi langömmu mína og bróður hennar. Í Kanada átti hann fleiri börn og fleiri afkomendur og mig langaði alltaf til að vita eitthvað um þessa ættingja mína.

Til að gera langa sögu stutta komst ég í samband við nokkra þeirra með aðstoð netsins og enn fleiri þegar Facebook kom til sögunnar. Einn frændi minn er mikill veiðimaður og við fórum að spjalla saman vegna þessa sameiginlega áhugamáls.

Allt er fertugum fært
Í desember síðastliðnum varð ég fertugur og mér datt þá í hug að láta langþráðan draum minn rætast um að ferðast til Kanada og hitta einhver ættmenni mín sem þar búa. Ég bað þá alla sem ég bauð í afmælið mitt um að gefa mér gjafabréf hjá Flugleiðum. Flestir gerðu það og ég var þá kominn með nóg fyrir mig og kærustu mína til að fljúga til vesturstrandar N-Ameríku.

Ég hafði samband við ættmenni mín þar og allir voru að vilja gerðir. Sara frænka mín í Seattle ætlaði að hýsa okkur fyrri vikuna og svo ætlaði Gary frændi minn í Kanada að hýsa okkur í viku þar. Enn var ég ekkert mikið með hugann við veiðar og bið ykkur veiðiáhugamenn afsökunar á þessum langa aðdraganda en ég lofa því að hann er vel þess virði.

Laxar í þúsundavís
Í Seattle er laxastigi þar sem ógurlegt magn af löxum og sjógengnum silungi gengur upp. Stiginn er byggður þannig að á hluta hans er gluggi þar sem við mannfólkið getum horft inn og séð þessa fiska mjög vel af mjög stuttu færi.

Daginn sem við fórum voru nokkrar tegundir fiska að fara um laxastigann. Eitt tröll var í stiganum en hann var ekki hrifinn af áhorfendum og hélt sig í skugganum fjærst glerinu og ég náði aldrei góðri mynd af honum. En hann var a.m.k. þrisvar sinnum stærri en 15-20 punda fiskarnir sem ég sá slatta af. Mér var sagt að það sé talsvert um 60-70 punda laxa sem fari þarna í gegn.

Ég var agndofa og fylgdist með þeim koma sér upp stigann. Fyrir utan gat maður horft yfir sjóinn þar sem fiskarnir hringsóluðu meðan þeir voru að venjast ferskvatninu og þar innan um sá ég heilan helling af risastórum löxum. Ef ég hefði verið með stöng á mér þá hefði ég sennilega ekki staðist mátið og endað í fangelsi seinna um daginn.

Annað stórmerkilegt þarna var að þarna stóðu nokkur ansi sver rör í röðum en opnað er fyrir þau þegar risastórar vöður fullar af laxaseiðum reyna að komast til sjávar. Þegar slíkt er í gangi er það gríðarlegt sjónarspil og svipar til þegar landað er úr lest á fiskveiðiskipi sem er stútfullt af loðnu. Stóru sugurnar sem sjúga úr lestinni og dæla út úr sér í kör í landi eru líklega það næsta því sem við komumst hér á landi til að sjá eitthvað þessu líkt. Úr þessum rörum sprautast milljónir seiða, svo mikið að það varla sést í vatn með fiskunum á tímum. Því miður var þetta ekki í gangi þegar ég var þarna þannig að ég þarf bara að ímynda mér þetta eins og þið hin sem hafið ekki séð þetta.
laxastigiseattle

Kanda er náttúruparadís
Enn hafði ég samt ekkert farið neitt að veiða enda var það ekki tilgangur ferðarinnar. Gary frændi minn hafði samt talað um að fara með mig eitthvað að veiða en ég hafði ekkert pælt í því mikið enda ekkert búinn að skoða hvað væri í boði. Þekking mín á laxveiði hér á landi er að hún er svo dýr að maður bíður ekki félögum sínum í þannig veiði nema maður sé verulega loðinn um lófana.

