Veiðisjúrnall Atla Bergmann

Haustið ekki eins erfitt eftir að byssuleyfið kom til

Haustið var mér erfitt fyrstu ár veiðimennskunnar. Fyrirsjáanleg var löng bið. En, þetta hefur gjörbreyst eftir að ég fékk mér byssuleyfi og fór að ganga til rjúpna, svo koma jólin og eftir það hækkandi sól og vorveiðin framundan.

Undanfarinn 10 ár hef ég endað stangveiðitímabilið austur í Steinsmýrarvötnum í sjóbirtingi og yfirleitt veitt ágætlega. Og nú allra síðustu ár hefur haglabyssan fengið að fljóta með og nokkrar endur og gæsir teknar í leiðinni.

atli-bergmann-med-birting

Bálhvasst var en þegar dúraði mátti finna birting og staðbundinn urriða.

Núna þessa lokahelgi 7.-9. október var eins og oft áður mikil rigning og bál hvasst. En, þegar dúraði á milli fundum við fallega birtinga og staðbundna urriða í bland. Ekki spillti fyrir að með okkur var glæsilegur gráhegri sem hefur kjöraðstæður þarna.

Þegar veðrið er erfitt og maður er orðinn veiðisaddur er gott að hafa með í för stórveiðimanninn Bjarna Brynjólfsson sem er einnig meistara kokkur og hann galdraði fram veislumat úr stórri gæs sem ég hafði skotið sjálfur. Já, það er dásamlegt þetta veiðimannalíf.

atli-bergmann-birtingur


Skyn og skúrir í Laxá í Kjós

Það er eitthvað svo dásamlegt við haustveiðina þetta hvað maður fær mörg sýnishorn af veðri og breytilegar aðstæður við veiðina þar sem sannarlega er fullt af lax eins og tilfellið er með Kjósina.

Við Bjarni Brynjólfsson vorum saman á stöng núna 19 - 20 september þriðja árið í röð með góðum hópi. Einn af mörgum góðum kostum Bjarna er hversu lunkinn silungsveiðimaður hann er, því eins og menn vita að þó að laxveiði geti sannarlega verið skemmtileg þá er silungsveiði fyrir lengra komna. Og þannig háttar til í Kjósinni að þar er frábær stofn sjóbirtings sem og með Bugðunni sem rennur úr Meðalfellsvatni. Þetta er mjög fjölbreitt veiðisvæði.

Við gerðum frábæran túr, fengum þrjá laxa þar af eina 83 sentímetra hrygnu á stað sem heitir Gaflhylur og er alla jafna lítt veiddur. Þangað hafði ég rölt af rælni síðustu vaktina. Þá hafði ég einungis fengið nokkra sjóbirtinga en engan lax meðan Bjarni var búin að fá lax í Bugðunni. Þegar þarna var komið sögu þá var áin orðin vel bólgin og nokkuð lituð eftir úrhellisrigningu og ekkert annað í stöðunni en að setja þýska snældu undir.

atli-kjos2

Þegar þarna var komið sögu var áin orðin vel bólgin eftir rigningar, lituð og ekkert annað í stöðunni en setja þýska snældu undir.

Fljótlega eftir að ég byrjaði stekkur þessi líka stóri fiskur neðarlega á breiðunni. Ég kasta strax beint á hann og flugan er negld. Ég gætti þess að fara í engu óðslega nema það að fljótlega kemur í ljós að þetta var „bara“ venjulegur lax; vænn 64 sentímetra hængur sem ég næ að landa. Og var heldur betur ánægður.

Nema hvað, eftir örlitla pásu og myndatöku ákvað ég að prófa aftur og kastaði á sama stað. Þá gerist það sem er svo frábært við veiði, þetta ógleymanlega andartak, sem að þessu sinni var þannig að þegar flugan skautaði yfir tökustaðinn stökk stóri fiskurinn hálfur uppúr vatninu og stingur sér niður á fluguna og neglir hana. Búmm! Og þvílík barátta sem reyndist fyrir höndum. Hún endaði með því að þessi stóra hrygna synti aftur út í hylinn sinn, „single“ að þessu sinni reyndar, en er örugglega búinn að fá nýjan hæng sér við hlið þegar þetta er skrifað.

Alltaf hef ég fengið stóra fiska í Kjósinni, ef ekki stóra laxa þá stóra sjóbirtinga og þetta árið reyndist sá stóri lax en allir birtingarnir og nokkrir urriðar voru að þessu sinni frekar litlir. En, alltaf er nú jafn gaman að fá fisk.


Þegar vér feðgar núlluðum og mokveiddum í sömu ferð

Eftir að hafa kynnst Haukadalsá í fyrra þá má segja að mesta eftirvæntingin fyrir þetta veiðisumarið hafi verið að komast aftur þangað; ein besta fluguveiðiá sem ég hef kynnst.

Til að krydda aðeins uppá túrinn sem var sunndagur 11. september til þriðjudags 13. september þá bókaði ég einnig Þverá laugardaginn 10. september. Hér er um að ræða litla þverá sem rennur í Haukadalsá, en þannig hagar til að einungis ein stöng er seld í einu í einn dag og áinn hvíld þess á milli.

atli-hauka2

Haukan brást hvergi og fengum við feðgar fisk á öllum veiðisvæðum.

Engin gisting eða vegur er í Þverárdal og átti það eftir að hafa áhrif vegna þess að við hrepptum þvílíkt ofsa veður með roki og rigningu að vöðlurnar héldu vart vatni! Við feðgar börðumst í 3 og hálfan klukkutíma á móti rokinu til að fresta þess að komast í efstu staðina en urðum frá að hverfa vegna óveðursins. Á leiðinni stoppuðum við þó við einn fallegan hyl þar sem var fullt af laxi að stökkva og reyndum að kasta á hann en oftar en ekki feykti Kári línunni upp í loft í hviðunum og eftir að hafa sett í tvo laxa sem láku af var haldið í þriggja tíma göngu aftur til byggða þar sem bíllinn beið og síðan í hús og í heita pottinn og sofið í 12 tíma.

atli-hauka4

Föðurbetrungurinn með einn 100 sentímetra.

Næsti dagur var dásamlega fallegur með hægum vindi og skiptust á sól og smáskúrir og sæmilegur hiti. Og, það sem er mest um vert, gott vatn í Haukadalsánni eftir alla rigninguna.

Skemmst er frá því að segja að ég og Heiðar Valur sonur minn áttum einn skemmtilegasta túr ársins í Haukunni. Við urðum varir við fisk í öllum hyljum og tókum fisk á öllum svæðum frá 1 til 5 og allt vænir frá 60 - til 75 sentímetrar. Samtals 13 laxar komu á land og ekki nóg með það þá tók þessi meistari og föðurbetrungur, hann Heiðara Valur, einn 100 sentímetra dreka takk fyrir.

Það voru fimm stangir í þessu tveggja daga holli og það komu 56 laxar á land og gaman að geta þess að Haukan var einmitt að skríða yfir 1000 laxa þessa vikuna. Já það er dásamlegt þetta veiðimannalíf.


20 pundari og Maríulax bassaleikara

Þetta er þriðja árið í röð sem ég hef verið með í holli í Mýrarkvísl 29. til 31. ágúst og alltaf er gaman og mikið líf. En, nú toppaði veiðigyðjan sig, lukkan og allar heillastjörnur.

Með mér á stöng kom gamall og góður vinur hann Bjarni Bragi Kjartansson hvurs frægðarsól reis hæðst þegar hann var bassaleikari Sniglabandsins. Hann hafði aldrei veitt í rennandi vatni og aldrei reynt við, hvað þá sett í lax þó að hann væri sæmilega vanur í vatnaveiði. Og það sem skiftir miklu máli að mínu mati: „Fly only“ gaur.

Maríulax bassaleikarans
Fyrir þá sem ekki vita hefur Matthías Þór Hákonarson gert kraftaverk í uppbyggingu árinnar með innleiðingu veiða/sleppa fyrirkomulagi á laxinum. Það hefur þegar borið mikinn árangur í þessari perlu Norðurlands sem liðast um heiðina í mjúkum bugðum og síðan um ægifögur gljúfur og þá aftur mjúklega í gegnum engi þar til hún sameinast Laxá í Aðaldal.

Mér hugnast best fjölbreytileikinn sem fellst í því að þarna er öflugur stórlaxastofn, þá er mikið af stórum urriða í ánni og efst er bleikja, ef menn vilja. Það kom kannski kom sjálfum mér mest á óvart í þessari ferð var hversu rólegur ég sjálfur var og þolinmóður gagnvart félaga mínum og hversu ánægjulegt það er að gæda mann í sinnum fyrsta laxveiðitúr, sem gekk svo fullkomlega upp. Fyrst setti hann í lax en sem vanur silungs veiðimaður brá hann fljótt við og kippir úr honum áður en laxinn náði að snúa sér. Næst setti hann í góðan lax og er búinn að vera með hann á í góðan tíma þegar hann óvart gefur slaka á línuna og laxinn lekur af. Og svo, í þriðja sinn, gerir Bjarni Bragi allt rétt og nær þessum fína 70 sentímetra hængi. Maríulaxinn. Gleðin var mikil hjá okkur öllum þrem, ég með félagann og hann með laxinn og laxinn sjálfur með frelsið þegar honum var rennt aftur í hylinn.

bjarni-bragi-med-mariulax

Í þriðju tilraun gerði Bjarni Bragi allt rétt og hér má sjá hann ánægðan með glæsilegan maríulax sinn.