Svona er þetta ekki í Kanada. Ef þú ert með heimili í Kanada og ríkisborgari þá borgarðu rétt rúmar 3.500,-kr fyrir ársleyfi í lax, sjóbirting ofl. Það er nokkurs konar Veiðikort í flestar árnar þarna á svæðinu og ekkert takmark á stöngum. Það eru ákveðnar takmarkanir eins og það má bara nota einkrækju sem er agnaldslaus. Það þarf að sleppa vissum tegundum og sum staðar er kvóti á hvað þú mátt hirða marga fiska en annars má nota nánast hvaða beitu sem er svo framarlega sem hún sé ekki mengandi. Hrogn eru að vísu bönnuð a.m.k. á sumum stöðum vegna smithættu.

En, í þessum ám eru 2-3 mismunandi laxategundir 1-2 mismunandi sjógengnir silungar og margar aðrar fisktegundir. Á meðan þú ert að veiða sérðu nokkra erni flögra um og hauka auk þess sem þú gætir séð 2-3 bjarnartegundir, nokkrar tegundir dádýra, refa og fleiri dýrategundir. Það er alveg ólýsanlegt að vera að keyra milli staða og sjá 7 svartbirni og nokkra erni flögra um.

Smá laxveiði til að byrja með
Eftir að hafa hitt frænda minn Gary í eigin persónu loksins eftir nokkra ára spjall á netinu þá settumst við í bílinn hans og keyrðum í 8 klst um Bresku Kólumbíu þar til við komum til Quesnel (borið fram Kvennel) sem er heimabær hans. Allan þennan tíma keyrðum við meira eða minna eftir Frasieránni sem gefur okkur einhverja hugmynd um hversu löng hún er. Allar ár á svæðinu og lengra inn í land því við vorum enn ekki komin að upptökum hennar renna í Frasieránna. Það þýðir að allir sjógengnir fiskar þurfa að ferðast upp árósa hennar og upp ánna til að komast í sína á.

Sumir laxarnir ferðast yfir 1.000 kílómetra til að hrygna á æskustöðvum sínum. Eftir nokkra daga af skoðunarferðum um nærsveitir Quesnel fórum við á landareign frænda eiginkonu Gary. Hann á stóra eign marga kílómetra meðfram Quesnelá sem er ansi stór og flott á á íslenskan mælikvarða. Þar var æðisleg aðstaða og við reyndum okkar við veiðar en án árangurs. Ég fékk nokkur högg og oft var elt hjá mér en það voru allt c.a. 20 cm laxaseiði.

Við grilluðum hádegismat yfir opnum eldi og skemmtum okkur vel þrátt fyrir fiskleysið en ég gat ekki hætt að hugsa um hvað þetta væri flott. Ef þessi staður væri á Íslandi væri þessi bóndi moldríkur af sölu laxveiðileyfa og skotveiðileyfa. Öll landareignin var skógi vaxin með aragrúa af dádýrum og fullt af stöðum meðfram ánni sem voru mjög veiðilegir.
Laxveiði í Quesnelá

Styrjuveiðin undirbúin
Til að mega veiða styrju þurfti ég að kaupa tvenns konar veiðileyfi. Það er almennt veiðileyfi bara upp á það ef ég hefði fengið aðra tegund af fiski á færið og líka ef við hefðum þurft að veiða beitu. Almenna veiðileyfið fyrir einn dag fyrir útlending eins og mig kostar 20 kanadíska dollara en kanadískinn dollarinn var 92 kr þegar ég var að versla leyfið.

Einnig þurfti ég dagsleyfi í styrjuveiði sem kostaði 15 kanadíska dollara í viðbót. Ekki fannst mér þetta mikill peningur fyrir veiði þar sem var laxavon og þaðan af síður veiði á styrjum sem geta orðið ansi stórar.

Gary fékk fjölskylduvin sem var búinn að vinna sem leiðsögumaður við styrjuveiðar í 25 ár. Hann útvegaði bátinn, stangirnar, beituna og gríðarmikla þekkingu. Ég veit ekki hvað slíkt kostar almennt en mörg fyrirtæki eru í þessum bransa þarna. Við fengum hann á 400 kanadíska dollara daginn.

Allt var nú klárt og bara spurning um að koma sér á staðinn. Veiðin sem við vorum að fara í var við bæinn Chilliwack sem er mjög nærri Vancouver. Vikuna áður hafði 600 punda styrja veiðst á svæðinu sem við vorum að fara á. Ég hélt vonum mínum í lágmarki og var alveg eins búinn undir að fá ekki neitt.

Styrjuveiðin hefst og það með látum
Styrjuveiðin hófst á sleginu átta um morguninn. Við hittum Dan, leiðsögumann okkar og fórum á bátnum hans á stað sem hann taldi vera góðan á þessum tíma. Þar voru fyrir 7-8 bátar og lítið pláss. Við reyndum því fyrir okkur frekar stutt þar og færðum okkur enda var enginn að fá fisk og við fengum ekki nart.

Næsti staður var greinilega góður. Þar var fyrir einn bátur en Dan og skiptsjórinn á hinum bátnum voru þeir einu sem vissu að það væri mikið um styrjur þarna á þessum tíma. Þeir kinkuðu kolli og brostu því þeir voru einir um þennan stað fyrir kúnna sína. Þegar við komum var einn farþeginn á hinum bátnum að berjast við styrju, þetta leit mjög vel út. Við fundum okkur stað og hentum út fjórum mismunandi beitum á fjórum stöngum. Við beittum laxahrognum (mátti nota þau þarna), Squawfish sem er ekkert ólíkur silungi og var 30cm langur kræktur í gegnum hausinn og sporðurinn klipptur af, hluti af ál og að lokum beittum við stærðarbita af laxi.

Við urðum fljótlega varir við nart en ekki tók hann strax. Nokkrum sinnum í viðbót var nartað og ég þorði ekki öðru en að sitja á mínum stað tilbúinn að fá stöngina. Skyndilega var línan dregin hressilega út. Beitan er fest við sökku ekki ósvipað og vinsælt er í Veiðivötnum þannig að sökkan er laus fyrir ofan segulnagla og því getur fiskurinn tekið beituna og dregið línu út án þess að átta sig á að beitan er fest við línu. Línan dregst í gegnum sökkuna og því veitir sakkan enga mótspyrnu.

Dan greip stöngina og kippti hressilega í til að festa öngulinn og rétti mér stöngina. Þá hvein hressilega í hjólinu og styrjan rauk út. Um 300 metrar af níðsterkri línu er á hjólinu og styrjan dró a.m.k. 150 metra af línu út þegar hún loksins stoppaði. Þá tók við hressileg líkamsrækt þar sem ég hamast við að draga styrjuna inn með sömu tækni og notuð er í sjóstöng þegar menn veiða stóra fiska. Ég notaði líkamsþyngdina til að draga styrjuna nær og hallaði mér vel aftur og þegar ég reisti mig upp halaði ég línu inn af miklum móð. Endurtekningarnar voru svo margar að ég kófsvitnaði í 25 stiga hitanum og fann handleggi mína byrja að skjálfa undan álaginu.
Styrja á stönginni

Styrjan barðist eins og bleikja....risastór bleikja
Styrjur berjast mjög misjafnlega eins og margar fisktegundir gera. Dan sagði mér að ein styrja sem kúnni hjá honum barðist við hafi stokkið 17 sinnum. Það hafi verið tilkomumikil sjón að sjá 60 kílóa styrju stökkva upp úr vatninu og lenda með öllum sínum þunga á því aftur og skvetta vatni í allar áttir langar leiðir. En mín var ekkert að leyfa okkur að sjá sig.