Dansað við 20 pundara með sexu
Sjálfur var ég sáttur með 5 laxa og einn 4 p urriða, en það besta var stóra 97 sentímetra hrygnan sem ég tók á netta T&T stöngina mína fyrir línu #6. Hún tók míni Þýska Snældu-túbu og þvílík átök. Og, Guð minn góður hvað ég var stressaður þegar hún stökk skömmu eftir að ég setti í hana neðst í strengnum á veiðstað #49 Straumbrotinu. Það varð mér til gæfu að hún stökk strax því þá gerði ég mér þegar grein fyrir við var að eiga. Hófst þá baráttan, eða eigum við heldur að segja dansinn, því að ef þú ert með 20 pundara öðrum megin og á hinum endanum er stöng fyrir línu 6. Þá þarf allt að ganga upp bæði leikni og tækni og slatta af heppni. Ég gat haldið henni uppí straumnum í góðan tíma og endaði svo að ná henni í dautt vatn með miklum gróðri þar sem Bjarni Bragi kom og náði háfnum undir hana.

Himnarnir opnuðust og allt varð svo fallegt eitthvað þar sem við sátum saman og köstuðum mæðinni, ég og þessi líka svakalega feita fallega hrognfyllta hrygna. Sjálfur var ég með harðsperrur í upphandlegg í nokkra daga á eftir og það má segja að það hafi verið nánast masókískur ánægjusársauki við það, enda minningin sterk.

Ég er búin að handsala það að verða á sama tíma í Mýrarkvíslinni að ári og hlakka mikið til.


Veiðifeðgar á ferð

Eftir að hafa startað laxveiðisumrinu í bæjarlæknum var ég orðin mjög spenntur fyrir árlegum laxveiðitúr sem ég fer með syni mínum Heiðar Val. Og nú var planið gott; fyrst að byrja rólega laugardaginn 6. ágúst í Alviðrunni í Soginu. Þá aðeins meira fjör í Bíldsfellinu einnig Sogið 7. til hádegis 8. ágúst. Og þaðan sama dag beint í gullið Langá í 3 daga eða til 11 ágúst.

Skemmst er frá því að segja að þessi fornfrægi veiðistaður sem Alviðran er; við hvorki sáum né urðum varir við sporð að þessu sinni, og ekki heldur hin stöngin sem var á móti okkur. Þar sem þetta var sama dag og haldin var mikil Gay Pride-hátíð í bænum fannst mér algerlega ótækt að taka Broke Back Mountain (sem er að fara í veiðitúr og koma fisklaus heim) á þetta og lagði til við son minn að við myndum stoppa við á Þingvöllum og athuga með kuðungableikjur, sem og við gerðum.

atl kuðungableikjur

Kuðungableikjurnar í Þingvallavatni björguðu deginum.

Á skömmum tíma var ég búin að setja í nokkrar bleikjur, sleppa þeim litlu en hirti tvær vænar, 2 - 3 punda í matinn. Frábær dagur.

Sogsbleikjan sannarlega ekki horfin
Næsta dag byrjuðum við á hádegi í Bíldsfellinu en það verður að segja þá sögu eins og hún er að lítið varð vart við lax og einungis 36 stykki voru komnir í bókina. Það var brjálæðislega gott veður, logn og sól og hiti, enginn lax en ég fékk tvo fallega urriða. Þann fyrri í Melhorni og þann seinni, sem var stór staðbundinn höfðingi, í Sakkarhólma. Ekki urðum við frekar varir og fórum í hús og elduðum kuðungableikjurnar frá kvöldinu áður.

Daginn eftir var sama blíðan og það var sofið út. Síðan ákváðum við að fara í Bíldsfellsbreiðuna og glíma við bleikju á þurrflugur og það var gaman. Bleikjan var mikið að vaka og virtist mikið af henni sem er gott eftir vangaveltur síðast liðins vors þess efnis að Sogsbleikjan væri nánast horfin. En, svo er aldeilis ekki. Það var lítil Black Gnat-þurrfluga sem gaf best og þrátt fyrir grannar tökur náðum við 8 stykkjum á land og misstum margar. Við slepptum öllum. Stórkostlegur morgun og fegurðin óendanleg.