Hún tók strauið að mér og ég hélt að ég hefði misst hana því öngullinn var agnaldslaus en þegar ég náði að hala inn og strekkja á línunni var hún enn á. Hún límdi sig við botninn og togaði og togaði á móti mér. Hún notaði strauminn í ánni til að hjálpa sér og gerði mér mjög erfitt fyrir. Dan herti á bremsunni og ég tók vel á henni. Eftir dágóða stund kippti Dan í línuna hjá mér og áttaði sig á því að hann hafði hert hana alltof mikið þannig að hún gaf ekkert eftir og losaði hana því fyrir mig. Mér létti mikið því ég var ekki að sjá fyrir mér að geta haldið þetta út eins og staðan var.

Bremsan gerði það að verkum að ég gat hvílt mig meðan styrjan gat það ekki. Þegar hún tók enn eitt strauið út þreytti bremsan hana meðan ég beið með beina handleggi eins afslappaður og hægt var í þessum kringumstæðum. Ég dróg hana að bátnum og hún tók strauið út nokkrum sinnum. Handleggirnir á mér voru orðnir mjög aumir og ég vissi að ég myndi finna fyrir þessu daginn eftir. Þegar þetta er skrifað nærri viku seinna finn ég ennþá auma bletti á upphandleggjunum eftir margra daga harðsperrur.
Hörkuátök

Loksins sýndi hún sig
Þegar styrjan var komin ansi nálægt bátnum þá hófst baráttan mín við að toga hana upp frá botninum. Hún var ekkert á því en var orðin mjög þreytt og á endanum kom hún upp í yfirborðið í andartak og fór niður aftur.

Loksins sá ég hana og þvílík fegurð. Þessi forna skepna var og er langstærsti fiskur sem ég hef barist við. Útlitið svo framandi að það minnti mig á risaeðlu enda kom þessi fiskur fram á sjónarsviðið fyrir 175 milljónum ára og hefur lítið breyst síðan.

Þessi styrja er af tegundinni hvítri styrju sem er þriðji stærsti vatnafiskur í heimi. Beluga styrjan verður stærst og hrognin hennar eru hinn eini sanni Beluga kavíar. Næst kemur Kaluga styrjan. Styrjutegundir eru því í þremur efstu sætunum yfir stærstu ferskvatnsfiska í heimi. Hvíta styrjan getur orðið allt að 816 kg og 6,1 en metri að lengd. Hún getur orðið meira en 100 ára gömul. Hún er ekki með hreistur en er með einhvers konar brodda á líkamanum sem eru "eitraðir" þannig að það er mjög óþægilegt að stinga sig á þeim. Styrjurnar eru þó duglegar að velta sér á borninum og slípa oft þessa brodda niður. Þegar svo er þá er óhætt að koma við þær og strjúka.

Þegar vissri stærð er náð þá eiga þær enga náttúrulega óvini í umhverfi sínu þannig að þær setja sig ekki í mikla hættu með því að slípa broddana sína svona niður. Maðurinn hefur vissulega gengið ansi nálægt stofninum enda mikill matur í þessum fiskum. Indíánar í N-Ameríku fóru ekkert sérlega vel með þessa fiska þó þeir hafi aldrei gengið nærri stofninum eins og Evrópubúar gerðu þegar þeir komu til álfunnar. Indíánarnir veiddu þessa fiska og bundu þá lifandi í ánni við bakkann þannig að þeir gátu andað en ekki sloppið. Svo skáru þeir sér bita eftir þörfum og voru orðnir ansi lunknir við að halda lífi í fiskinum með því að skera réttu bitana í réttu magni þar til fiskurinn þoldi ekki meir og dó. En fram að því hélst kjötið ferskt sem var mikilvægt á tímum þar sem engir ísskápar eða frystiskápar voru til.

En ég var hins vegar alveg agndofa þegar ég sá hana loksins. Ég var hreinlega auðmjúkur í návist þessarar skepnu sem kom fram svo fullkomin fyrir svo löngu að hún hefur lítið sem ekkert þurft að aðlaga sig og þróast. Enn átti hún talsvert eftir af kröftum en hún var orðinn mjög þreytt.
Gleði þegar styrjan loks sýndi sig

Kominn tími til að koma bátnum að landi
Dan ræsti vélina í bátnum og losaði akkerin en það þurfti tvö akkeri til að halda bátnum kyrrum meðan bardaginn stóð yfir. Svo sigldi hann varlega og nýtti sína reynslu til að koma okkur að góðum stað í ánni þar sem hægt var að "landa" styrjunni. Hún fór reyndar aldrei á land en það þurfti að vera hægt að taka myndir, mæla og merkja fiskinn áður en honum var sleppt.

Dan strandaði bátnum á sandströnd og ég hélt áfram að berjast við fiskinn. Á tímabili togaði styrjan okkur af strandstaðnum þannig að Dan þurfti að auka kraftinn á vélinni sem hélt okkur föstum við bakkann og stranda okkur aftur. Svo þegar styrjan var alveg búin á því og farin að láta að stjórn þá fór Dan út í ánna og ég rétti honum stöngina. Við Gary fórum útí til hans og aðstoðuðum hann við að mæla styrjuna. Hann fann fljótt að hún var búin að slípa alla brodda af sér og mér var því óhætt að koma við hana en fálmararnir þrír undir hökunni á henni má alls ekki snerta því þeir eru mjög viðkvæmir og mikilvægir henni.

Styrjan var skönnuð og í ljós kom að ekkert örmerki var í henni. Hún hafði því aldrei áður veiðst a.m.k. ekki frá því örmerkingar hófust. Mitt nafn var því tengt við númerið á örmerkinu sem Dan var með, því komið fyrir í sprautu og sprautað undir húðina á styrjunni. Það er því styrja syndandi í Frasieránni núna með mínu nafni. Hún verður alltaf með mínu nafni en ef aðrir veiða hana líka þá kemur nafn þeirra inn á lista yfir menn sem hafa veitt hana en nafn fyrsta veiðimannsins er alltaf tengt númerinu og birtist alltaf. Svo þarf að skoða fiskinn nánar til að sjá hvort fleiri hafi veitt hann. Þetta var svona aukabónus ofan á það að veiða svona stóran fisk.

Styrjan mældist 203 cm á lengdina og 70cm ummál. Hún reiknast til að vera 72.5 kílógrömm miðað við þessar mælingar. Stærsti fiskur sem ég hef veitt fyrir þetta eru nokkrir 10 punda fiskar og þótti mér þeir svakalegir þegar ég veiddi þá. Þetta skemmir samt ekkert fyrir mér að veiða hérna heima en þetta verður alltaf mjög ljúf minning. Fleiri fiska fengum við ekki þennan daginn þó við höfum orðið vör við nokkur nört þá tók enginn annar agnið. Dagurinn var hins vegar frábær, veðrið æðislegt, náttúran og allt umhverfið dásamlegt og ég alveg í skýjunum.
Myndataka með styrjunni

Ég get upplifað þennan bardaga aftur og aftur í huganum en það er skemmtilegra að horfa á þetta á vídeói. Gary tók vídeó af bardaganum en missti af fyrstu 2-3 mínútunum. Ég ætla að deila þessum tveimur myndböndum með ykkur. Fyrra myndbandið er mun lengra og sýnir meirihlutann af bardaganum en seinna vídeóið sýnir að mestu þegar við erum að mæla og merkja fiskinn.

Allir fagna þegar styrjunni hafði verið sleppt


Ekki kasta í veiðimanninn

Um helgina fór ég með börnin mín, kærustuna mína og börnin hennar í útilegu til skátanna við Úlfljótsvatn. Ég þorði nú ekki að taka veiðistangir með því það yrði ekkert vinsælt ef ég hyrfi á brott og skildi hana eftir með stóðið. En fyrsta spurning þegar við vorum komin á staðinn var frá krökkunum um hvort þau mættu fara að veiða. Þá uppgötvaði ég að þarna gerði ég stór mistök og hefði átt að kippa með stöngum fyrir alla.