Langá ást við fyrstu sýn
Þá var ekki seinna vænna en að ganga frá og bruna beint í Langá í Borgarfirði og hlakkaði ég mikið til. Ekki spillti fyrir að Heiðar Valur sonur minn hefur verið „gæd“ þar í sumar og var til í að kynna okkur, mig og Langá.

Við áttum fjallið fyrstu vaktina og þvílíkt landslag og fegurð og líf... já það var svo sannarlega mikið líf. Hann var stökkvandi hægri vinstri, upp og niður og út og suður. En... enginn taka. Já ástandið var svo þarna sem víðar í laxveiðiám á Vesturlandi að vegna langvarandi þurrka og hita og vöntun á nýjum smálaxagöngum var takan treg. Það eina sem var að virka voru micró-flugur og micro-hitch.

Á efsta veiðistaðnum sem heitir Ármótarfljót set ég í, nema hvað, væna bleikju sem ásamt náttúrufegurð og gnógt aðalbláberja, gerir þetta að frábærum degi.

Þung taka eða: „bvúmm“
En, næsta dag tók alvaran við. Nú skyldi sett í lax og það hafðist, Heiðar Valur „hitsaði“ upp smálax og við vorum kátir. Ekki minnkaði gleðin á seinni vaktinni þegar ég setti í sprækan hæng, 60 sentímetra sem við hirtum. Þess má geta að við fengum nokkrar tökur og misstum einnig nokkra eftir grannar tökur. Mikið af laxi var í ánni og sýnilegur. Mjög gaman.

atl í Langá

Greinarhöfundur alsæll í Langá.

Næsta dag gerðist það sem mann dreymir um og rætist stundum. Ég var með uppáhalds T&T #6 stöngina mína þegar ég byrjaði efst í veiðistað #24 Bakkastreng. Ég var með micró Francis með keilu, þegar það er þung taka. Svona: Bvúmm. Ég geriði mér strax grein fyrir að hann er stór og sú var raunin. Hann stökk þrisvar og straujaði sem betur fer fyrst upp eftir og eftir um 10 mínútur náði ég fyrst tökum á honum og byrja að þreyta og lempa hann inn. Eftir 20 mínútna viðureign náði ég honum á land og þarna var kominn þessi líka gullfallega 80 sentímetra hrygna. Allt var harla gott og henni sleppt.

Top rod og sem kóngur í húsinu
Daginn eftir, á afmælisdegi Heiðars Vals, er veðrið og vatnsbúskapurinn við það sama. Við ákveðum að prófa fáfarnari veiðistaði og fórum í gljúfrin að leita. Þá sá ég allt í einu lax stökkva skammt frá mér og tek eftir að hann er sæmilega bjartur. Og, viti menn, í öðru kasti negldi hann fluguna með þvílíkum látum og gusugangi og dansaði á sporðinum fram og til baka. Þarna landaði ég fallegum nýgengnum 59 sentímetra laxi og skömmu síðar setti sonur minn í annan sem fór svo af.

atl í langá2

Bjartur Langárlax.

Á seinni vaktinni hélt stökksýningin áfram og grannar tökur eða þar til að við komum í efri Hvítstaðarhyl. Afmælisbarnið byrjar og setur undir micró flugu og bomm; hann er á. Við löndum flottum 60 sentímetra hæng og dagurinn var fullkomnaður.

Þrátt fyrir allt vorum við „top rod“ í húsinu og harla sáttir enda allur viðgerningur; matur og aðstaða hæf kóngum og það var einmitt þannig sem manni leið eftir þessa drottins dýrðar daga í Langá.

Hér fyrir neðan má sjá Heiðar Val takast á við einn lax í Langá.

https://www.facebook.com/atli.bergmann.9/videos/10208612812810917/?permPage=1Comments are closed.

Back to Top ↑
  • Atli Bergmann

    Atli Bergmann
  • Atli Bergmann er einhver allra öflugasti veiðimaður sem Gripdeild þekkir. Og þekkja Gripdeildarmenn marga knáa kappa í þeirri deildinni. Atli notar hvert tækifæri og fer til veiða.

    Atli er alhliða veiðimaður, hefur sveiflað stöng sinni yfir óteljandi ám og vötnum og fyrir nokkrum árum náði hann sér í skotleyfi og þá er eiginlega engu kviku og telst til veiðibráðar óhætt.

    Atli Bergmann ætlar að leyfa lesendum að fylgjast með því sem á daga hans drífur í veiðinni með því að birta dagbókarbrot hér á Gripdeild; hvert hann fer og hvað hann veiðir.

  • Nýjustu fréttir