Gestir koma mér til bjargar
Systir kærustunna minnar kom svo daginn eftir með sína fjölskyldu og vinafólk og voru tjaldbúðir okkar orðnar stórar. Mágur kærustunna minnar og bróðir hans eru miklir veiðimenn og þeir voru með stangir. Nú var tækifærið komið og við fórum með krakkana að veiða og svo fengu krakkarnir leið á þessu og við urðum eftir. Fiskurinn var að vaka um allt vatn og eitthvað var hann að éta. Líklega hefur hann verið að éta eina stærð af einni tegund af púpu og vildi ekkert annað því það þýddi ekkert að kasta á þá, það gerðist nánast ekkert. Stundum smá högg og stundum einn tittur. Við gáfumst ekkert upp og buðum fiskunum allt sem var í boxinu. Verst að strákarnir komu bara með þyngdar púpur og fiskurinn var bara í yfirborðinu.

Við bara athugum málið nánar
Þetta kvöld sem við vorum við veiðar þarna var hið fyrra af tveimur. Daginn eftir þetta slæma gengi okkur vorum við á því að þetta hefðu bara verið einhverjir tittir að megninu til. En úti var sól og blíða og mikill hiti og þessir félagar mínir, kærastan mín og systir hennar eru öll miklir sjósundsgarpar. Þau ákváðu að þetta væri bara of freistandi fyrir þau og skiptu í sundföt og smelltu sér í vatnið. Ég var að sjálfsögðu dreginn með og ætla ekki að halda því fram að ég hafi borið mig hetjulega, en útí fór ég og synti að bauju nokkurri þarna smá spotta frá landi. Einn smellti sér í blautbúning og fór að "free dive"-a og sagðist vera að tékka á því hvort það væru bara tittir þarna rétt fyrir utan að stríða okkur. Hann sá hóp af 2-3 punda bleikjum og synti með þeim um stund. Silungar virðast ekki óttast þessa tegund kafara og telja menn það sé vegna þess að það koma engar loftbólur frá þeim. Þeir halda bara í sér andanum og synda um í kafi án þess að vera með nein læti. En þá vissum við það að þarna væru alveg sæmilegir fiskar á ferð og um kvöldið ætluðum við okkur að veiða nokkrar vænar bleikjur.

Þolinmæði er dyggð
Við reyndum aftur allt í boxinu um kvöldið en ekkert gekk. Að endingu þá prófaði ég agnarsmáa Ölmu Rún og reyndi bara að láta hana nánast liggja. Dró hana ofurhægt inn með áherslu á OFUR. Þá fór þetta að ganga. Ég tók þrjár bleikjur á stuttum tíma en varð svo að hætta þegar stór hópur af breskum skátum komu niður að vatni og fóru að fleyta kerlingar í gríð og erg. Ein stelpan sýndi vott af tillitsemi þegar hún sagði hinum að passa sig að kasta ekki í veiðimanninn. Við létum þetta nægja en lexían þarna var að fiskurinn var ekki bara að éta í yfirborðinu heldur var það stærðin á flugunni og inndrátturinn sem skipti öllu máli.Comments are closed.

Back to Top ↑
  • FLUGUFÓTUR

    FLUGUFÓTUR
  • Sigurgeir er búinn að hafa mikinn veiðiáhuga síðan hann var pjakkur í Árbænum sem hjólaði með stöngina á stýrinu upp í Elliðavatn og eyddi heilu dögunum þar við veiðar með flot og flugu. Hann stundar helst vatnaveiði en hefur nokkur síðustu ár tekið einn og einn túr í straumvatn. Flugustangveiði á hug hans allan þó ekki sé hann fordómafullur í garð kaststanga sem hann grípur í endrum og sinnum. Sigurgeir setur sér sama markmið á hverju ári og það er að sigrast á einu nýju vatni, þ.e.a.s. veiða fisk í vatni sem hann hefur aldrei veitt fisk í áður á hverju einasta ári. Það þykir honum skemmtilegt því það krefst þess af honum að hann leiti upp ný vötn/straumvötn og leggi stund við það þar til markmiðinu er náð.
  • Nýjustu fréttir